Skyldusparnaður skólabarna – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 7/100

Dag einn, þegar ég var átta ára, undir stjórn Jaruzelskis, tilkynnti kennarinn okkur að það átti að kenna okkur sparnað. Næsta dag áttu allir að mæta með fyrirfram ákveðna upphæð til að setja í “Skólasparisjóðinn”.

Skólasparisjóðurinn var leið til að kenna skólabörnum sparnað. Maður kom með eitthvað klink, lét kennarann hafa, kennarinn tók peninginn, skráði niður upphæðina í einhverja bók. Skráði niður sömu upphæð í manns eigin bók. Og í lok skólaársins gat maður náðarsamlega tekið upp sömu upphæð, vaxtalaust.

Á þessu ári, 1988, var verðbólgan 59%. Árið áður hafði hún verið 26%. Árið eftir, 1989, átti hún eftir að fara upp í 244%.
http://datamarket.com/data/set/148w/inflation-consumer-prices-annual#!ds=148w!ga2=10&display=line&s=2tg&e=8gd

Vel að merkja. Kommúnistarnir fundu ekki upp “Skólasparisjóðinn”. Né heldur var hann alfarið lagður af eftir að þeir hrökkluðust frá völdum. En þeir gerðu hann að flaggskipi sínu, settu þetta verkefni í alla skóla landsins og gerðu að skyldu fyrir alla nemendur. Hápunktur Skólasparisjóðsins var 9. áratugurinn. Það þótti afar mikilvægt að kenna börnum þá dyggð að spara með því að láta þá setja peninga inn á vaxtalausan reikning meðan verðbólga fór aldrei undir 10%. Og var oftast miklu hærri.

Kannski var ásetningurinn ekki sá versti. Kannski voru upphæðirnar ekki þær hæstu. Kannski voru peningarnir ekki einungis notaðir til að efla leyniþjónustu landsins . En það að hrifsa pening af skólabörnum fer klárlega á “ekkert spes” listann þegar gera á upp valdatíð hinna kommúnísku stjórnvalda Póllands.

Leave a Reply

Your email address will not be published.