Líf án mjólkur

Fyrsta skot:
Maður vaknar.
Hellir Cheeriosi í skál.
Gengur að vaskinum og fyllir skálina af vatni.
Fær sér skeið og grettir sig.

Cheerios með vatni. Oj. Viljum við það?
Cheerios með sódavatni. Oj. Viljum við það?

Næsta skot:
Grátandi barn.
Kona: “Æjæjæ! Varstu orðin þyrst, ástin mín?
Konan teygir sig í rauðleita gosflosku og hellir innihaldinu í pela.

Næsta skot:
Maður úr fyrsta skoti að bursta í sér tennurnar.
Hann opnar munninn.
Í ljós kemur ein stök framtönn sem hangir laust.
Maðurinn burstar hana varlega. Hún losnar.
Hann andvarpar og fleygir tönninni í ruslið.

Næsta skot:
Fjölskylduboð.
Eldri kona: “Jæja, vöfflurnar eru komnar!”
Ungur strákur: “En hvar er majónesið?”
Eldri kona: “Gleymi ég majónesinu!”
Fólk að raða sultu og majónesi oná vöfflur.

Texti: Gætir þú hugsað þér líf án mjólkur? Landssamtök kúabænda.

–ENDIR–

Hún er vel heppnuð og fyndin auglýsingin sem sýnir líf án lista, þar sem fólk labbar um í einsleitum svörtum fötum í íbúð með tómum veggjum, stendrm í kringum óskreytt jólatréð og reynir að gefa frá sér hljóð, en kann ekki að syngja. Já, mér finnst þetta fyndið og sniðugt.

Takmarkið er, væntanlega, að fá fólk til að setja meira fé í listir. En vandinn er að sá heimur sem auglýsingin sýnir er ekki heimur þar sem list er ekki styrkt. Þetta er heimur þar sem list er bönnuð. Til að fólk hætti að syngja er ekki nóg að hætta að niðurgreiða söng, það þyrfti að banna fólki að syngja.

Tökum öfgarnar: Hugsum okkur ríki þar sem engin list er niðurgreidd og ríki þar sem öll list er borguð af stjórnvöldum. Hvoru af þessum ríkjum heldur fólk að auglýsingin “Líf án lista” sé nær því að lýsa?

One thought on “Líf án mjólkur

  1. Ég held nú að pælingin hafi meira verið að sýna fram á að listir eru mikilvægar og ekki eigi að tala niður til þeirra eins og fólk á það til að gera. Þetta er ágætis innlegg í umræðu sem annars er gegnumsýrð af niðrandi og yfirlætisfullu kjaftæði um hvað listamenn séu miklar afætur og gildi lista felist eingöngu í markaðsvirði þeirra.

Leave a Reply

Your email address will not be published.