Skömmtunarmiðarnir – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 4/100

Það er ekki á allra vitorði en ég hef ekki alltaf búið á Íslandi, í hinu haftalausa hagkerfi allsnægtanna. Þangað til ég var átta ára bjó ég í Póllandi, undir stjórn Jaruzelskis.

Á þeim tíma var kjöti skammtað. Raunar höfðu mjög margar vörur verið í skömmtun frá miðjum áttunda áratug, þ.m.t. sykur, smjör, súkkulaði, áfengi, þvottaefni, hrísgrjón, bensín. Þetta byrjaði raunar allt með skömmtun á sykri 1976 þegar “tímabundinni magnstjórnun” var komið á til að minnka heimabrugg og auka möguleika á sykurútflutningi.

Já, kjötskömmtun… Kjöti var skammtað frá 1981 og fram yfir sumarið 1989. Miðunum var úthlutað eftir heljarinnar reglum þar sem magnið fór eftir aldri kyni og starf viðkomandi. Fólk í líkamlegri vinnu fékk meira, bændur ekkert. Börn meira. Letingjar ekkert.

Við í fjölskyldunni vorum reyndar aldrei svaka mikið fyrir kjöt. Vorum alls ekki grænmetisætur en borðuðum kannski minna af því en aðrir. En við höfum örugglega aldrei borðað meira af því en þarna. Þegar maður á enn inni 700 g af “Woł. Ciel z Kością” (ungnautakjöt með beini) þá étur maður það náttúrlega. Reyndar áttum við hund í Sanok, Diönku. Hún hjálpaði okkur með þetta.

Kjötskömmtunarmiðar, frá þeim tíma þegar ég var 8 ára. "Mięso" er kjöt. Langi textinn í sumum kössunum er kjöt með beini. "Rezerwa" tákna reiti sem gátu verið fráteknir undir ólíkar vörur.
Kjötskömmtunarmiðar, frá þeim tíma þegar ég var 8 ára undir stjórn Jaruzelskis. “Mięso” er kjöt. Langi textinn í sumum kössunum er kjöt með beini. “Rezerwa” reitirnir voru fráteknir undir aðrar vörur.  Mynd: Jerzy Najmoła.

Til gamans: Ég flutti ekki til Íslands í einum rikk. Ég kom hingað sumarið 1988 og fór svo í skóla um haustið. En svo tók ég hluta af því skólaári úti í Pólland og raunar tók ég meirihlutann af 9 ára bekknum í Póllandi líka. Kláraði þar skólaárið 1989 hann og fékk einkunnarspjald sumarið 1990. Það var gaman að því. Ég upplifði þannig þegar Alþýðulýðveldið Pólland leið undir lok. Ég upplifði það þegar þingið skipti um skjaldarmerki, ríkjaheiti, breytti stjórnarskráni og kaus okkur nýjan forseta með eins atkvæðis mun. Sá var fyrrum hershöfðingi og hét Wojciech Jaruzelski.

Um tíma bjó ég þannig á tveimur stöðum. Mamma sagði mér að hún hafi alls ekki verið viss um hvort hún vildi búa á Íslandi. Henni fannst vöruúrvalið á Íslandi seint á 9. áratug seinustu aldar vera svo fátæklegt. Þannig að við fluttum tímabundið aftur. Í kommúnistaríkið.

Leave a Reply

Your email address will not be published.