Fimm tíma í leigubíl – Undir stjórn Jaruzelskis 16/100

Frá flugvellinum í Kraká var fimm tíma akstur til Sanok. Ég var átta ára. Jaruzelski var við völd.

Nú er Jaruzelski ekki lengur við völd. Ég er ekki lengur átta ára. Nú er búið að byggja hraðbraut og maður kæmist þetta á innan við þremur tímum. En þegar ég var átta ára, undir stjórn Jaruzelskis, var ekki mikið um hraðbrautir.

Jólin voru á nálgast. Jólin 1988. Þetta var á þeim tíma sem við bjuggum enn þá í báðum löndunum . Ég var á leiðinni frá Íslandi með pabba. Við flugum til London með Icelandair og síðan með skröltandi Tupolev frá Lot til Kraká. (Frá Kraká hélt vélin reyndar áfram til Varsjár, en við tókum bara fyrri legginn).


View Larger Map

Við fórum út í Kraká og eftir að hafa tekist að koma í veg fyrir að flugvélin færi með farangurinn okkar til Varsjár gengum við út af flugvellinum í leit að einhverjum leigubílstjóra sem gæti keyrt okkur til Sanok. (Þegar ég segi “við” þá játa ég samt að ábyrgðinni var ekki fullkomlega jafnt skipt milli okkur feðganna).

Ég hef, í seinustu pistlum(hér og hér), farið yfir áreiðanleika og hraða pólsku lestanna á tímum kommúnismans. Sérstaklega þarna var lestin ekki góður kostur. Við hefðum þurft að koma okkur í miðbæ Kraká, gista þar, (vélin hafði lent seint) og svo þurft taka lest næsta morgun. Leigubíllinn virtist besti kostur, sérstaklega þar sem við, Vesturlandabúarnir, áttum dollara.

Dollarar voru margfalt betri en zloty, fyrir dollara gat maður keypt betri vörur. Einnig gat maður geymt dollara undir kodda án þess að þeir misstu nokkur prósent af verðgildi sínu yfir nótt. Vandinn við zlotýið á þessum tíma að það var orðið verðlaust þegar maður loksins gat fundið eitthvað til að kaupa fyrir það.

Jú, það fannst leigubílstjóri til að keyra okkur til Sanok. Samið var um verð og keyrt af stað í vondu færi. Eftir smá stund er eins og renni upp fyrir bílstjóranum að hann þurfi að keyra til baka líka og reynir að semja um hærra verð á grundvelli þessara nýframkomnu upplýsinga. Þeir pabbi karpa um þetta í einhverja stund og á leiðinni leggur pabbi einfaldlega til að kveikt yrði á mælinum. Það myndi auðvitað þýða greiðslu í zlotýum sem var eins og að fá borgað í brennisteinsösku. Það hélt aðeins aftur að samningagleði bílstjórans.

Við komum til Sanok seint um nótt, en ferðin gekk þó almennt vel. Þessi langa leigubílaferð endaði með að kosta hundrað dollara (ríflegt þjórþé innifalið). Leigubílstjórinn lagði sig víst í bílnum í innkeyrslunni að útisafninu áður en hann hélt aftur heim á leið.

CC-BY-SA 3.0 User: Joergsam
CC-BY-SA 3.0 User: Joergsam

Eins og allt svona þá var þetta örugglega ekki allt í takt við ströngustu túlkun einhverra greina laga um gjaldeyrishöft og leigubílaasktur. En auðvitað hefðu þessi samfélög ekki funkerað í sekúndu ef venjulegt fólk, sem var að reyna að bjarga sér, hefði tekið allan þennan efnahagslega haftalagabálk alvarlega. Svona var þetta. Er er kannski enn. Víða um heim.

Leave a Reply

Your email address will not be published.