Eigum við ekki bara hlaupa? – Undir stjórn Jaruzelskis 15/100

Lestarferðin tók breytingum þegar komið var til bæjarins Jasło. Í Jasło hætti rafvædda lestarlínan og við tóku „nakin“ spor. Þannig að dráttarvagnarnir á þessari leið gengu fyrir bensíni. Þannig oftast þurfti að skipta um dráttarvagn. En það var nú ekki eina vandamálið.

Af vef pólsku járnbrautanna PL. Seinasti kaflinn á leið til Sanok. Einföld lina táknar órafvædd spor.

Á þessari leið var lestarlínan einbreið, lestir gátu sem sagt ekki mæst. Einungis á nokkrum tveimur-þremur stöðvum á leið til Sanok voru tvöföld spor þannig að á þeim stöðvum gátu lestir sem komu úr gagnstæðri átti farið fram hjá hvor annarri. Sem þýddi að ef svo ólíklega vildi til að lestin manns var á áætlun þá var örugglega einhver önnur lest á leiðinni sem var það ekki og maður þurfti að bíða til að klessa ekki á.

Upphitun fyrir þennan seinast áfanga var ferðalag frá Jasło til Krosno.

Krosno var á þessum tíma sýsluhöfuðborg Krosno-sýslu. Stjórnvöld höfðu breytt sýslufyrirkomulaginu þannig að sýslum var fjölgað í 49. Þetta var oft gert alþýðulýðveldum Mið- og Austur-Evrópu, t.d. í Austur-Þýskalandi. Fleiri og veikburðari héraðseininga hentuðu miðstýringunni betur.

En fyrir vikið urðu fámennari bæir oft einhvers konar héraðshöfuðstöðvar sem fannst fólki í þeim bæjum ágætt en fólki í öðrum bæjum síðra og stundum jafnvel spaugilegt. Krosno var þannig 47 þúsund manna bær og raunar samt fámennasta (að mig minnir) sýsluhöfuðborgin á þessum tíma. Í Sanok, þar sem 40 þúsund bjuggu, sögðu menn brandara á borð við:

„Af hverju eru ljósastýrð gatnamót í Krosno?“

„Nú, til að maður gæti keyrt ekki á einni mínútu í gegnum sýsluhöfuðborgina“.

(Þess má geta að þessi djókur kom í svona 30 útgáfum, einni fyrir hverja ekki-svo-stóra sýsluhöfuðborg. Bið Krosno-búa strax afsökunar á því að vera dreifa fimmaurum um bæinn þeirra á íslenskri vefsíðu 🙂 )

Í Krosno gerðum við raunar stundum hlé á ferðalaginu og g istum hjá vinafólki mömmu. Í sæmilega flottu blokkahverfi þar sem allar götur hétu blómanöfnum.

Síðan var haldið áfram til Sanok. Vegalengdin milli Krosno og Sanok, á landi (ekki í loftlínu) er 42 km, sú sama og vegalengdin í maraþoni. Á þessum tíma, þegar ég er átta ára var heimsmetið í maraþoni 2:07. Ég man vel eftir þessu því pabbi minntist oft á þessa staðreynd. Ferðin átti að taka rétt rúma klukkustund. Niðurstaðan varð hins vegar sú að oftar en ekki hefði maður getað veifað einhverjum Kára Steini þess tíma bless í Krosno og hann mundi bíða eftir manni með heitt te og „Velkomin til Sanok – forgarðs Bieszczady-fjallanna“ skilti á aðaljárnbrautarstöðinni í Sanok.

Meðalferðahraði á leiðinni er undir 30 km/klst. Sporin eru víða illa farin.

Ég man sérstaklega eftir einni stöð á leiðinni það var stöðin „Wróblik Szlachecki“. Það er þúsund manna sveit sem heitir, til að gera málin skoplegri hinu fáranlega mótsagnakennda-krútt-lummó nafni: „Spörfuglabær aðalsins“. Ég man þetta nafn ansi vel því ég hef eytt ófáum korterum ævi minnar þegar ég var að læra stafina að stara á skilti með þessu nafni á meðan við biðum eftir að lest úr gagnstæðri átt náðarsamlega rúllaði inn á skiptisporið.

Þegar loksins var komið til Sanok tók oftast við leigubílaferð heim, og stundum smá labb úr inngangi útisafnsins og heim í græna húsið okkar.

Allt í allt gat þetta orðið tveggja daga ferðalag með stoppum. Það er því ekki skrítið að foreldrar mínir hafi einstaka sinnum leitað eftir valkostum við ríkisjárnbrautarfélagið þegar við þurftum að komast frá Kraká/Slesía og til Sanok. En meira um það næst.

1 svar við “Eigum við ekki bara hlaupa? – Undir stjórn Jaruzelskis 15/100”

Skildu eftir svar