Autosan rúturnar – Undir stjórn Jaruzelskis 29/100

Sanok, bærinn minn, var þekktur fyrir nokkra hluti: Útisafnið, Beksiński-feðgana og auðvitað Autosan rúturnar.

CC-BY-SA 3.0. Höfundur: Fsopolonezcaro
Stolt bæjarins. CC-BY-SA 3.0. Höfundur: Fsopolonezcaro

Ég er ekki nógu vel að mér um bíla til að vita hvort einhverjar Autosan-rútur hafi einhvern tímann ratað til Íslands. Kannski veit Ómar Ragnarsson það. Eða kannski á hann slíka rútu.

Leit í timarit.is skilar einungis einni niðurstöðu með vörumerkinu Autosan. “Autosan – sturtuvagnar til sölu. Verð 199.000” segir í auglýsingunni sem er í Bændablaðinu 1991. En þá var ég orðinn ellefu ára. Og Jaruzelski var ekki lengur við völd.

Erkióvinurinn Jelcz

Autosan var ekki eina rútuverksmiðjan í landinu. Hitt vörumerkið var Jelcz [borið fram jelts, ef maður er Íslendingur]. Jelcz rúturnar voru framleiddar í bænum Jelcz í suðvesturhluta Póllands. Það fyrirtæki framleiddi líka brynvarða bíla og annað drasl fyrir herinn. Það var raunar byggt á hergagnaverksmiðju sem reist hafði verið í bænum meðan hann hét enn Jeltsch og tilheyrði Þýskalandi.

Mér fannst eins og okkur Sanok-búum átti að finnast að Autosan rúturnar væru miklu betri en þetta Jetcz drasl. Ég man ekki eftir miklum áróðri í þá veru en allir vilja auðvitað vera naflar heimsins og mörgum þótti vissulega alveg pinku merkilegt að þessar rútur sem keyrðu um allt Pólland kæmu úr bænum okkar. Manni átti alla vega að finnast það merkilegt.

Samt fannst mér einhvern veginn eins Jelcz hlytu að vera betri bílar. Jelczarnir voru meira kassalaga, þeir virkuðu nútímalegri. Autosaninn var svona þybbin feitabollurúta. Og þegar maður ræddi þessi mál við aðra átta ára stráka íundir fjögur augu þá deildu þeir þessum skoðunum á rútunum; og þeirri sannfæringu að eitthvað sem kæmi úr póst-þýskri versmiðju úr vestrinu hlyti, bara hlyti að vera betra. En í stærri hópum hélt maður þessum skoðunum út af fyrir sig.

Það er fyndið að hugsa hvernig þessi hegðun var eins og mini-tgáfa því hvernig fullorðið fólk hagaði sér undir stjórn kommúnismans. Maður kinkaði kolli þegar annað fólk predikaði ágæti alls í kringum mann. En maður trúði því ekki.

Það má alveg segja að þessi reynsla móti mig. Í kommúnistaríkjum var endalaust reynt að troða oní mann einhverju kjaftæði um meint gæði einhvers sem augljóslega var undirmálsvara. Maður vandist að trúa hinu þveröfuga. Með tíma gerði fólk sjálfkrafa ráð fyrir því að allt kæmi úr nærsveit og ráðamenn lofuðu hlyti að vera drasl.

Leave a Reply

Your email address will not be published.