Pólskir dollarar – Undir stjórn Jaruzelskis 21/100

Öll austantjaldsríki glímdu við endalausan gjaldeyrisskort. Fyrir vikið voru gjaldmiðlar þeirra ekki útskiptanlegir í aðra gjaldmiðla eftir venjulegum aðferðum heldur voru í gildi svokölluð (þið munið ekki trúa hvað þetta er fáranlegt) “gjaldeyrishöft”.

Að eiga og höndla með gjaldeyri var fyrst um sinn bannað. Síðan voru stjórnvöld farin að líta í gegnum fingur sér með þetta og einsettu sér frekar að reyna ná í þessa dollara fólks með hófstilltari aðgerðum. Sumar vörur, sem voru illa eða alls ekki fáanlegar venjulegu fólki (t.d. kol og byggingarefni) var hægt að kaupa fyrir gjaldeyri.

Þetta voru sem sagt vörur sem áttu, alla jafna að vera fluttar út, en voru seldar innanlands, fyrir gjaldeyri. Þessu fyrirkomulagi var því gefið hið alls-ekki-mótsagnarkennda heiti:

innanlandsútflutningur

Annar hluti af þessu fyrirkomulagi voru svokallaðar dollarabúðir. Þeir sem áttu dollara gátu keypt flottara dót en fékkst í öðrum búðum. Meira um þessar merku stofnanir síðar meir.

Strangt til tekið áttu þeir sem komust yfir gjaldeyri að skila honum í banka og þeir fengu þá í staðinn “dollaraígildi”. Þeir sem unnu fyrir pólska ríkið (eða pólsk ríkisfyrirtæki) í útlöndum fengu sömuleiðis  gjarnan greitt í dollaraígildum. Pólska ríkið færi nú ekki að greiða mönnum sem bjuggu innanlands í dollurum. Það væri fáranlegt. Þess í stað greiddu menn mönnum í “pólskum dollurum”, dollarígildum sem pólska ríkið prentaði og nota mátti í dollarabúðum og til að “flytja út vörur, innanlands”. (!)

Svona litu þessir seðlar út. Við áttum einhvern tímann nokkra og sýndum bandarískum vinum okkar á Íslandi. Þeim þótti þetta mjög fyndið. Dollarar sem kommúnistaríki gaf út:

Heil tvö sent maður. Einhver hefur unnið fyrir þessu.
Heil tvö sent. Einhver hefur unnið fyrir þessu.

[Athugasemd ætluð Fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands: Hugtökin innanlandsútflutningur og dollaraígildi sem koma fyrir í þessari grein eru ætluð til skemmtunar og fróðleiks. Ekki reyna þetta heima hjá ykkur. Í guðanna.]

One thought on “Pólskir dollarar – Undir stjórn Jaruzelskis 21/100

Leave a Reply

Your email address will not be published.