Fastur í austurþýskri leikgrind – Undir stjórn Jaruzelskis 25/100

iferdarumiVið fyrstu sýn virðist hér um að ræða krúttlega mynd af barni í samanbrjótanlegri leikgrind. En myndin er, líkt og allt annað í þessari átakanlegu, sögu stútfull af táknmyndum um frelsisbaráttu mannkyns.

Til að byrja með skulum átta okkur á því að barnið fæðist í þann mund sem ákveðinnar þíðu er farið að gæta í stjórnmálum lands. Og í þann mund sem barnið er farið að geta gengið um, og sér fyrir sér að það geti ferðast um heiminn, frjálst og engum háð þá… bang… er barninu stungið steininn. Þú getur labbað hér! Er þetta ekki nógu gott fyrir þig?

Og líkt og það væri ekki nógu táknrænt þá var leikgrindin á myndinni framleidd í Austur-Þýskalandi,  bestversta alþýðulýðveldinu.

Mamma sagði mér reyndar að hún hafi verið mjög ánægð með þessa leikgrind. Enda voru möskvarnir á netinu nægilega stórir til að hendur gætu gripið í og híft sig upp. Netin á svona leikgrindum í dag gætu fangað síli. Enginn mun slasa sig í þeim. Enginn mun heldur hífa sig upp á fætur.

Merking kanínnunar í grindinni er auðvitað öllum ljós. En ætli ég skýri hana ekki samt.

Samstaðan og raunar öll stjórnarandstaðan í Póllandi gerðu „V“ fingramerkið að einu tákna sinna. Það var notað víða, jafnt á plakötum sem og þegar leiðtogar hennar töluðu.

Lech_Walesa_George_H_Bush

Fljótlega varð kanínan því einnig eitt af merkjum baráttunnar fyrir betra stjórnkerfi. Enda líta eyru kánínunnar út eins og „V“. Kanínuna í leikgrindinni verður að skoða í þessu samhengi. Leikgrindin er austurblokkin. Netið er járntjaldið. Þar stendur ungur maður og heimtar markaðs- og stjórnsýsluumbætur um leið og hann getur staðið í lappirnar. Og horfir út í heiminn. Fullur aðdáundar á því sem þar er að finna.

Úlpulaus og húfulaus – Undir stjórn Jaruzelskis 24/100

Þar sem pabbi minn var stundum í útlöndum að læra einhver furðumál sendi hann mér stundum einhver föt sem voru örlítið meira skínandi en það sem hinir krakkarnir voru í.

Einhvern tímann var það jakki, einhvern tímann eyrnaband með endurskinsmerki. Því miður entist ekkert af þessu neitt lengi. Sumu týndi ég, enda hélst mér illa á fötum þegar ég var barn. En flestu var þó stolið. Maður labbaði kannski skólann með skærlita húfa. Hengdi hana upp í fatahenginu og svo var hún horfin þegar maður var að fara heim. Rökréttasta ágiskunin, gæti fólk haldið, væri að þetta væru einhverjir aðrir krakkar sem stálu fötunum manns, en hins vegar var fatahengjum læst með lykli á daginn svo að, og ég veit því miður ekki hvort maður verði ekki að taka þann möguleika til greina að starfsfólkið hafi átt einhvern þátt í þessu. Eins dapurlegt og það nú er.

Nú eru þetta auðvitað dálítið hættuleg skrif hjá mér, verð ég að viðurkenna. Þegar maður greinir frá svona sögum á maður alltaf á hættu að stimpla þjófkenningu heils þjóðfélagsins í hausinn á fólki, jafnvel þótt óvart sé. Ætli vinstrisinnaðri vinir mínir lesi ekki úr þessari sögu stuðning við þær tilgátur sína að ójöfnuður fjölgi glæpum. Og líklegast er sú tilgáta rétt. Ef einhver sér einhvern annan njóta, að hans mati, óverðskuldaðs lífsgæðaforskots í formi glansandi eyrnabands þá beitir hann sínum aðferðum til að jafna það forskot.

Hin hliðin á þessu: Ég man hvað opinberar eigur voru illa farnar þegar ég var barn undir stjórn kommúnismans. Málning að hrynja af. Ekkert þrifið nema í algerri neyð. Búið að stela öllu sem laust. Það verður reyndar að láta það fylgja að Pólverjar hafa, stóran hluta seinustu alda þurft að búa í ríkjum sem hafa ekki beinlínis verið þeim vingjarnleg. Frá 1795 til 1918 er Pólland ekki til sem ríki. Ekki heldur 1939-1945. Eftir það taka við stjórnvöld sem þvinguð voru upp á okkur af Sovétmönnum. Þannig að „Göngum vel um almannaeigur – Förum vel með almannafé“ rökleiðslan hefur oft ekki verið sérstaklega sterk. Þvert á móti hefur oft mátt líta á það sem pólitískan aktívisma að stela eða rústa ríkiseignum. Ég á erfitt með að meta hvort þetta hafi breyst, en mín tilfinning segir að svo sé án nokkurs vafa.

Pólverjar eru reyndar enn sannfærðir um að það sé alltaf miklu stolið hjá þeim. Ég veit það ekki. Ég týndi símanum mínum í Reykjavík um daginn. Sá sem fann hann skilaði honum ekki, veit ég fyrir víst. Ég týndi símanum mínum í Póllandi fyrir einu og hálfu ári síðan. Sá sem fann hann sendi hann til mín með sendli. Á sinn eigin kostnað. Þetta er mín eigin rannsókn með þýði N=2. Ætli ég eigi að hafa vakað nógu mikið í Tölfræði I til að vita að það er nú ekki neitt til að byggja mikið á.

Mér finnst ég treysta fleirum þegar ég kem til Póllands. Ég treysti McDonalds-starfsfólkinu. Ég treysti fólki í bönkum. Ég treysti löggunni. Ég treysti meira að segja leigubílsstjórum. Á árum kommúnismans og fyrstu árum hrákapitalsismans gat maður því miður ekki treyst jafnmörgum. Og labbaði því stundum heim eyrnarbandslaus. Yfir götu, yfir brú, fram hjá ánni, inn á útisafnið, gegnum skóginn, og heim, í litla græna húsið.

Stríðsástandið 1981- Undir stjórn Jaruzelskis 23/100

Illugi Jökulsson spyr mig í Facebook-þræði hvernig viðhorf Pólverja til Jaruzelskis sé í dag. Ég skal reyna að svara því.

Höf: J. Żołnierkiewicz ,fengið úr Wikimedia Commons

Þess ber reyndar að geta að Pólverjar leika sér ekki að því, frekar en aðrar þjóðir að vera sammála um pólitík. Þegar stóra flugslysið var, árið 2010, voru menn sammála um að vera sorgmæddir í sirka viku. Svo gátu menn ekki einu sinn verið sammála um það.

Í Póllandi tilheyri ég líklegast miðju stjórnmálanna, hóp sem kallar sig sjálfan frjálslynt fólk, alvöruhægrimenn kalla „lygara-elítuna“ og vinstrimenn og bændur kalla últrafrjálshyggjumenn. En ég skal svara Jaruzelski-spurningunni, alla vega hvað mig sjálfan varðar.

Umdeildasta ákvörðun Jaruzelskis á ferlinum kom snemma þegar stríðsástandi var komið á að hans skipun. Umtalsverð þíða hafði verið í landinu árin áður, ritskoðun var gott sem afnumin, Samstaðan var leyfð og farin að færa sig upp á skaftið. Yfirvöldin í landinu, sem og yfirvöld í öðrum  nálægum löndum höfðu af þessu umtalsverðar áhyggjur. Í þessu ástandi var ákveðið að lýsa yfir stríðsástandi, stjórnarandstæðingar fangelsaðir og mótmæli á nokkrum vinnustöðum lamin niður með ofbeldi. Um hundrað manns misstu lífið.

Eina súrustu mynd þess tíma tók ljósmyndarinn Chris Niedenthal. Hún er af skriðdreka fyrir framan Moskvu-bíó í Varsjá. Risastórt plakat  framan á kvikmyndahúsinu auglýsir stríðsmyndina „Apocalypse Now“.

Vörn Jaruzelskis hefur alla tíð verið sú að aðgerðin hafi verið nauðsynleg, ekki síst til að koma í veg fyrir innrás Sovétmanna inn í landið. Ég held að margir hafi lengi leyft Jaruzelski að njóta vafans og talið að valdataka hersins hafi ef til vill komið í veg fyrir eitthvað enn verra. Menn mundu eftir Ungverjalandi 1956 og Tékkóslóvakíu 1968.

Raunin er hins vegar sú að sagan hefur ekki rennt sterkari stoðum undir þessa málsvörn Jaruzeslksis. Sovésk skjöl sem búið er að létta leynd af sýna mun frekar þá mynd að Jaruzelski hafi sóst eftir innrás Sovétmanna en ekki fengið . Sovétmönnum var mjög áfátt um að pólsku kommúnistarnir sæju um þetta sjálfir og gátu Mosku-menn jafnvel hugsað sér að missa Pólland fremur en að hætta á að fara með her sinn inn í eitthvað annað Afganistan. Þessi skoðun kemur til dæmis fram á fundi Politbjúrós 10. des. 1981, einungis þremur dögum áður en allt skellur á.

Hvað mig varðar er persóna Jaruzelskis því fremur tragísk. Hann er dæmi um mann sem hefði aldrei náð völdum nema í stjórnkerfi þar sem  kjörþokki eða hæfileiki til að tala við venjulegt fólk eru óþarfir. Við bætist að það sem hann hefur sagt um nauðsyn stríðsástandsis virðist ætla að fara á spjöld sögunnar sem eitthvað sem hljómaði kannski sennilega, en reyndist ekki vera satt.

Ég má þó hins vegar nefna það, því menn eiga það sem þeir eiga, að vissulega lét hann af völdum árið 1990 eftir að stjórnarandstaðan vann fyrst þingkosningar 1989 og svo forsetakosningarnar 1990. Nú þykir það kannski ekki mikið afrek. En segjum að einhver af Castró-genginu myndi semja við stjórnarandstöðuna, halda frjálsar kosningar og fara svo frá völdum. Þá mun ég taka ofan fyrir því. Og þann litla hátt á Jaruzelski vissulega einhvern pinku heiður skilinn. Pinku.

Dollarabúðirnar – Undir stjórn Jaruzelskis 22/100

Logo Pewex - keðjunnar á listaverki í Gdańsk.
Logo Pewex – keðjunnar á listaverki í Gdańsk.

Ó Pewex-dollarabúðirnar! Já, búðir þar sem maður gat keypt erlenda merkjavöru fyrir dollara eða dollaraígildi. Þetta var leið stjórnvalda til að ná í hluta þess gjaldeyris sem almenningur hafði undir koddunum. Þarna var hægt að kaupa ýmislegt sem annars fékkst ekki. Þarna var hægt að kaupa Lego. Og erlendar gallabuxur.

Langalgengasta dollarabúðakeðjan hét „Pewex“.  Það átti að vera einhvers konar umröðuð skammstöfun fyrir Przedsiębiorstwo Eksportu Wewnętrznego – „Innanlandsútflutningsfyrirtækið.“ (Dóru landkönnuðaþraut: „Hvað segiði krakkar? Sjáið þið rökvillu í nafninu? Hvar? Ég sé hana ekki. Ha? Fyrir aftan mig?“)

Það var í þessari byggingu í Sanok sem  stærsti hluta af Lego - safninu mínu var keyptur. CC-BY-SA 3.0 Lowdown
Það var í þessari byggingu í Sanok sem stærsti hluti af Lego – safninu mínu var keyptur. Þarna var Pewexið í Sanok til húsa. CC-BY-SA 3.0 Höf: Lowdown

Þrátt fyrir skárra úrval voru Dollarabúðirnar samt ekkert Magasin du Nord neitt. Maður gat svona kíkt yfir vörurnar þar sem þær voru bak við búðarborðið. Síðan þegar maður ákvað að kaupa eitthvað var það alltaf dálítið ferli.

Maður bað um að fá eitthvað. Í þessu tilfelli eitthvað Lego-dót. Fékk skjal. Fór með skjal í einhvern glugga. Fór með með pening og skjalið fékk annað skjal. Fór með það skjal í annan glugga. Þá var það stimplað. Fór með þetta stimplaða skjal og fékk dótið sem maður var að kaupa.

Ég var náttúrlega krakki á forvitnasta aldri og vildi vita hvað færist í hverju skrefi. „Nú erum við að skipta dollurum okkar og fá staðfestingu á að við megu fá vöruna.“ „Þetta er bara til að tékka eitthvað af.“ „Já, nú megum við fá Lego-kastalann.“

Kaldhæðni örlaganna var samt sú að verðið í þessum dollarabúðum, var bara ansi fínt, ef maður á annað borð hafði dollara. Ég man að þegar ég flutti til Íslands þá varð allt Lego skyndilega miklu dýrara. En þetta er eflaust saga margra sem flytja úr fátækara ríki í ríkara. Fyrstu árin eru oft dálítil viðbrigði. Maður fer úr því að vera einhver sem gat leyft sér hluti sem áður gátu sér ekki og yfir í að geta ekki leyft sér allt sem allir í kringum mann geta leyft sér.

Pewex-keðjan plummaði sig illa í hinum frjálsa markaði eftir 1989. Hún leið undir lok eftir að leið á tíunda áratuginn. En ég ber enga sérstaka nostalgíu til þessarara verslana. Æi, þegar hið opinbera skammtar forboðnum gersemum útlandanna til fólks sem á ættingja með tekjur í útlöndum í von um að menn gleymi því að þeir búi haftahagkerfi. Ég veit ekki með það.

Pólskir dollarar – Undir stjórn Jaruzelskis 21/100

Öll austantjaldsríki glímdu við endalausan gjaldeyrisskort. Fyrir vikið voru gjaldmiðlar þeirra ekki útskiptanlegir í aðra gjaldmiðla eftir venjulegum aðferðum heldur voru í gildi svokölluð (þið munið ekki trúa hvað þetta er fáranlegt) „gjaldeyrishöft“.

Að eiga og höndla með gjaldeyri var fyrst um sinn bannað. Síðan voru stjórnvöld farin að líta í gegnum fingur sér með þetta og einsettu sér frekar að reyna ná í þessa dollara fólks með hófstilltari aðgerðum. Sumar vörur, sem voru illa eða alls ekki fáanlegar venjulegu fólki (t.d. kol og byggingarefni) var hægt að kaupa fyrir gjaldeyri.

Þetta voru sem sagt vörur sem áttu, alla jafna að vera fluttar út, en voru seldar innanlands, fyrir gjaldeyri. Þessu fyrirkomulagi var því gefið hið alls-ekki-mótsagnarkennda heiti:

innanlandsútflutningur

Annar hluti af þessu fyrirkomulagi voru svokallaðar dollarabúðir. Þeir sem áttu dollara gátu keypt flottara dót en fékkst í öðrum búðum. Meira um þessar merku stofnanir síðar meir.

Strangt til tekið áttu þeir sem komust yfir gjaldeyri að skila honum í banka og þeir fengu þá í staðinn „dollaraígildi“. Þeir sem unnu fyrir pólska ríkið (eða pólsk ríkisfyrirtæki) í útlöndum fengu sömuleiðis  gjarnan greitt í dollaraígildum. Pólska ríkið færi nú ekki að greiða mönnum sem bjuggu innanlands í dollurum. Það væri fáranlegt. Þess í stað greiddu menn mönnum í „pólskum dollurum“, dollarígildum sem pólska ríkið prentaði og nota mátti í dollarabúðum og til að „flytja út vörur, innanlands“. (!)

Svona litu þessir seðlar út. Við áttum einhvern tímann nokkra og sýndum bandarískum vinum okkar á Íslandi. Þeim þótti þetta mjög fyndið. Dollarar sem kommúnistaríki gaf út:

Heil tvö sent maður. Einhver hefur unnið fyrir þessu.
Heil tvö sent. Einhver hefur unnið fyrir þessu.

[Athugasemd ætluð Fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands: Hugtökin innanlandsútflutningur og dollaraígildi sem koma fyrir í þessari grein eru ætluð til skemmtunar og fróðleiks. Ekki reyna þetta heima hjá ykkur. Í guðanna.]

Klappað rangt – Undir stjórn Jaruzelskis 20/100

Meira mál en þig grunar. CC-BY-SA 3.0 Evan-Amos.
Meira mál en þig grunar. CC-BY-SA 3.0 Evan-Amos.

Eitt sinn meðan ég bjó í tveimur löndum velti ég því fyrir mér hvor bekkurinn af þeim sem ég tilheyrði væri betri í fótbolta. Ég komst tiltölulega fljótt á þá niðurstöðu að það hlyti að vera sá íslenski. Á Íslandi æfði annar hver strákur fótbolta. Í Póllandi æfði enginn neitt.

Það verður vissulega að viðurkennast að Sanok var kannski ekki hjarta alheimsins og ekki hægt að æfa allt. En þetta hafði samt með ákveðið viðhorf að gera. Á Íslandi æfðu krakkar íþróttir, eða lærðu á hljóðfæri, því að þau (eða foreldrar þeirra) höfðu valið það. Í Póllandi undir stjórn Jaruzelskis voru það áhugamálin sem völdu mann en ekki öfugt.

Allt tengdist þetta ákveðinni oftrú á hæfileikum sem einkenndi mörg þessara ríkja. Menn höfðu „tónlistarhæfileika“ eða „íþróttahæfileika“. Og það borgaði sig ekki að kenna neinum sem ekki hefði þessa „hæfileika.“

Þegar pabbi var lítill hafði einhver útsendari tónlistar komist að því að hann hefði „tónlistarhæfileika“. Fyrir vikið æfði hann túbú, fiðlu, pianó uns hann komst loksins að því að eina sem veitti honum raunverulega ánægju var að spila á gítar á djamminu.

En já, það gekk svona fólk um fyrstu bekki grunnskóla. Leitandi að hæfileikum. Ég man þegar það kom til mín. Maður átti að klappa með einhverju lagi. Ef maður klappaði á 2 og 4 þá var maður greinilega með hæfileika. Ef maður klappaði á 1 og 3 þá var maður ekki með hæfileika. Ég klappaði á öllum atkvæðum orðanna í laginu. Svona:

 X   X  X X   X   X  X
Gekk ég yfir sjó og land.

Fyrir vikið var ég örugglega úrskurðaður óhæfur til tónlistarnáms. Ég fékk reyndar síðan gítar þegar ég var 17 ára og kann alveg að spila Wonderwall á djamminu. En sú sannfæring að til væri eitthvað sem héti „taktvísi“ sem væri af-eða-á eiginleiki hélst í mér ansi lengi. Ég var sannfærður vel fram yfir tvítugsaldur að til væri fólk sem væri taugafræðilega fært um að slá tvo takta sem sitthvorri hendinni, og svo fólk sem gæti það ekki. Ég taldi mig svo tilheyra síðari hópnum. Hóp hinna taktlausu.

Það var svo með þegar einhverjir kapitalistar sett á markað leikina Guitar Hero og Rock Band að ég keypti mér svona kitt með trommusetti og byrjaði að tromma. Nú get ég trommað Wonderwall upp í fimm stjörnur í Expert Mode. Af því leiðir að að minnsta kosti eitt af eftirfarandi hlýtur að vera satt:

  1. Trommuleikur Oasis er svo fábrotinn að jafnvel taktlaus maður getur náð honum.
  2. Skipting fólks í taktvíst og taktlaust er réttmæt en ég var bara ranglega greindur taktlaus meðan ég er í raun og veru taktvís.
  3. Sú pæling að mældir hæfileikar ungra barna (en ekki áhugi) eigi að ráða því hvort þau fái að leggja stund á tómstundariðju er kjaftæði. Þetta er mest spurning um æfingu.

Hnífapör í keðjum – Undir stjórn Jaruzelskis 19/100

Einu sinni þegar ég var að labba í Bieszczady-fjöllum með mömmu datt ég inn á veitingastað þar sem hnífarnir voru allir í keðjum sem skrúfaðar voru við borðin. Það er auðvitað ein leið til að koma í veg fyrir að hlutir hverfi: að festa þá húsgögn.

Ég veit að Vesturlandateprunum langar öllum að spyrja:

„En, en… svo kemur bara næsti maður og … ha? Nei…. Ha?“

En ekki spyrja. Höfum þetta sem ráðgátu.

Einn vinsælasti leikstjóri Pólverja frá þessum tíma, Stanisław Bareja, gerði grín að þessu í kvikmyndinni Miś (Bangsi).Klippan er hér að neðan, rúm ein og hálf mínuta, með enskum texta.

Hér eru reyndar skálarnar skrúfaðar við borðið einnig, sem og skeiðarnar og gestir þurfa að samhæfa handahreyfingar til að geta borðað súpuna. Þetta eru reyndar ýkjur eins og flest í myndum hans.  En það er sannleikur í þessu þó hann sé málaður í skærum litum.

Þjófótti pósturinn – Undir stjórn Jaruzelskis 18/100

Seinasta daginn sem hægt var að senda jólakort innanlands seinustu jól sendi ég jólakort til ömmu minnar sem býr í Slesía héraði. (Þetta var amma mín sem ég minntist á í grein um lestarferðina. Ef hún myndi skrifa greinarflokk eins og þennan þá héti hann: „Þegar ég var átta ára undir stjórn Hitlers“)

En hvað um það. Jólakortið barst henni fyrir jól.

CC-BY-SA 3.0 User: Grisznak
CC-BY-SA 3.0 User: Grisznak

Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis hefði póstur frá Íslandi til Póllands verið mánuð á leiðinni. Og það var nú eitt en þessir tímar hafa styst alls staðar í heimi. Eðlilega. Verra var að pósturinn kom oftar en ekki tættur og opnaður á áfangastað. Og búið að stela ýmsu úr honum.

Nú veit ég ekki hvort það voru póststarfsmenn, leyniþjónustan eða einhverjir aðrir sem komust í hann á leiðinni, en ef það var einhver minnsti grunur að umslagið innihélt eitthvað sem líktist peningum bréfið opnað og stolið innan úr því. Ég mann að einhvern tímann sendi pabbi svona litla merkimiða til að setja á pakka. Stolið. Og oft komu bréfin bara alls ekki.

Allt þetta getur auðvitað gerst, en umfangið þjófnaðarins var slíkt að það gat varla verið um tilviljun að ræða. Einhvern veginn hlaut það að vera þannig að einhvers staðar fengu þjófar að leika lausum hala án þess að neinn gerði neitt í því.

Búi maður í Póllandi nú getur maður alla vega valið milli nokkurra fyrirtækja sem sendast með dót á milli staða. Í þá daga þurfti maður að reiða sig á opinberan aðila sem var óvinveittur. Las bréf fólks og stal úr þeim öllu sem verðmætt var.

Skyldusíldin – Undir stjórn Jaruzelskis 17/100

Árið 1982 setti Jaruzelski lög sem bönnuðu sölu áfengis fyrir klukkan 13 á daginn. Þetta var náttúrlega gert til að sporna við ölvun.  Að nafninu til voru yfirvöldin í Póllandi alla tíð að reyna að minnka neyslu áfengis. Í reynd keyrði áfengissalan upp efnahaginn og fjármagnaði rekstur ríkissjóðs að ótrúlega stórum hluta.

Áætlað er að 1980 hafið 14,5 % af öllum tekjum ríkissjóðs komið úr áfengissölu. (Sjá þennan link (á pólsku) ). Þá hafi neyslan farið úr 1,5 l á mann á ári af hreinum vínanda á millistríðsárum og yfir 10 l á mann við lok níunda áratugarins. Svona var forgangsröðunin, kjöt, sykur og hveiti vantaði, en einhvern vibbavodka var nú oftast hægt að finna. Og hvað haldið að gerist ef allt vantar nema áfengið og fólk situr með aukapening sem það getur ekki einu sinni eytt í mat? Hmm…

Það hvort þú takmarkir sölutímann við kl. 13 mun náttúrlega litlu breyta í þannig ástandi. Enda dró þetta ekkert úr áfengissölu en skapaði í staðinn þónokkra samkennd og til urðu dægurlög eins og „Tíu mínútur í eitt“. Með textum á borð við:

„Klukkan sló eitt,
Nýr dagur hefst
Röðin gengur hratt
og öllum er létt“

Mér eldri menn sögðu mér þó að ein undantekning hefði verið gerð á þessum tímatakmörkunum. Það var ef menn pöntuðu sér drykk með mat. Fyrir vikið var eftirfarandi sena algeng á pólskum börum:

Leikþáttur

Kúnni: Ég ætla fá eitt vodkastaup. 100 ml.

Barþerna í skítugum slopp: Því miður, við afgreiðum bara áfengi með mat fyrir kl. 13.

Kúnni: Ok, hvað áttu?

Barþerna í skítugum slopp:  Ég á síld.

Kúnni: Ok þá. Eina síld og eitt vodkastaup, 100 ml.

Barþernan teygjir sér undir borðið og nær í illa lyktandi síldarbita úr opnu plastíláti. Fleygir því á lítinn disk. Hellir svo í vodkastaup.

Kúnninn borgar, skellir í sig vodkastaupinu og labbar út.

Barþernan nær í diskinn með síldinni og sturtar henni snyrtilega að nýju í plastdallinn fyrir neðan afgreiðsluborðið.

Þar mun síldin bíða uns hún þarf að sinna þegnskylduvinnu sinni að nýju.

"Komdu með okkur að byggja nýjan morgun." Maðurinn sem fjármagnaði þennan nýja morgun sést fremst á mynd.
„Komdu með okkur að byggja nýjan morgun.“
Maðurinn sem fjármagnaði þennan nýja morgun sést fremst á mynd.

Fimm tíma í leigubíl – Undir stjórn Jaruzelskis 16/100

Frá flugvellinum í Kraká var fimm tíma akstur til Sanok. Ég var átta ára. Jaruzelski var við völd.

Nú er Jaruzelski ekki lengur við völd. Ég er ekki lengur átta ára. Nú er búið að byggja hraðbraut og maður kæmist þetta á innan við þremur tímum. En þegar ég var átta ára, undir stjórn Jaruzelskis, var ekki mikið um hraðbrautir.

Jólin voru á nálgast. Jólin 1988. Þetta var á þeim tíma sem við bjuggum enn þá í báðum löndunum . Ég var á leiðinni frá Íslandi með pabba. Við flugum til London með Icelandair og síðan með skröltandi Tupolev frá Lot til Kraká. (Frá Kraká hélt vélin reyndar áfram til Varsjár, en við tókum bara fyrri legginn).


View Larger Map

Við fórum út í Kraká og eftir að hafa tekist að koma í veg fyrir að flugvélin færi með farangurinn okkar til Varsjár gengum við út af flugvellinum í leit að einhverjum leigubílstjóra sem gæti keyrt okkur til Sanok. (Þegar ég segi „við“ þá játa ég samt að ábyrgðinni var ekki fullkomlega jafnt skipt milli okkur feðganna).

Ég hef, í seinustu pistlum(hér og hér), farið yfir áreiðanleika og hraða pólsku lestanna á tímum kommúnismans. Sérstaklega þarna var lestin ekki góður kostur. Við hefðum þurft að koma okkur í miðbæ Kraká, gista þar, (vélin hafði lent seint) og svo þurft taka lest næsta morgun. Leigubíllinn virtist besti kostur, sérstaklega þar sem við, Vesturlandabúarnir, áttum dollara.

Dollarar voru margfalt betri en zloty, fyrir dollara gat maður keypt betri vörur. Einnig gat maður geymt dollara undir kodda án þess að þeir misstu nokkur prósent af verðgildi sínu yfir nótt. Vandinn við zlotýið á þessum tíma að það var orðið verðlaust þegar maður loksins gat fundið eitthvað til að kaupa fyrir það.

Jú, það fannst leigubílstjóri til að keyra okkur til Sanok. Samið var um verð og keyrt af stað í vondu færi. Eftir smá stund er eins og renni upp fyrir bílstjóranum að hann þurfi að keyra til baka líka og reynir að semja um hærra verð á grundvelli þessara nýframkomnu upplýsinga. Þeir pabbi karpa um þetta í einhverja stund og á leiðinni leggur pabbi einfaldlega til að kveikt yrði á mælinum. Það myndi auðvitað þýða greiðslu í zlotýum sem var eins og að fá borgað í brennisteinsösku. Það hélt aðeins aftur að samningagleði bílstjórans.

Við komum til Sanok seint um nótt, en ferðin gekk þó almennt vel. Þessi langa leigubílaferð endaði með að kosta hundrað dollara (ríflegt þjórþé innifalið). Leigubílstjórinn lagði sig víst í bílnum í innkeyrslunni að útisafninu áður en hann hélt aftur heim á leið.

CC-BY-SA 3.0 User: Joergsam
CC-BY-SA 3.0 User: Joergsam

Eins og allt svona þá var þetta örugglega ekki allt í takt við ströngustu túlkun einhverra greina laga um gjaldeyrishöft og leigubílaasktur. En auðvitað hefðu þessi samfélög ekki funkerað í sekúndu ef venjulegt fólk, sem var að reyna að bjarga sér, hefði tekið allan þennan efnahagslega haftalagabálk alvarlega. Svona var þetta. Er er kannski enn. Víða um heim.