Beksiński feðgarnir – Undir stjórn Jaruzelskis 13/100

Heimabærinn minn, Sanok, var þekktur fyrir nokkra hluti. Útisafnið, það stærsta sinnar tegundar var einn þeirra (vildum við meina sem vorum tengdir því). En eir Sanokbúar sem hinn listelskandi Pólverji þekkir best eru þó án efa Beksiński feðgarnir.

Beksiński eldri, Zdzisław Beksiński, fæddur 1929 í Sanok, var frægur listmálari. Hann er þekktur fyrir fremur deprimerandi myndir af líkum og beinagrindum í svona kjarnorkuveturs-umhverfi. Hér er ein slík:

CC-BY-SA 3.0 Zdzisław Beksiński (copyrights inherited by Muzeum Historyczne w Sanoku)
Án titils – CC-BY-SA 3.0 Zdzisław Beksiński (réttindi erfð af Muzeum Historyczne w Sanoku)

Beksiński fjölskyldan hafði reyndar flutt úr Sanok 1977, til Varsjár, en Beksiński eldri var klárlega áfram eftirlætissonur Sanok. Þetta var svona Kjarvalinn í bænum. Verk hans sáust á betri heimilum bæjarins og í stofnunum og bæjarlistasafnið varðveitir mörg hundruð málverka eftir hann sem hann gaf bænum á meðan hann lifði, sem og að sér látnum. Sem er helvíti magnað því þetta eru verk sem seldust dýrum dómi í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, þar sem nóg er af svínslega ríku fólki með sæmilegan listasmekk.

Mér fannst þetta auðvitað dálítið spes. Því þetta eru auðvitað dálítið sérstök verk og maður býst ekki alveg við að sjá þau inni hjá virðulegum eldri konum eða biðstofum sjúkrahúsa. En í Sanok sáust þau einmitt víða. Því Beksiński var stolt og sómi bæjarins.

Sonur hans, Tomasz Beksiński, var kvikmyndaþýðandi og með þekktari plötusnúðum landsins. Heil kynslóð af ímó-progg-altvernatíf unnendum Póllands, kóperaði tónslistarsmekk hans og gerði að sínum eigin. Á níunda og tíunda áratug var hann með langa þætti um tónlist, oft á furðutímum eins og kl. 0- 4 um nótt aðfaranótt sunnudags sem bætti einungis við költstatus hans.

Hann var alltaf dálítið dökk og þunglynd týpa. Saga gekk í Sanok að hann hafi á menntaskólaárum sínum búið til dánartilkynningu um sjálfan sig og límt á helstu styttur bæjarins. Og tónlistarsmekkurinn var eftir því. Eins og hann sagði oft sjálfur: “Næsta lag er soldið eins og pabbi hefði málað það.”

Þann 11.-12. desember fór hann í útsendingu á pólska ríkis-þristinum í þátt sem reyndist vera hans síðasti.

http://www.youtube.com/watch?v=6GifAoNZuQc

Þátturinn er stútfullur af tilvitnunum í endalok þáttarstjórnandinn tekur margsinnis fram að þau kynni að vera nærri.

“Eftir viku er Piotr Kosinski með þáttinn, eftir tvær vikur eru jól, og eftir þrjár vikur er árið 2000. Gerið ykkur grein fyrir því að í dag erum við að hittast í seinasta skipti… [stutt þögn] á tíunda áratugnum?  Og kannski verður þetta bara seinasta skipti sem við hittumst yfir höfuð? Hver veit hvað gerist? Framundan er, jú, allsherjarhrun tölvukerfis.”

Tomasz Beksiński framdi sjálfsmorð 24. desember 1999. Faðir hans kom að honum látnum. Því miður höfðu annars augljósar sjálfsmorðshótanir hans farið framhjá fólki, sem flest tók þeim sem áhyggjum manns sem er skíthræddur út af 2000 vandanum.

Faðirinn, Zdzisław Beksiński lifði til 2005. Hans endalok voru einnig fremur sorgleg. Hann var myrtur í febrúar það ár, stunginn til bana af ungum manni sem hann hafði neitað um smávægilegt lán. Fjölskylda unga mannsins hafði unnið ýmis verk fyrir Beksiński eldri svo þeir tveir þekktust. Beksinski eldri er grafinn í Sanok, ásamt konu sinni (sem lést 1998) og syni.

Leave a Reply

Your email address will not be published.