Í lestinni – Undir stjórn Jaruzelskis 14/100

Ég ferðaðist heilmikið í lestum þegar ég bjó í Póllandi undir stjórn Jaruzelskis. Sú leið sem sem ég fór hvað oftast var milli Tarnowskie Góry í Slesía héraði, þar sem amma mín býr, og Sanok, í suðaustur hluta Póllands þar sem við áttum heima.

Hérna er sirka leiðin sem þurfti að fara:


View Larger Map

Ferðin átti örugglega að taka eitthvað svona eins og vel yfir hálfan sólahring, samkvæmt áætlun. Vel að merkja “samkvæmt áætlun” á tímum alþýðulýðveldisins þýddi “gleymdu því, aldrei í helvíti”.

Fyrsti hluti ferðarinnar var frá Tarnowskie Góry til Katowice, það var svona klukkutími, gekk oftast allt í lagi. Reyndar var mikið stoppað því Slesía-hérað er mjög þéttbýlt. Í raun er þetta stærsta borg landsins, sem fáir vita um utan Póllands, þarna búa 3,5 milljónir manna í samfelldu þéttbýli, þótt mörg sveitarfélaganna séu svona 200 þúsund að íbúatölu en Katowice þeirra stærst með 300 þús. Fánýtur fróðleikur: Katowice vildi endilega (les: þurfti að) breyta nafni sínu í Stalinogród eftir stríð. En því var snúið við um leið og Jóseps frænda naut ekki við.

Frá Katowice til Kraká eru 67 kílómetrar í loftlínu. Maður myndi því búast við að sú ferð tæki um klukkutíma með lághraðalest. En nei. Í fyrsta lagi var, eins og áður sagði nóg af ástæðum til að stoppa. Í öðru lagi er Slesía hérað námusvæði. Þannig að lestirnar mega ekki keyra of hratt. Annars pompar allt héraðið niður í holrýmið sem situr eftir þegar búið er að taka öll kolin úr jörðinni. Eða eitthvað.

Þannig að þessi leið tók að minnsta kosti tvo tíma samkvæmt áætlun. Og þið munið hvað “samkvæmt áætlun” þýddi.

Þegar komið var framhjá Kraká gat maður slappað af og notið fagurs flatlendis Litla-Póllands (Małopolska).Ef maður þurfti að standa frammi á gangi gat maður skemmt sér við að skoða kort eins og þessi, sem hengu á veggjum.

Lestarkerfið eins og það var 1952. Greinilegt má sjá hvar Þjóðverjar réðu ríkjum fyrir 1918.
Lestarkerfið eins og það var 1952. Greinilegt má sjá hvar Þjóðverjar réðu ríkjum fyrir 1918.

Ef maður var hins vegar nógu heppinn til að fá sæti í farþegaklefa þá gat maður stytt sér stundir við að lesa tæmandi reglugerðir um hitastillingu. Það voru sem sagt svona snúningsrofar í loftinu þar sem maður gat stillt loftkælingu og hita í sætum. Við hliðina á þeim var texti. Hann var einhvern veginn svona (eftir minni):

REGLUGERÐ UM HITASTILLINGU

  1. Reglugerð þessi tekur til hitastillingar í farþegalestum Pólsku ríkisjárnbrautanna (PKP).
  2. Hitastilling í farþegaklefa skal ákveðin með samhjóða ákvörðun allra farþega.
  3. Náist samstaða ekki skal ákvörðun um hitastillingu tekin með einföldum meirihluta farþega.
  4. Sé ekki unnt að taka ákvörðun um hitastillingu með einföldum meirihluta skal kalla til miðavörð. Ákvörðun miðavarðar um hitastillingu er endanleg.

Reyndar kom sjaldnast til að það reyndi á þessa reglugerð. Enda man ég ekki eftir því að loftkæling eða sætahitun hafi nokkurn tímann virkað. En svona var þetta oft.

Ég ætla að klára frásögnina um ferðalagið til Sanok í næsta pistli. Ég mun síðan eflaust freistast til að taka reglugerðir ríkislestanna fyrir í sérfærslu. (SPOILER ALERT: Ein þeirra tengist afspilun tónlistar af grammófónplötum milli 18:00 á kvöldin og 06:00 á morgnana).

One thought on “Í lestinni – Undir stjórn Jaruzelskis 14/100

Leave a Reply

Your email address will not be published.