Konan sem kenndi mér dreifiregluna – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 6/100

Glöggir lesendur þessarar síðu hafa eflaust uppgötvað að ég tók fyrstu skólaárin mín í Póllandi, undir stjórn Jaruzelskis. Ég kláraði þannig fyrsta og þriðja bekkinn, eins og kerfið var þá, úti í Póllandi. Í íslenska kerfinu í dag myndi þetta svara til 2. og 4. bekks. Ég hafði reyndar líka farið í sex ára bekk, sem þá var kallaður “núllti” bekkur og kynntist þar einum besta vini mínum til margra ára.

Ég gekk í “Grunnskóla nr. 8 í Sanok” eins og skólinn hét þá. Þetta var frekar nýmóðins skóli. Hann var með þremur íþróttasölum, íþróttavelli og sundlaug, staðsettur í miðju blokkahverfi. Skólinn og hverfið í kring eru bíllaust svæði og maður kemst því ekki alveg að honum á google Street View. Þessi þrjú ár grunnskólans gekk ég í sama bekkinn. A bekkinn. Og ég var með sama kennara í öllu þessi þrjú ár. Hún kenndi mér meira að segja leikfimi fyrstu tvö árin.

bekkjarmynd2
Dæmigerð bekkjarmynd frá Jaruzelski tímanum. Yðar sjálfhverfi er í neðstu röð lengst til vinstri.

Þannig að þetta var þá konan sem kenndi mér að lesa og reikna. Dálítið fyndið hverju ég man eftir. Ég man til dæmis mjög vel eftir þegar hún skrifaði frumsendur algebrunnar á töfluna. Svona eins og

a + b = b +a
a(b+c) = ab + ac

Ég man líka þegar hún útskýrði fyrir okkur að þegar þegar stafurinn I kemur á eftir C, N, S og Z þá skrifar maður ekki kommu fyrir ofan stafina þótt maður beri stafina fram eins og þeir væru með kommu. Þetta hefur mér greinilega þótt minnistæðast, dreifireglan og hljóðfræðin bak við mýkingu ákveðinna samhljóða.

Ég held að við höfum verið með fyrstu bekkjunum sem þessi kennslukona kenndi, ef ekki sá fyrsti. Hún var allavega ekki mjög gömul. Þrátt fyrir að ég hafi verið á Íslandi hluta þess tíma þá eyddi ég auðvitað mjög miklum tíma með þessari konu og líkt og aðrir umsjónarkennarar ungra barna var hún með mikilvægari manneskjum í lífi mínu þennan tíma. Mér fannst því dálítið gaman að fá að klára 9 ára bekkinn úti í Póllandi, sem ég gerði (monti-mont) með hæstu einkun í öllum fögum. Þetta var ágætis lokun. Ég var að flytja, hún var að hætta með okkur.

Ég á reyndar eina örlítið melankólíska minningu tengda þessum seinustu dögum úti í Sanok. Kennslukona mín var nefnilega að gifta sig helgina eftir skólaslitin og hún hafði verið svo indæl bjóða öllum bekknum. En við vorum bara að flytja til Íslands, eitthvað eins og daginn eftir, og höfðum ekki mikinn tíma, minnir mig.

Ég man að ég fór þennan seinasta dag minn í Sanok til að kveðja besta vin minn á þessum árum og þegar við mamma erum að labba heim þá göngum fram hjá litlu kirkjunni þar sem athöfnin var að fara fram. Kirkjuhurðin var opin og ég náði að líta inn úr fjarska þar sem ég sá glitta í krakkaskara, bekkjarsystkin mín, þar sem þau stóðu í sínu fínasta með einhver blóm og drasl.

Ég man ekki hvort ég hafi beðið um að fá að fara, líklegast ekki, ætli ég hafi sjálfur ekki mótað mér þá skoðun að það yrði of mikið vesen fyrir alla. Og kannski bættist líka við að við vorum ekki beint kirkjuræknasta fólkið í bænum. En á einhvern hátt hefur þetta nagað mig. Þrátt fyrir að ég hafi verið barn, og aldarfjórðungur sé liðinn síðan þá finnst mér enn lélegt að hafa ekki mætt í brúðkaup til konunnar sem kenndi mér að margfalda upp úr sviga.

Leave a Reply

Your email address will not be published.