Suður-Afríka þarf pólitíska sundrung

CC-BY 2.0 www.sagoodnews.co.za
CC-BY 2.0 www.sagoodnews.co.za

Með Nelson Mandela fellur frá merkilegur leiðtogi. Merkilegastur er hann í raun fyrir þær sakir að hafa horfið úr embætti eftir fimm ára setu sem forseti Suður-Afríku, þótt hann hefði eflaust getað orðið forseti mun lengur. En þess í stað rétti hann keflið áfram og tryggði þannig að almennigleg reynsla kæmist á stjórnskipan landsins. Annars er hætta á að menn væru að búa hana til núna, að honum látnum. Það að hafa með friðsömum hætti komið ríki sínu úr því að vera rasískt einræðisríki og í það að vera órasískt lýðræðisríki, er stórmerkilegt. Samlíkingin við Gandhi væri ágætlega til fundinn, þótt hinum síðarnefnda hafi gefist minni tími til að njóta ávaxta baráttu sinnar.

Hinn S-Afríski flokkur ANC deilir meira að segja stærsta hluta nafns hins indverska kongressflokks INC. Og ýmislegt bendir til að hann ætli sér svipað hlutverk, það er að vera nánast alráður um stjórn lands síns næstu áratugina.

Þetta er óheppilegt. Til lengdar er ekki gott ef einn og sami flokkurinn fær 2/3 atkvæða í kosningum, áratug eftir áratug. Það er til merkis um að stjórnmálin snúist ekki um það sem þau eiga að snúast um, að sem flestu fólki líði sem best, heldur að mönnum hefur tekist að láta þau snúast um eitthvað annað. Í þessu tilfelli um spurninguna: “Við erum fólkið sem batt endi á aðskilnaðarstefnuna. Er það ekki ágætt hjá okkur?”

Það vörumerki sem Mandela bjó til með ANC, er mjög sterkt. Eiginlega allt of, allt of sterkt. Núverandi leiðtogi flokksins fór létt með að ná kjöri sem forseti þrátt fyrir að hafa ákærður um nauðgun, peningaþvætti og spillingu. Þetta er maður sem, að eigin sögn, “fór í sturtu” eftir að hafa sofið hjá HIV-smitaðri konu, og forðaðist þannig smit. Hvað næst?

Heppilegast væri, að ANC liðaðist í sundur með friðsömum hætti, ég myndi reyndar segja að það hafi verið misstök hjá Nelson Mandala að hafa ekki bara lagt flokkinn niður eftir kosningarnar 1994. Vonandi á sú ákvörðun, sem ég leyfi mér að kalla “mistök” ekki eftir að reynast afdrifarík. Það er eitt að merkjum um virkt lýðræði að stjórn tapi kosningum og stjórnarandstaða taki við, með friðsömum hætti. Það hefur ekki orðið raunin í Suður-Afríku síðustu 19 ár. Kannski að það gerist 2014, eða allavega 2019. Vonandi gerist það einhvern tímann. Einhvern tímann þegar stjórnmálamenn eins og Jacob Zuma geta ekki lengur látið eins og Nelson Mandela, blessuð sé minning hans, sé enn í framboði.

Leave a Reply

Your email address will not be published.