Þegar við fengum síma, í smátíma – Undir stjórn Jaruzelskis 10/100

Fjölmargir Pólverjar hafa aldrei átt heimasíma. Þegar farsímafyrirtækin ruddust fram á veginn á tíunda áratugnum löbbuðu milljónir manna út úr búðum með fyrsta símann sem þeir höfðu nokkurn tímann átt. Net ríkissímafyrirtækisins hafði ekki beint staðið sig í því að dreifa tækninni til almennings.

Amma mín hafði örugglega beðið eftir síma í áratug. Svo tók við bið eftir símaskrá. Það var annar áratugur. Fjölmargir sem ég þekkti, raunar flestir, áttu ekkert síma. Við vorum lengst af í þeim hópi.

Ég bjó, líkt og ég kom að í seinasta pistli, í miðju útisafni, safnið var um 40 hektarar og það var örugglega um kílómeter frá innganginum og þangað sem litla græna húsið okkar stóð. Þannig að í sjálfu sér mátti skilja þá forgansröðun Jaruzelskis að vilja ekki leggja símalínu til okkar.

Inngangurinn inn í safnið er í gegnum tignarlegt hvítt ættaróðal sem í daglegu tali var kallað “Dworek” eða “Setrið”. Þar var miðasala og þar voru nokkrir yfirmenn safnsins, sem í dag væru kallaðir “mannauðsstjórar” eða “kynningarstjórar”, með skrifstofur.

Sími, líkur þeim sem var ekki á heimili okkar, undir stjórn Jaruzelskis.
Sími, líkur þeim sem var ekki á heimili okkar, undir stjórn Jaruzelskis.

Dag einn, þegar ég var barn undir stjórn Jaruzelskis, kom svo til þess að við fengum loksins síma. Gott ef við fengum ekki að deila honum með konunni sem bjó í hinni íbúðinni. Úr þessum síma gátum við hringt…

… í Setrið. Sem sagt í miðasöluna.

Og ekki nóg með það. Líkt og ekki væri komið nóg af dekri, þá gátum við, einn klukkutíma í viku, hringt hvert á land sem er! Þennan klukkutíma var línan algerlega okkar. Þvílíkt blómaskeið fjarskipta sem þetta var!

Örfáum mánuðum eftir að við fengum síma voru verkamenn á útisafninu að vinna jarðvegsvinnu vegna annars, ótengds verkefnis. Vildi ekki betur en svo að þeir slitu við það í sundur símalínuna sem aðrir verkamenn höfðu nýlokið við að leggja.

Lauk með þar með símaævintýrinu okkar í Sanok.

Leave a Reply

Your email address will not be published.