Forsetinn – Undir stjórn Jaruzelskis 30/100

Seinasti forseti Alþýðulýðveldisins Póllands og  fyrsti forseti hins frjálsa Lýðveldis Póllands, Wojciech Jaruzelski, lést á sunnudag, níræður að aldri. Hann gegndi líka öðrum öðrum embættum sem flest hétu lengri og minna lýsandi nöfnum. Best þeirra var „Formaður herráðs um þjóðarbjörgun“ en svo kallaði herstjórnin sem réð landinu á árunum 1981-1983 sig.

Ég ætla svo sem ekki að endursegja lífshlaup hans, til þess eru betri heimildir. Svo er það líka vandasamt verk að gera það hlutlaust. Persóna hans er enn umdeild. Vinstriflokkurinn í Póllandi fór fram á þjóðarsorg. Fólk sem er lengra á hægrivængnum var flest andvígt þeirri hugmynd. Formaður Þjóðarminningarstofnunar, sem er stofnun sem á að sjá um að rannsaka glæpi á tímum kommúnismans lagðist gegn því, með þeim rökum að á árunum 1945-1989 hafi mikið af fólki barist gegn fyrir frelsinu og borgað fyrir það hátt verð. Jaruzelski hafi augljóslega verið einn þeirra sem barðist í hinu liðinu. Oftast í ábyrgðarstöðum.

Beiðninni um þjóðarsorg var hafnað en útförin verður reyndar opinber, sem er allt í lagi. Maðurin var jú forseti.

CC-BY-SA 3.0: Andrzej Barabasz
Jaruzelski, nokkru eftir að ég var átta ára undir hans stjórn. CC-BY-SA 3.0: Andrzej Barabasz

Umdeildasta ákvörðun Jaruzelskis var án efa stríðsástandið 1981. Vörn hans og hans fólks var lengi sú að sovésk innrás var yfirvofandi vegna hinna miklu tilslakanna í garð Samstöðunnar. Í seinni tíð hefur margt í hinum  opinberuðu sovésku skjölum gefið aðra mynd. Að hann hafi verið í nánum tengslum við yfirvöldin í Moskvu, sóst eftir „aðstoð“ rauða hersins en ekki fengið. Hann neitaði þessu og sagði skjölin ýmist fölsuð eða misskilin. Sjá: http://www.rferl.org/content/Interview_Polands_Jaruzelski_Again_Denies_Seeking_Soviet_Intervention_Against_Solidarity/1902431.html

Hvaða tilfinningar ber ég til Jaruzelskis? Ég á dálítið erfitt með að láta ekki hljóma tilgerðarlega en ég eiginlega vorkenndi honum alltaf dálítið. Kannski hálfpartinn vegna þess í seinni tíð sá maður hann ekki öðruvísi en í dómssal eða í sjónvarpssal, veikan, að fara svara einhverjum erfiðum spurningum. En líka vegna þess að ég hafði það á tilfinningunni að hann átti ekki skilið þau embætti sem hann á endanum gegndi. Hann var svona eins og maður sem kallar sig Ólympíufara, en fór bara á Ólympíukeppni til að keppa í stærðfræði.

Hvaða leiðtoga þekkti ég, þegar ég var átta ára? Reagan, Thatcher. Fólk sem var sjálfsöruggt, hélt stuttar og fyndnar blaðlausar ræður. Fólk sem kunni að klæða sig. Fólk sem fór í viðtöl og svaraði spurningum. Á móti vorum við með mann sem var alltaf í herbúning, þrátt fyrir að enginn væri að skjóta á hann, alltaf með einhver furðuleg sólgleraugu, mann sem talaði eins og embættismenn skrifa en ekki eins og fólk talar. Í lýðræðisríki hefði maður með þetta fas geta orðið skattrannsóknarstjóri, en varla pólitíkus.

Á hinn bóginn getur maður vissulega sagt, að sama hvort manni líkar vel við Jaruzelski eða ekki þá á pólskt lýðræði honum ýmislegt að þakka. Hann ásamt öðrum þáverandi valdhöfum gekk til samninga við stjórnarandstöðuna um að haldnar skyldu hálffrjálsar kosningar. Og þegar stjórnarandstaðan rúllaði þeim upp þá voru þau úrslit látin standa. Hann var svo kosinn forseti af þinginu (með eins atkvæða mun) og varð þar með fyrsti maður til að bera þann titil frá 1952.  Þetta var í júlí 1989, þegar ég var enn átta ára. Hann lét af því embætti í desember 1990 þegar Lech Wałęsa tók við af honum.

Þennan tíma var sem sagt ókommunísk frjálslynd, hægrisinnuð stjórn að koma í gegn þjóðfélags- og markaðsumbótum undir verndarvæng kommúnísks herforingja. Sumir gagnrýndu þetta samlífi og töldu það til marks um samtryggingu stjórnmálanna. Vissulega er  það rétt: fyrstu árin eftir hrunið voru hinir stjórntæku hægrimenn ekki mikið að velta sér upp úr meintum afbrotum fyrri valdhafa. Það má samt draga af þessu jákvæðan lærdóm. Ef sitjandi valdamenn halda ekki að þeir verði húðflettir við að missa völdin þá fara þeir kannski frekar frá.

Auðvitað hefði mjög vondur maður í sömu stöðu og Jaruzelski kannski getað fangelsað alla Samstöðuna og sent út dauðadóma í fjöldapósti, ríkt og herforingjarnir í Egyptalandi hafa nú gert. Hann hefði getað vísað til stjórnleysis, „uppgangs fasismans“ eða hvers sem er. Hann hefði getað setið í eigin sósíalískum sirkus eins og Castro-bræðurnir og tekið á móti norrænum áhugamönnnum um sósíalíska sirkusa til dauðadags. Hann gerði það þo ekki. Hann lét völdin af hendi til fólks sem vann kosningar. Hann má eiga það.

Autosan rúturnar – Undir stjórn Jaruzelskis 29/100

Sanok, bærinn minn, var þekktur fyrir nokkra hluti: Útisafnið, Beksiński-feðgana og auðvitað Autosan rúturnar.

CC-BY-SA 3.0. Höfundur: Fsopolonezcaro
Stolt bæjarins. CC-BY-SA 3.0. Höfundur: Fsopolonezcaro

Ég er ekki nógu vel að mér um bíla til að vita hvort einhverjar Autosan-rútur hafi einhvern tímann ratað til Íslands. Kannski veit Ómar Ragnarsson það. Eða kannski á hann slíka rútu.

Leit í timarit.is skilar einungis einni niðurstöðu með vörumerkinu Autosan. „Autosan – sturtuvagnar til sölu. Verð 199.000“ segir í auglýsingunni sem er í Bændablaðinu 1991. En þá var ég orðinn ellefu ára. Og Jaruzelski var ekki lengur við völd.

Erkióvinurinn Jelcz

Autosan var ekki eina rútuverksmiðjan í landinu. Hitt vörumerkið var Jelcz [borið fram jelts, ef maður er Íslendingur]. Jelcz rúturnar voru framleiddar í bænum Jelcz í suðvesturhluta Póllands. Það fyrirtæki framleiddi líka brynvarða bíla og annað drasl fyrir herinn. Það var raunar byggt á hergagnaverksmiðju sem reist hafði verið í bænum meðan hann hét enn Jeltsch og tilheyrði Þýskalandi.

Mér fannst eins og okkur Sanok-búum átti að finnast að Autosan rúturnar væru miklu betri en þetta Jetcz drasl. Ég man ekki eftir miklum áróðri í þá veru en allir vilja auðvitað vera naflar heimsins og mörgum þótti vissulega alveg pinku merkilegt að þessar rútur sem keyrðu um allt Pólland kæmu úr bænum okkar. Manni átti alla vega að finnast það merkilegt.

Samt fannst mér einhvern veginn eins Jelcz hlytu að vera betri bílar. Jelczarnir voru meira kassalaga, þeir virkuðu nútímalegri. Autosaninn var svona þybbin feitabollurúta. Og þegar maður ræddi þessi mál við aðra átta ára stráka íundir fjögur augu þá deildu þeir þessum skoðunum á rútunum; og þeirri sannfæringu að eitthvað sem kæmi úr póst-þýskri versmiðju úr vestrinu hlyti, bara hlyti að vera betra. En í stærri hópum hélt maður þessum skoðunum út af fyrir sig.

Það er fyndið að hugsa hvernig þessi hegðun var eins og mini-tgáfa því hvernig fullorðið fólk hagaði sér undir stjórn kommúnismans. Maður kinkaði kolli þegar annað fólk predikaði ágæti alls í kringum mann. En maður trúði því ekki.

Það má alveg segja að þessi reynsla móti mig. Í kommúnistaríkjum var endalaust reynt að troða oní mann einhverju kjaftæði um meint gæði einhvers sem augljóslega var undirmálsvara. Maður vandist að trúa hinu þveröfuga. Með tíma gerði fólk sjálfkrafa ráð fyrir því að allt kæmi úr nærsveit og ráðamenn lofuðu hlyti að vera drasl.

Hafnabolti – Undir stjórn Jaruzelskis 28/100

Það er ekki á allra vitorði en ég bjó eitt sinn í Póllandi. Ég bjó reyndar í Póllandi þangað til ég var átta ára. Á þeim tíma var Pólland kommúnistaríki. Sá sem var við völd hét Wojciech Jaruzelski.

Hann er enn á lífi 90 ára gamall. Síðasta sem heyrðist af honum var að kona hans var að hóta honum skilnaði ef hann hætti ekki að reyna við hjúkkuna sína (http://www.nydailynews.com/news/world/wife-poland-dictator-seeking-divorce-affair-nurse-report-article-1.1609122).

En nóg um það.

Eitt af því sem fylgir því búa undir stjórn kommúnista er að sjúkleg aðdáum á öllu sem einhver annar en þeir höfðu búið til. Til dæmis gagnrýnislaus aðdáun á öllu sem var bandarískt.

Seint á níunda áratugnum og snemma eftir að allt hrundi varð hafnabolti þannig skyndilega vinsæll um allt land. Þessi áhugi mætti skyndilega á leikvöllinn hjá Grunnskóla nr. 8 í Sanok, þar sem góður vinur minn bjó.

Ég man að ég var fluttur til Íslands, alla vega að hluta til, þegar þetta gerðist. En eitt sumarið mæti ég til vinar míns, og spyr hvort við eigum ekki koma út að leika. Hann segir já. Ég bjóst við að sjá hann draga fram einhvern fótbolta eins og venjulega. En nei, nú var hafnabolti orðinn málið.

Í venjulegu hafnaboltaliði eiga að vera 9 manns. Það sinnum tveir næst auðvitað aldrei á einhverjum rólóvelli þannig að menn urðu að vera kreatífir. Augljóslega þarf einhvern til að henda boltanum og einhvern til að slá hann. Helst þarf líka einhvern til að reyna að grípa boltann ef hann fer fram hjá gaurnum sem sveiflar kylfunni (les. spýtunni). Það síðasta er nú bara af þeim praktísku ástæðum að annars fer boltinn í einhver nálægan sandkassa og maður þarf að hlaupa eftir honum.

800px-Amish_children_playing_baseball,_Lyndonville_NY

 

Næsta sumar var lítið orðið eftir af þessum hafnaboltaáhuga, en um nokkra mánaða skeið sveifluðu allir átta ára krakka spýtum við að reyna slá tennisbolta. Ég veit ekki hvað Jaruzelski fannst um þetta. Ætli nokkuð.