Dollarabúðirnar – Undir stjórn Jaruzelskis 22/100

Logo Pewex - keðjunnar á listaverki í Gdańsk.
Logo Pewex – keðjunnar á listaverki í Gdańsk.

Ó Pewex-dollarabúðirnar! Já, búðir þar sem maður gat keypt erlenda merkjavöru fyrir dollara eða dollaraígildi. Þetta var leið stjórnvalda til að ná í hluta þess gjaldeyris sem almenningur hafði undir koddunum. Þarna var hægt að kaupa ýmislegt sem annars fékkst ekki. Þarna var hægt að kaupa Lego. Og erlendar gallabuxur.

Langalgengasta dollarabúðakeðjan hét “Pewex”.  Það átti að vera einhvers konar umröðuð skammstöfun fyrir Przedsiębiorstwo Eksportu Wewnętrznego – “Innanlandsútflutningsfyrirtækið.” (Dóru landkönnuðaþraut: “Hvað segiði krakkar? Sjáið þið rökvillu í nafninu? Hvar? Ég sé hana ekki. Ha? Fyrir aftan mig?”)

Það var í þessari byggingu í Sanok sem  stærsti hluta af Lego - safninu mínu var keyptur. CC-BY-SA 3.0 Lowdown
Það var í þessari byggingu í Sanok sem stærsti hluti af Lego – safninu mínu var keyptur. Þarna var Pewexið í Sanok til húsa. CC-BY-SA 3.0 Höf: Lowdown

Þrátt fyrir skárra úrval voru Dollarabúðirnar samt ekkert Magasin du Nord neitt. Maður gat svona kíkt yfir vörurnar þar sem þær voru bak við búðarborðið. Síðan þegar maður ákvað að kaupa eitthvað var það alltaf dálítið ferli.

Maður bað um að fá eitthvað. Í þessu tilfelli eitthvað Lego-dót. Fékk skjal. Fór með skjal í einhvern glugga. Fór með með pening og skjalið fékk annað skjal. Fór með það skjal í annan glugga. Þá var það stimplað. Fór með þetta stimplaða skjal og fékk dótið sem maður var að kaupa.

Ég var náttúrlega krakki á forvitnasta aldri og vildi vita hvað færist í hverju skrefi. “Nú erum við að skipta dollurum okkar og fá staðfestingu á að við megu fá vöruna.” “Þetta er bara til að tékka eitthvað af.” “Já, nú megum við fá Lego-kastalann.”

Kaldhæðni örlaganna var samt sú að verðið í þessum dollarabúðum, var bara ansi fínt, ef maður á annað borð hafði dollara. Ég man að þegar ég flutti til Íslands þá varð allt Lego skyndilega miklu dýrara. En þetta er eflaust saga margra sem flytja úr fátækara ríki í ríkara. Fyrstu árin eru oft dálítil viðbrigði. Maður fer úr því að vera einhver sem gat leyft sér hluti sem áður gátu sér ekki og yfir í að geta ekki leyft sér allt sem allir í kringum mann geta leyft sér.

Pewex-keðjan plummaði sig illa í hinum frjálsa markaði eftir 1989. Hún leið undir lok eftir að leið á tíunda áratuginn. En ég ber enga sérstaka nostalgíu til þessarara verslana. Æi, þegar hið opinbera skammtar forboðnum gersemum útlandanna til fólks sem á ættingja með tekjur í útlöndum í von um að menn gleymi því að þeir búi haftahagkerfi. Ég veit ekki með það.

One thought on “Dollarabúðirnar – Undir stjórn Jaruzelskis 22/100

Leave a Reply

Your email address will not be published.