Evrópa er meira Benidorm en Brussel

CC-BY-SA 2.0 po.psi.que
CC-BY-SA 2.0 po.psi.que

Gunnari Braga er strítt fyrir að segja að Benidorm sé uppáhaldsstaðurinn hans í öllum heiminum. Gott hjá honum. Ekki féll hann sérstaklega í áliti hjá mér við þetta. Ég bjóst satt að hann myndi segja eitthvað eins og “Skagafjörðurinn er engum öðrum stöðum líkur”. Þannig að þetta er fyrir ofan væntingar. Og sýnir að Gunnar Bragi kann í það minnsta að meta kosti ESB-samstarfsins, þótt honum sé ef til vill ekki vel við Evrópusambandið sjálft.

Ég hef komið til Brussel og ég hef komið á sólarlandastaði í Evrópu. Hef til dæmis komið í þrígang til Kanaríeyja. Á margan hátt verð ég að segja að ég upplifi meiri Evrópu á Tenerife en í sjálfri Brussel. Höfuðstöðvar ESB í Brussel eru svolítið eins og stoðsvið í stóru fyrirtæki. Á stoðsviðinu sjá menn um ráðningarmál, búa til endurvinnsluáætlanir, greiða út laun, halda utan um hver fær hvaða lykil að hvaða hurð og skrifa fréttatilkynningar. Skipuleggja óvissuferðir og verða fyrir vonbrigðum ef starfsfólk annarra sviða mætir illa. En það eru samt ekki stoðsviðin í bönkum og gosverksmiðjum sem gera fyrirtækin að því sem þau eru. Ef maður ætlar að upplifa hvað fyrirtækið í raun gerir þá er langt samtal við mannauðsstjórann ekki endilega málið.

Það er eitt af því skemmtilegu við svona sólarlandastaði: hve alþjóðlegir þeir eru. Gestirnir koma alls staðar að. Þeir sem reka hótelin, veitingastaðina og búðirnar koma líka alls staðar að. Þeir sem búa á svona stöðum koma líka alls staðar að. Það er ógrynni af Þjóðverjum og Norður-Evrópubúum sem eiga íbúðir á Spáni. Og jafnvel þeir sem vinna á svona svona stöðum koma alls staðar að. Margir þeirra eru bara ungir evrópskir krakkar sem eru að sameina frí og vinnu.

Allt þetta er hægt út af Evrópusamstarfi: að fólk geti stofnað fyrirtæki þar sem það vill, búið þar sem það vill, keypt fasteign þar sem það vill, unnið þar sem það vill og millifært peninga, þaðan sem það vill og þangað sem það vill. Og hvergi sjást allir þessir kostir betur og skýrar en á stöðum eins og Benidorm. Þess vegna get ég skilið hvers vegna menn velja slíka staði sem uppáhaldsstaði sína í öllum heiminum. Og það er gott að menn geri það. Það þýðir væntanlega að þeir séu miklir Evrópusinnar í hjarta sér, en eigi kannski eftir að tengja punktana á blaðinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.