Tvöfalt kerfi – Undir stjórn Jaruzelskis 12/100

Í seinasta pistli mínum fjallaði ég um þá reynslu mína að vera útskúfað úr samfélagi leikskólabarna í Sanok. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og tala um leikskólamál.

Bara til gamans: Hér er myndband sem tengir saman varahetju þessarar raðar við leikskólamál. Þetta er frétt frá þeim tíma sem ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis (ég sést ekki í myndbandinu).

Fyrsti hluti er svona “Jaruzelski looking at things” myndband. Í þessu tilfelli er Jaruzelski að horfa á spítala, og ræðir meðal annars við Zbigniew Religa, einn fremsta hjartaígræðslulækni Póllands, sem fór síðar í forsetaframboð og var raunar um tíma heilbrigðisráðherra, undir stjórn tvíburanna.

Seinni hluti fjallar, hvurn skyldi ekki gruna, um skort á leikskólaplássi. Það er raunar athyglisvert að fréttin gefur þeim möguleika gaum að senda börn í einkaleikskóla. Ég segi þetta til að fólk haldi ekki að alls ekkert einkaframtak hafi þrifist í Póllandi á þessum tíma. Svo var nú ekki alveg. Ýmislegt slíkt var til en flest þó af litlum skala. Á fréttinni að dæma má jafnvel álykta að straumar Thatchers hafi fundið sér leið víðar en maður hélt. Fólk er beinlínis hvatt til að stofna einkaleikskóla.

***

Smá hliðarspor í flokknum “Þegar ég var 31 árs undir stjórn Tusk”.

Ég fór nýlega aftur til Póllands og var í nokkra mánuði. Mig langaði að koma syni mínum á leikskóla yfir þann tíma. Ég fór fyrst á opinberan leikskóla, en það var svolítið, svona: “Stimpil hér, lögheimilisvottorð, staðfesting atvinnurekand, úúú… er barnið ekki með kennitölu? Úúú…”

Ég fór á einkarekinn leikskóla, sem vissulega aðeins dýrari (40 þús. á mánuði), en það var bara: “Ekkert mál, íslenska kennitalan dugar. Jú, já látum allt reddast”

Og þegar ég spurði hvenær strákurinn gæti byrjað horfði sagði leikskólastjórinn: “Já, ég meina hann fer heim núna…” og horfði svo spyrjandi á mig: “Eða…”

Hann fékk staðfestingu á því að ég ætlaði ekki að skilja barnið eftir þarna í kynningarheimsókninni.

“Ókei, en hann getur komið á morgun.”

***

Sumir hérlendis sjá “tvöfalt kerfi” sem eitthvað það skelfilegasta sem samfélagið getur hent. Ég bara fæ mig ekki til að deila þeim áhyggjum. Mér finnst bara ekkert að því að hafa tvö kerfi:

Opinbera kerfið, þar sem fólk spyr margra flókinna spurninga og lætur þig svo hugsanlega hafa mjög niðurgreitt leikskólapláss.

Einkarekna kerfið, þar sem fólk spyr mun færri spurninga og lætur þig hafa leikskólapláss ef þú borgar mun hærra verð.

Það sem mér finnst ljótt er að hafa bara eitt kerfi og segja svo við fólk: sorrý karlinn minn, þú uppfyllir ekki skilyrðin til að vera í kerfinu.  “Þú mátt ekki fara í leikskóla því mamma þín er heimavinnandi. Eða: Þú ert of gamall fyrir augnaðgerð.”

Fólk forgangsraðar. Ég forgangsraðaði þannig að ég setti son minn á einkarekinn leikskóla, var ekki á bíl, ferðaðist minna en ég hefði viljað og saxaði á spariféð sem ella hefði verið notað til að fjármagna upprisu hinnar íslensku millistéttar. En ég er glaður yfir því að mitt gamla heimaland sé orðið þannig, land þar sem fólk getur forgangsraðað, í stað þess að vera land þar sem allt kostar skrifræðilega fyrirhöfn og þar sem þú helst þarft að þekkja einhvern til að kippa í spotta þegar þegar hinar formlegu leiðir klikka. Eins og þetta var.

Leave a Reply

Your email address will not be published.