Höfuðborgin – Undir stjórn Jaruzelskis 26/100

Það er ógeðslega heitt. Ég þarf að kúka og pissa svo mikið að mér er illt. Það eru kílómetrar í næsta klósett. Þegar þangað er loksins komið spyr gömul kona í hvítum slopp hvort ég ætli að gera eitt eða tvö.

Spurningin er reyndar orðuð: “Pissuskál eða klefi?”

“Klefi!”

Það kostar náttúrlega meira. En hins vegar fylgja svona eins og 25 sentimetrar af sandbrúnum sand/klósettpappír með.

***

Það voru auðvitað alltaf fréttir frá einhverju frá Varsjá. Oft á ári var tilefni til að sýna frá einhverjum ræðuhöldum og mini-hersýningum á Sigurtorginu, eins og það hét þá. (Torgið heitir núna Piłsudzki-torgið, það hét Saxneska-torgið fyrir stríð, en á stríðsárum hét það eftir þýskum stjórnmálamanni sem var fyrirferðamikill í Evrópu á þeim tíma).

Maður þekkti ýmis kennileiti borgarinnar í gegnum sjónvarpið og kennslubækurnar. Enda var mikið úr því lagt að höfuðborgin væri flott eða alla vega hefði þá ímynd að hún væri flott.

Þar með er ekki sagt að yfirvöldin kærðu sig eitthvað um að fólk flytti þangað. Eitt áttu höfuðborgir austantjaldslandanna sameiginlegt: Það var erfiðara að fá lögheimili þar heldur en annars staðar. Höfuðborgin átti að vera nafnspjaldið út á við. Hún mátti ekki verða að einhverri ringulreið.

Það var ýmislegt þar sem allir þekktu. Höllina stóru í miðbænum til dæmis. Eftir stríð bauð Stalín pólsku stjórninni gjafir. Hún mátti velja eitt af eftirfarandi:

  1. Eina neðanjarðarlestarlínu.
  2. Hraðbrautar-hringveg umhverfis borgina.
  3. Höll sem myndi heita eftir Stalín.
Menningar- og vísindahöllin. CC-BY-SA 3.0. User Nnb
Menningar- og vísindahöllin. CC-BY-SA 3.0. Notandi: Nnb

Yfirvöldin völdu þetta síðasta. Af einhverjum ástæðum. Síðan byggðu menn risastóra aðaljárnbrautarstöð sem var byrjuð að leka og hýsa róna áður en hún var kláruð. Þetta var allt svona í Varsjá á æskuárum mínum, í valdatíð Jaruzelskis: þvingað tilkomumikið en samt eitthvað mistækt.

Það er mér minnisstæðast að þau skipti sem ég kom til Varsjár á þessum tíma skoðaði ég aðallega sendirráðin. Já, öllum þóttu sendirráðin mest spennandi hús af öllum. Það var hægt að fara í svona hverfi þar sem fullt af þeim var. Það var svolítið eins og að fara til útlanda. Og munið: Útlönd voru það besta sem maður vissi.

***

Ekki skilja mig sem svo að mér sé eitthvað illa við Varsjá. Alls ekki. Ekki núna. Ég tek alltaf Metrólínuna frá norðri til suðurs (opnuð 1994). Ég fer í helling af þessum verslunarmiðstöðvum sem kapitalisminn hefur byggt til að hylma yfir misskilning sósíalismans um það hvað fólki sé nauðsynlegt. Ég labba Krakowskie Przedmiście og niður í gamla bæinn (sem sextíu ára gamall) Fyrir tveimur árum skokkaði ég hálfmaraþon endaði á nýja þjóðarleikvanginum. Það var yndislegt. Stuðningurinn með fram ánni stórkostlegur. Varsjá hefur ekki verið svona góð í langan tíma.

En þegar ég var krakki þá man ég fyrst og fremst eftir risabyggingum sem maður hafði séð í sjónvarpi en stóðu ekki undir væntingum. Og því maður komst aldrei á klósettið.

Leave a Reply

Your email address will not be published.