Skyldusíldin – Undir stjórn Jaruzelskis 17/100

Árið 1982 setti Jaruzelski lög sem bönnuðu sölu áfengis fyrir klukkan 13 á daginn. Þetta var náttúrlega gert til að sporna við ölvun.  Að nafninu til voru yfirvöldin í Póllandi alla tíð að reyna að minnka neyslu áfengis. Í reynd keyrði áfengissalan upp efnahaginn og fjármagnaði rekstur ríkissjóðs að ótrúlega stórum hluta.

Áætlað er að 1980 hafið 14,5 % af öllum tekjum ríkissjóðs komið úr áfengissölu. (Sjá þennan link (á pólsku) ). Þá hafi neyslan farið úr 1,5 l á mann á ári af hreinum vínanda á millistríðsárum og yfir 10 l á mann við lok níunda áratugarins. Svona var forgangsröðunin, kjöt, sykur og hveiti vantaði, en einhvern vibbavodka var nú oftast hægt að finna. Og hvað haldið að gerist ef allt vantar nema áfengið og fólk situr með aukapening sem það getur ekki einu sinni eytt í mat? Hmm…

Það hvort þú takmarkir sölutímann við kl. 13 mun náttúrlega litlu breyta í þannig ástandi. Enda dró þetta ekkert úr áfengissölu en skapaði í staðinn þónokkra samkennd og til urðu dægurlög eins og „Tíu mínútur í eitt“. Með textum á borð við:

„Klukkan sló eitt,
Nýr dagur hefst
Röðin gengur hratt
og öllum er létt“

Mér eldri menn sögðu mér þó að ein undantekning hefði verið gerð á þessum tímatakmörkunum. Það var ef menn pöntuðu sér drykk með mat. Fyrir vikið var eftirfarandi sena algeng á pólskum börum:

Leikþáttur

Kúnni: Ég ætla fá eitt vodkastaup. 100 ml.

Barþerna í skítugum slopp: Því miður, við afgreiðum bara áfengi með mat fyrir kl. 13.

Kúnni: Ok, hvað áttu?

Barþerna í skítugum slopp:  Ég á síld.

Kúnni: Ok þá. Eina síld og eitt vodkastaup, 100 ml.

Barþernan teygjir sér undir borðið og nær í illa lyktandi síldarbita úr opnu plastíláti. Fleygir því á lítinn disk. Hellir svo í vodkastaup.

Kúnninn borgar, skellir í sig vodkastaupinu og labbar út.

Barþernan nær í diskinn með síldinni og sturtar henni snyrtilega að nýju í plastdallinn fyrir neðan afgreiðsluborðið.

Þar mun síldin bíða uns hún þarf að sinna þegnskylduvinnu sinni að nýju.

"Komdu með okkur að byggja nýjan morgun." Maðurinn sem fjármagnaði þennan nýja morgun sést fremst á mynd.
„Komdu með okkur að byggja nýjan morgun.“
Maðurinn sem fjármagnaði þennan nýja morgun sést fremst á mynd.

2 svör við “Skyldusíldin – Undir stjórn Jaruzelskis 17/100”

  1. Svona var þetta líka í Svíþjóð þegar ég bjó þar á áttunda áratugnum. Bara leyfilegt á daginn að kaupa áfengi – snafs eða sterkan bjór – með mat. Það algengasta var brauð með áleggi, sem fór fram og aftur og engum datt í hug að borða.

Skildu eftir svar