Leiðrétting

Í grein minni í Fréttablaðinu í dag, sem fjallaði um RÚV, hélt ég eftirfarandi fram um dagskrárgerð RÚV: “Hafa þeir [þættir RÚV] unnið til einhverra alþjóðlegra verðlauna? Nei, því miður.”

Ég játa fúslega að þetta var ekki rétt hjá mér. Hér eru nokkur dæmi sem ég hef fundið síðan og mér hefur verið bent á:

http://www.ruv.is/leiklist/tvo-utvarpsverk-tilnefnd-til-prix-europa
http://www.ruv.is/frett/opid-hus-faer-norraen-utvarpsleikhusverdlaun
http://www.press.is/index.php/felagidh/frettir/2793-enginn_titill11111111112222222222333333333344444446

Þá hefur mér verið bent á að Fóstbræður hafi upprunarlega verið framleiddir af Stöð 3 en ekki Stöð 2.

Nú mætti í sjálfu sér eyða restinni af þessari færslu til að klóra sig í prentafturendan og bösslast við að halda því fram að efni greinarinnar standi þrátt fyrir þessar staðreyndavillur. Það verður að vera annarra að dæma um það.

Hins vegar er það bara þannig að þegar maður birtir grein í blaði þá á maður að sjá til að þar sé rétt farið með sannleikann. Svo var ekki í þessu tilfelli og ég skal því glaður láta út úr mér einfaldasta orð íslenskrar tungu: Fyrirgefið, lesendur og allir aðrir sem í hlut eiga.

4 thoughts on “Leiðrétting

  1. Vel gert að leiðrétta það sem miður fer kæri Pawel 🙂
    Vildi líka koma því á framfæri að Tvíhöfðabræður hófu feril sinn í útvarpi með þættinum Heimsenda á RÚV, þar sem þeir léku sér að forminu og prófuðu sig áfram með alls konar húmor, sem skapaði þeim hægt og rólega költ sem fylgdi þeim síðan yfir á hið frjálsa útvarp þegar þeir ákváðu að færa sig þangað. Það hefði líklega aldrei verið mögulegt að byggja þetta svona hægt og rólega upp á einni stöð með þrönga skírskotun. Sá trausti áheyrendahópur sem Tvíhöfði naut varð til þegar þættinum var útvarpað til breiðs hóps þar sem alls konar fólk sem átti þennan húmor sameiginlegan, en kannski ekki sama tónlistarsmekk eða aðrar “demógrafískar” forsendur, fékk að heyra og varð markaðsbær hópur. Þetta er áhugaverð afurð Ríkisútvarpsins sem má stundum standa í tilraunamennsku sem býr til hlustendahópa sem aðrar útvarpsstöðvar hafa enga þolinmæði til að rækta.

  2. Sæll Pawel, – ég fagna því að þú skulir maður til að biðjast afsökunar á þessum ekki bara leiðu – heldur skaðlegu – mistökum. Mér finnst samt nauðsynlegt að þú fáir leiðréttingu birta í Fréttablaðinu og vona að þú gerir það. – með kærri kveðju Guðrún Pétursdóttir

  3. Svona til að bæta aðeins við það sem Svavar sagði, þá hófu þeir einnig sjónvarpsferilinn á RÚV en þar voru þeir með innslög í Kastljósi undir nafninu “Hegðun, Atferli, Framkoma”. Fóstbræður voru ekki framleiddir af Stöð 3, þar voru hinsvegar aðrir þættir framleiddir sem þeir félagar ásamt Óttarri Proppé, Davíð Þór Jónssyni og Steini Ármanni Magnússyni voru í aðalhlutverkum.

Leave a Reply

Your email address will not be published.