Úlpulaus og húfulaus – Undir stjórn Jaruzelskis 24/100

Þar sem pabbi minn var stundum í útlöndum að læra einhver furðumál sendi hann mér stundum einhver föt sem voru örlítið meira skínandi en það sem hinir krakkarnir voru í.

Einhvern tímann var það jakki, einhvern tímann eyrnaband með endurskinsmerki. Því miður entist ekkert af þessu neitt lengi. Sumu týndi ég, enda hélst mér illa á fötum þegar ég var barn. En flestu var þó stolið. Maður labbaði kannski skólann með skærlita húfa. Hengdi hana upp í fatahenginu og svo var hún horfin þegar maður var að fara heim. Rökréttasta ágiskunin, gæti fólk haldið, væri að þetta væru einhverjir aðrir krakkar sem stálu fötunum manns, en hins vegar var fatahengjum læst með lykli á daginn svo að, og ég veit því miður ekki hvort maður verði ekki að taka þann möguleika til greina að starfsfólkið hafi átt einhvern þátt í þessu. Eins dapurlegt og það nú er.

Nú eru þetta auðvitað dálítið hættuleg skrif hjá mér, verð ég að viðurkenna. Þegar maður greinir frá svona sögum á maður alltaf á hættu að stimpla þjófkenningu heils þjóðfélagsins í hausinn á fólki, jafnvel þótt óvart sé. Ætli vinstrisinnaðri vinir mínir lesi ekki úr þessari sögu stuðning við þær tilgátur sína að ójöfnuður fjölgi glæpum. Og líklegast er sú tilgáta rétt. Ef einhver sér einhvern annan njóta, að hans mati, óverðskuldaðs lífsgæðaforskots í formi glansandi eyrnabands þá beitir hann sínum aðferðum til að jafna það forskot.

Hin hliðin á þessu: Ég man hvað opinberar eigur voru illa farnar þegar ég var barn undir stjórn kommúnismans. Málning að hrynja af. Ekkert þrifið nema í algerri neyð. Búið að stela öllu sem laust. Það verður reyndar að láta það fylgja að Pólverjar hafa, stóran hluta seinustu alda þurft að búa í ríkjum sem hafa ekki beinlínis verið þeim vingjarnleg. Frá 1795 til 1918 er Pólland ekki til sem ríki. Ekki heldur 1939-1945. Eftir það taka við stjórnvöld sem þvinguð voru upp á okkur af Sovétmönnum. Þannig að “Göngum vel um almannaeigur – Förum vel með almannafé” rökleiðslan hefur oft ekki verið sérstaklega sterk. Þvert á móti hefur oft mátt líta á það sem pólitískan aktívisma að stela eða rústa ríkiseignum. Ég á erfitt með að meta hvort þetta hafi breyst, en mín tilfinning segir að svo sé án nokkurs vafa.

Pólverjar eru reyndar enn sannfærðir um að það sé alltaf miklu stolið hjá þeim. Ég veit það ekki. Ég týndi símanum mínum í Reykjavík um daginn. Sá sem fann hann skilaði honum ekki, veit ég fyrir víst. Ég týndi símanum mínum í Póllandi fyrir einu og hálfu ári síðan. Sá sem fann hann sendi hann til mín með sendli. Á sinn eigin kostnað. Þetta er mín eigin rannsókn með þýði N=2. Ætli ég eigi að hafa vakað nógu mikið í Tölfræði I til að vita að það er nú ekki neitt til að byggja mikið á.

Mér finnst ég treysta fleirum þegar ég kem til Póllands. Ég treysti McDonalds-starfsfólkinu. Ég treysti fólki í bönkum. Ég treysti löggunni. Ég treysti meira að segja leigubílsstjórum. Á árum kommúnismans og fyrstu árum hrákapitalsismans gat maður því miður ekki treyst jafnmörgum. Og labbaði því stundum heim eyrnarbandslaus. Yfir götu, yfir brú, fram hjá ánni, inn á útisafnið, gegnum skóginn, og heim, í litla græna húsið.

2 thoughts on “Úlpulaus og húfulaus – Undir stjórn Jaruzelskis 24/100

Leave a Reply

Your email address will not be published.