Stríðsástandið 1981- Undir stjórn Jaruzelskis 23/100

Illugi Jökulsson spyr mig í Facebook-þræði hvernig viðhorf Pólverja til Jaruzelskis sé í dag. Ég skal reyna að svara því.

Höf: J. Żołnierkiewicz ,fengið úr Wikimedia Commons

Þess ber reyndar að geta að Pólverjar leika sér ekki að því, frekar en aðrar þjóðir að vera sammála um pólitík. Þegar stóra flugslysið var, árið 2010, voru menn sammála um að vera sorgmæddir í sirka viku. Svo gátu menn ekki einu sinn verið sammála um það.

Í Póllandi tilheyri ég líklegast miðju stjórnmálanna, hóp sem kallar sig sjálfan frjálslynt fólk, alvöruhægrimenn kalla “lygara-elítuna” og vinstrimenn og bændur kalla últrafrjálshyggjumenn. En ég skal svara Jaruzelski-spurningunni, alla vega hvað mig sjálfan varðar.

Umdeildasta ákvörðun Jaruzelskis á ferlinum kom snemma þegar stríðsástandi var komið á að hans skipun. Umtalsverð þíða hafði verið í landinu árin áður, ritskoðun var gott sem afnumin, Samstaðan var leyfð og farin að færa sig upp á skaftið. Yfirvöldin í landinu, sem og yfirvöld í öðrum  nálægum löndum höfðu af þessu umtalsverðar áhyggjur. Í þessu ástandi var ákveðið að lýsa yfir stríðsástandi, stjórnarandstæðingar fangelsaðir og mótmæli á nokkrum vinnustöðum lamin niður með ofbeldi. Um hundrað manns misstu lífið.

Eina súrustu mynd þess tíma tók ljósmyndarinn Chris Niedenthal. Hún er af skriðdreka fyrir framan Moskvu-bíó í Varsjá. Risastórt plakat  framan á kvikmyndahúsinu auglýsir stríðsmyndina “Apocalypse Now”.

Vörn Jaruzelskis hefur alla tíð verið sú að aðgerðin hafi verið nauðsynleg, ekki síst til að koma í veg fyrir innrás Sovétmanna inn í landið. Ég held að margir hafi lengi leyft Jaruzelski að njóta vafans og talið að valdataka hersins hafi ef til vill komið í veg fyrir eitthvað enn verra. Menn mundu eftir Ungverjalandi 1956 og Tékkóslóvakíu 1968.

Raunin er hins vegar sú að sagan hefur ekki rennt sterkari stoðum undir þessa málsvörn Jaruzeslksis. Sovésk skjöl sem búið er að létta leynd af sýna mun frekar þá mynd að Jaruzelski hafi sóst eftir innrás Sovétmanna en ekki fengið . Sovétmönnum var mjög áfátt um að pólsku kommúnistarnir sæju um þetta sjálfir og gátu Mosku-menn jafnvel hugsað sér að missa Pólland fremur en að hætta á að fara með her sinn inn í eitthvað annað Afganistan. Þessi skoðun kemur til dæmis fram á fundi Politbjúrós 10. des. 1981, einungis þremur dögum áður en allt skellur á.

Hvað mig varðar er persóna Jaruzelskis því fremur tragísk. Hann er dæmi um mann sem hefði aldrei náð völdum nema í stjórnkerfi þar sem  kjörþokki eða hæfileiki til að tala við venjulegt fólk eru óþarfir. Við bætist að það sem hann hefur sagt um nauðsyn stríðsástandsis virðist ætla að fara á spjöld sögunnar sem eitthvað sem hljómaði kannski sennilega, en reyndist ekki vera satt.

Ég má þó hins vegar nefna það, því menn eiga það sem þeir eiga, að vissulega lét hann af völdum árið 1990 eftir að stjórnarandstaðan vann fyrst þingkosningar 1989 og svo forsetakosningarnar 1990. Nú þykir það kannski ekki mikið afrek. En segjum að einhver af Castró-genginu myndi semja við stjórnarandstöðuna, halda frjálsar kosningar og fara svo frá völdum. Þá mun ég taka ofan fyrir því. Og þann litla hátt á Jaruzelski vissulega einhvern pinku heiður skilinn. Pinku.

Leave a Reply

Your email address will not be published.