Ferðin til Noregs – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 3/100

Eitt  leyndarmál hef ég hingað til geymt eins og sjáaldur augna minna. Það er sú staðreynd að þegar ég var átta ára hafi ég búið í Póllandi undir stjórn Jaruzelskis. Jaruzelski leyfði mér samt einu sinni að fara til útlanda. Það var þegar ég var sex ára.

Fyrir barn í kommúnistaríki er það að fara til útlanda svolítið eins og að fara út í geim. Pabbi minn var alltaf í útlöndum. Fyrir bekkjarfélögunum var það eins og pabbi minn væri geimfari.

Pabbi minn var á þessum tíma að læra norsku. Þetta var áður en hann fann sér minna mainstream tungumál til að mastera. Til að komast til Noregs þurftum við að tala lest frá Sanok til Świnoujście, þaðan með ferju til Ystad. Og svo með lest til Osloar.

Þetta er sirka leiðin sem sjá má hér að neðan:


View Larger Map

Ég man nokkra hluti frá þessari ferð. Man eftir skipsferðinni. Best man ég eftir því þegar ég stóð á þilfarinu á skipinu frá Polferries og sá fyrst móta fyrir landi. Þetta var Svíþjóð. Ég man að ég ætlaði mér að muna þessa stund. Ég held að ég hafi sagt við mömmu mína að hjarta slægi hraðar. Ég held að það hafi ekki gert það, en ég ætlaði að muna það þannig. Í minningunni ætlaði ég að hafa þetta hástemmt.

Veðrið var ekkert spes. Það var grámygla. Himinn og hafið voru svipuð á litinn. Mitt fyrsta útland, Svíþjóð, tróð sér loksins á milli þeirra.

Minnir að pabbi minn hafi tekið á móti okkur í Ystad. Svo hafi ég farið á sofa á einhverju gistiheimili. Síðan tókum við lest til Oslóar. Í Osló fór ég í matvörumarkað. Það var svona hlið við innganginn sem opnaðist fyrir mér án þess að ég snerti það. “Velkominn í geimskipið,” hefði einhver getað sagt.

Allt var hreinna, litskrúðugra og betra. Allar vörurnar voru í einhverjum skærum plastumbúðum. Það voru teiknimyndafígúrur á morgunkorni og leikföng inni í pökkunum. Hefur einhver einhvern tímann hugsað um hver barnaleg og um leið barnvæn stefna kapítalisminn er? “Setjum brosandi veru með augu framan á matvöruna. Börnin munu elska það. Foreldrarnir munu kaupa það.”

Vinur pabba míns, Lars, átti hús úti á eyju fyrir utan Osló. Það var í þessari eyju sem ég eitt kvöldið sá fyrst ís í risastórum tveggja lítra umbúðum. Fyrir sex ára barni verða táknmyndir allsnægtanna varla skýrari.

Ís í risastórum, litríkum umbúðum? Ekki undir stjórn Jaruzelskis! CC-BY-SA Rusty Clark
Ís í risastórum, litríkum umbúðum? Ekki undir stjórn Jaruzelskis! CC-BY-SA Rusty Clark

One thought on “Ferðin til Noregs – Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis 3/100

  1. Fróðleg lýsing! Ég fluttist til Svíþjóðar á áttunda áratuginum. Eignaðist þar pólskan bekkjarfélaga og vin, sem alltaf átti brjóstsykur á borðum heima hjá sér. Slíka dýrð þekkti Íslendingurinn ekki. Kannski var þetta nýjabrum. Eða brjóstsykur frá heimalandinu. Hann var alla vega góður. En sögur innflytjenda enduðu ekki allar vel, félaginn sat ef hann situr ekki enn inni, fyrir tilraun til morðs að mér skilst. Ég flutti burt. Heim í allnægtirnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.