Stríðið – Undir stjórn Jaruzelskis 27/100

imgresÉg fæðist 35 árum eftir stríðslok. Það er ekki mjög langur tími. Ekki þannig séð. Þegar ég fæðist má giska á að tæpur helmingur þálifandi Pólverja hafði fæðst fyrir stríðslok, helmingur eftir. Og þeir sem upplifðu þennan tíma upplifðu hann á eigin skinni. Heimstyrjöld fer ekki framhjá neinum.

Enda var stríðið ekki einhver forn saga fyrir mér eða okkur sem ólumst upp í þessum heimshluta. Örin hverfa ekki svo glatt. Eitt dæmi: Árið 1970 voru liðin 27 ár frá miðri styrjöldinni. Þá var fólkslægð. Önnur árið 2007 – 27 árum síðar.

Sjá hér: https://datamarket.com/data/set/18gd/population-on-1-january-by-five-years-age-groups-and-sex#!ds=18gd!lk5=1:lk6=d:6fxn=1c&display=line

Þegar krakkar í öðrum heimshluta lærðu um nauðsyn þess að vera með gleraugu þegar flugeldum er skotið upp voru kennslubækur í okkar heimshluta fullar af dæmisögum með söguþræði eins og þessum:

Adam og Janek eru í labbitúr úti í skógi. Þeir finna ósprungna sprengju úr síðari heimsstyrjöldinni. Í stað þess að láta einhver fullorðinn vita reyna þeir að fá hana til að springa með því að kveikja bál undir henni. Ekkert gerist og kjáninn hann Adam sparkar í sprengjuna. Hún springur. Adam deyr á staðnum. Jacek fær sprengjubrot í sig. Skógarhöggsmaður heyrir hljóðið og nær að koma honum til bjargar en Jacek verður í hljólastól til æviloka.

Þegar svona sögur eru sagðar, þegar hver einasti bær hefur að geyma herkirkjugarð, þegar flestir vinsælir sjónvarpsþættir nota stríðið sem sögusvið, þegar ömmur og afar allra hafa upplifað þessa atburði persónulega, finnst manni stríðið ekki vera “saga” heldur meira svona bakgrunnur.

Ég meina, jafnvel allar unglingabækurnar fjölluðu um unglinga í andspyrnuhreyfingunni sem deyja hvert á fætur öðru í hetjulegum slag við Þjóðverja.

En þetta er ekki endilega rosalega uppbyggjandi, satt best að segja. Það eru til heilbrigðari hlutir til að stimpla í hausinn á ungum börnum en sú að þeir tilheyri þjóð sem hefur hvað ofan í æ afrekað það að deyja í milljónavís í réttlátum en vonlausum slag. En svona var þetta.

Þegar ég flutti til Íslands, átta ára gamall, tók ég eftir að áhuginn á þessum málum var líka umtalsverður. En þetta var allt öðruvísi. Ég á erfitt með að lýsa þessu öðruvísi en með þeim hætti að menn (þ.e. krakkar) hafi haft áhuga á seinni heimsstyrjöldinn eins og hún hefði verið teiknimyndasaga. Svona Avatar: Súrrealísk stríðsvél ræðst á saklausa frumbyggja sem berjast með hestum á móti skriðdrekum. Síðan kemur góða bláeygða fólkið og bjargar málunum. Eitt enn kom mér dálítið á óvart:

Það var ákveðin aðdáun á nasistum. “Skilvirkni” þeirra og “aga”. Einhvern veginn fannst mér eins og stór hluti ungra íslenskra karlmanna væri haldin einhverju svona, fyrirgefið orðið, “nasistablæti”. Og enn í dag þegar ég er staddur í Evrópu með karlkyns jafnöldrum mínum frá Íslandi fæ ég þann ótta að þeir taka óstinnt upp á því að taka Fawly Towers á þetta.

Ég hafði gert pásu á þessari ritseríu í nokkurra vikna skeið. Ýmislegt olli, meðal annars dó föðurbróðir minn, sem ég hafði reyndar síðast hitt í Póllandi, þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis, og ég var ekki í séstöku stuði í sprell. Síðan er allt þetta ástand í Úkraínu ekki að fara vel í mig, verð ég að viðurkenna. Ég bjó 50 km frá landamærum. Labbaði eftir þeim eitt sumar. Þetta er nálægt. Allt of nálægt. Nóg um það síðar.

Maður klárar það sem maður byrjaði á. En búið ykkur undir dekkri tíma í seríunni.

2 thoughts on “Stríðið – Undir stjórn Jaruzelskis 27/100

  1. “Árið 1970 voru liðin 27 ár frá miðri styrjöldinni. Þá var fólkslægð. Önnur árið 2007 – 27 árum síðar.”

    Er þetta ekki svolítið loðin stærðfræði?

  2. Ég fell sjálfsagt í hóp þeirra sem þú kallar með nazistablæti. Er samt ósáttur við orðanotkunina, enda held ég að í flestum tilfellum hafi þetta ekkert með nazistana að gera eða sjúka hugmyndafræði þeirra, heldur miklu frekar aðdáun á frammitstöðu þýzka hersins gagnvart (að jafnaði) fjölmennari andstæðingum, þrátt fyrir spillandi afskipti pólitískra stjórnvalda (t.d. Hitlers og Himmlers) á framgang hans. Margir drengir hafa gaman af stríðum og einkennisbúningum án þess að hugsa út í undirliggjandi pólitík, og þegar við eldumst, lærum við líka að gera greinarmun á þessu tvennu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.