Leiðrétting

Í grein minni í Fréttablaðinu í dag, sem fjallaði um RÚV, hélt ég eftirfarandi fram um dagskrárgerð RÚV: „Hafa þeir [þættir RÚV] unnið til einhverra alþjóðlegra verðlauna? Nei, því miður.“

Ég játa fúslega að þetta var ekki rétt hjá mér. Hér eru nokkur dæmi sem ég hef fundið síðan og mér hefur verið bent á:

http://www.ruv.is/leiklist/tvo-utvarpsverk-tilnefnd-til-prix-europa
http://www.ruv.is/frett/opid-hus-faer-norraen-utvarpsleikhusverdlaun
http://www.press.is/index.php/felagidh/frettir/2793-enginn_titill11111111112222222222333333333344444446

Þá hefur mér verið bent á að Fóstbræður hafi upprunarlega verið framleiddir af Stöð 3 en ekki Stöð 2.

Nú mætti í sjálfu sér eyða restinni af þessari færslu til að klóra sig í prentafturendan og bösslast við að halda því fram að efni greinarinnar standi þrátt fyrir þessar staðreyndavillur. Það verður að vera annarra að dæma um það.

Hins vegar er það bara þannig að þegar maður birtir grein í blaði þá á maður að sjá til að þar sé rétt farið með sannleikann. Svo var ekki í þessu tilfelli og ég skal því glaður láta út úr mér einfaldasta orð íslenskrar tungu: Fyrirgefið, lesendur og allir aðrir sem í hlut eiga.

Já, og miðillinn þinn er að ljúga að þér

CC-BY-SA Some rights reserved by Pedro Fernandez Photo
CC-BY-SA: Pedro Fernandez Photo

Sumir Íslendingar trúa  að framliðið fólk sé til og trú því líka að til sé fólk sem kann að tala við það framliðna fólk. Má jafnvel segja að þetta sé hluti af einhverri menningu. Er það mitt eða annarra að „eyðileggja þessa litlu trú fólks“? Já, það er spurning.

Mörgum finnst sárt að missa einhvern sem þeim þykir vænt um. Þar af leiðandi verður til fólk sem nýtir sér þessi sárindi og þykist geta talað við þessa látnu ættingja. Það rukkar fyrir það pening.

Nú gæti  fjölmiðill gert þrennt:

  1. Spilað með, og búið til þætti um miðla, og hinn stórkostlega hæfileika þeirra til tala við framliðna. Birt reglulegar fréttir af afrekum þeirra.
  2. Látið vera að fjalla um þessi mál.
  3. Satt sannleikann um miðla.

Mér finnst kostur 3 bestur, kostur 1 siðlaus. Ég get svo sem skilið þá afstöðu að velja kost 2, segja ekkert. Kannski… ég hugsa þetta líka oftast: „Menn mega trúa einhverju bulli mín vegna ef það felur ekki í sér að neinu af því bulli er þröngvað upp á mig eða ég beinlínis neyddur til að spila með.“

En ef fjölmiðlarnir myndu fyllast af fréttum um það að sumu fólki finnst hinir framliðnu leiðinlegir við sig meðan aðrir mættu alltaf hinir hressustu á miðilsfundinn og ef fjölmiðlamenn væru farnir að búa til fréttir þar sem viðtöl væru tekin við framliðið fólk í gegnum miðla í því skyni að fá fólk til lýsa skoðun á dægurmálum eða fá lifandi fólk til  haga sér með einhverjum tilteknum hætti þá myndi ég alveg örugglega láta í mér heyra.

Líf án mjólkur

Fyrsta skot:
Maður vaknar.
Hellir Cheeriosi í skál.
Gengur að vaskinum og fyllir skálina af vatni.
Fær sér skeið og grettir sig.

Cheerios með vatni. Oj. Viljum við það?
Cheerios með sódavatni. Oj. Viljum við það?

Næsta skot:
Grátandi barn.
Kona: „Æjæjæ! Varstu orðin þyrst, ástin mín?
Konan teygir sig í rauðleita gosflosku og hellir innihaldinu í pela.

Næsta skot:
Maður úr fyrsta skoti að bursta í sér tennurnar.
Hann opnar munninn.
Í ljós kemur ein stök framtönn sem hangir laust.
Maðurinn burstar hana varlega. Hún losnar.
Hann andvarpar og fleygir tönninni í ruslið.

Næsta skot:
Fjölskylduboð.
Eldri kona: „Jæja, vöfflurnar eru komnar!“
Ungur strákur: „En hvar er majónesið?“
Eldri kona: „Gleymi ég majónesinu!“
Fólk að raða sultu og majónesi oná vöfflur.

Texti: Gætir þú hugsað þér líf án mjólkur? Landssamtök kúabænda.

–ENDIR–

Hún er vel heppnuð og fyndin auglýsingin sem sýnir líf án lista, þar sem fólk labbar um í einsleitum svörtum fötum í íbúð með tómum veggjum, stendrm í kringum óskreytt jólatréð og reynir að gefa frá sér hljóð, en kann ekki að syngja. Já, mér finnst þetta fyndið og sniðugt.

Takmarkið er, væntanlega, að fá fólk til að setja meira fé í listir. En vandinn er að sá heimur sem auglýsingin sýnir er ekki heimur þar sem list er ekki styrkt. Þetta er heimur þar sem list er bönnuð. Til að fólk hætti að syngja er ekki nóg að hætta að niðurgreiða söng, það þyrfti að banna fólki að syngja.

Tökum öfgarnar: Hugsum okkur ríki þar sem engin list er niðurgreidd og ríki þar sem öll list er borguð af stjórnvöldum. Hvoru af þessum ríkjum heldur fólk að auglýsingin „Líf án lista“ sé nær því að lýsa?

Evrópa er meira Benidorm en Brussel

CC-BY-SA 2.0 po.psi.que
CC-BY-SA 2.0 po.psi.que

Gunnari Braga er strítt fyrir að segja að Benidorm sé uppáhaldsstaðurinn hans í öllum heiminum. Gott hjá honum. Ekki féll hann sérstaklega í áliti hjá mér við þetta. Ég bjóst satt að hann myndi segja eitthvað eins og „Skagafjörðurinn er engum öðrum stöðum líkur“. Þannig að þetta er fyrir ofan væntingar. Og sýnir að Gunnar Bragi kann í það minnsta að meta kosti ESB-samstarfsins, þótt honum sé ef til vill ekki vel við Evrópusambandið sjálft.

Ég hef komið til Brussel og ég hef komið á sólarlandastaði í Evrópu. Hef til dæmis komið í þrígang til Kanaríeyja. Á margan hátt verð ég að segja að ég upplifi meiri Evrópu á Tenerife en í sjálfri Brussel. Höfuðstöðvar ESB í Brussel eru svolítið eins og stoðsvið í stóru fyrirtæki. Á stoðsviðinu sjá menn um ráðningarmál, búa til endurvinnsluáætlanir, greiða út laun, halda utan um hver fær hvaða lykil að hvaða hurð og skrifa fréttatilkynningar. Skipuleggja óvissuferðir og verða fyrir vonbrigðum ef starfsfólk annarra sviða mætir illa. En það eru samt ekki stoðsviðin í bönkum og gosverksmiðjum sem gera fyrirtækin að því sem þau eru. Ef maður ætlar að upplifa hvað fyrirtækið í raun gerir þá er langt samtal við mannauðsstjórann ekki endilega málið.

Það er eitt af því skemmtilegu við svona sólarlandastaði: hve alþjóðlegir þeir eru. Gestirnir koma alls staðar að. Þeir sem reka hótelin, veitingastaðina og búðirnar koma líka alls staðar að. Þeir sem búa á svona stöðum koma líka alls staðar að. Það er ógrynni af Þjóðverjum og Norður-Evrópubúum sem eiga íbúðir á Spáni. Og jafnvel þeir sem vinna á svona svona stöðum koma alls staðar að. Margir þeirra eru bara ungir evrópskir krakkar sem eru að sameina frí og vinnu.

Allt þetta er hægt út af Evrópusamstarfi: að fólk geti stofnað fyrirtæki þar sem það vill, búið þar sem það vill, keypt fasteign þar sem það vill, unnið þar sem það vill og millifært peninga, þaðan sem það vill og þangað sem það vill. Og hvergi sjást allir þessir kostir betur og skýrar en á stöðum eins og Benidorm. Þess vegna get ég skilið hvers vegna menn velja slíka staði sem uppáhaldsstaði sína í öllum heiminum. Og það er gott að menn geri það. Það þýðir væntanlega að þeir séu miklir Evrópusinnar í hjarta sér, en eigi kannski eftir að tengja punktana á blaðinu.

Suður-Afríka þarf pólitíska sundrung

CC-BY 2.0 www.sagoodnews.co.za
CC-BY 2.0 www.sagoodnews.co.za

Með Nelson Mandela fellur frá merkilegur leiðtogi. Merkilegastur er hann í raun fyrir þær sakir að hafa horfið úr embætti eftir fimm ára setu sem forseti Suður-Afríku, þótt hann hefði eflaust getað orðið forseti mun lengur. En þess í stað rétti hann keflið áfram og tryggði þannig að almennigleg reynsla kæmist á stjórnskipan landsins. Annars er hætta á að menn væru að búa hana til núna, að honum látnum. Það að hafa með friðsömum hætti komið ríki sínu úr því að vera rasískt einræðisríki og í það að vera órasískt lýðræðisríki, er stórmerkilegt. Samlíkingin við Gandhi væri ágætlega til fundinn, þótt hinum síðarnefnda hafi gefist minni tími til að njóta ávaxta baráttu sinnar.

Hinn S-Afríski flokkur ANC deilir meira að segja stærsta hluta nafns hins indverska kongressflokks INC. Og ýmislegt bendir til að hann ætli sér svipað hlutverk, það er að vera nánast alráður um stjórn lands síns næstu áratugina.

Þetta er óheppilegt. Til lengdar er ekki gott ef einn og sami flokkurinn fær 2/3 atkvæða í kosningum, áratug eftir áratug. Það er til merkis um að stjórnmálin snúist ekki um það sem þau eiga að snúast um, að sem flestu fólki líði sem best, heldur að mönnum hefur tekist að láta þau snúast um eitthvað annað. Í þessu tilfelli um spurninguna: „Við erum fólkið sem batt endi á aðskilnaðarstefnuna. Er það ekki ágætt hjá okkur?“

Það vörumerki sem Mandela bjó til með ANC, er mjög sterkt. Eiginlega allt of, allt of sterkt. Núverandi leiðtogi flokksins fór létt með að ná kjöri sem forseti þrátt fyrir að hafa ákærður um nauðgun, peningaþvætti og spillingu. Þetta er maður sem, að eigin sögn, „fór í sturtu“ eftir að hafa sofið hjá HIV-smitaðri konu, og forðaðist þannig smit. Hvað næst?

Heppilegast væri, að ANC liðaðist í sundur með friðsömum hætti, ég myndi reyndar segja að það hafi verið misstök hjá Nelson Mandala að hafa ekki bara lagt flokkinn niður eftir kosningarnar 1994. Vonandi á sú ákvörðun, sem ég leyfi mér að kalla „mistök“ ekki eftir að reynast afdrifarík. Það er eitt að merkjum um virkt lýðræði að stjórn tapi kosningum og stjórnarandstaða taki við, með friðsömum hætti. Það hefur ekki orðið raunin í Suður-Afríku síðustu 19 ár. Kannski að það gerist 2014, eða allavega 2019. Vonandi gerist það einhvern tímann. Einhvern tímann þegar stjórnmálamenn eins og Jacob Zuma geta ekki lengur látið eins og Nelson Mandela, blessuð sé minning hans, sé enn í framboði.

Verðskrá Strætó hækkar ekki – Takk fyrir þjónustuskerðinguna haustið 2014

Stjórn Strætó bs. ákvað nýverið að hætta við fargjaldahækkkanir sem taka áttu gildi 1. desember. Ástæðan er sögð vera að fjárlög gerðu ráð fyrir minni ríkisstuðningi til almenningssamgangna en gert var ráð fyrir. Í frétt mbl.is átti framlagið að vera 956 milljónir á ári en stendur nú í tæpum 823 milljónum.

Ég játa það raunar að ég veit ekki alveg hvaðan þessar tölur eru fengnar. Skv. fjárlagafrumvarpinu eiga greiðslurnar að lækka úr 996 í 914. Væntanlega er um að ræða greiðslur til verkefna annarra en þeirra sem tengjast Strætó bs…

En fyrst þessi breyting er út af einhverjum forsendubresti í fjárlagafrumvarpinu… hvernig má það vera á stjórn Strætó hafi samþykkt gjaldskrárhækkanirnar í lok október… mánuði eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram?

Og ef niðurskurðurinn stefnir í því að vera enn meiri en áætlað var… hvaða vitglóra er í því HÆTTA VIÐ hækkun? „Sorrý… það lítur út fyrir að olíuverðið muni hækka enn meira svo við hjá Icelanair höfum ákveðið að fresta verðhækkunum þangað til að olíuverðið ákveður sig.“ Nei, hvílík vitleysa. Auðvitað átti ekki að hætta við hækkunina. Bara hækka þá aftur eftir þrjá mánuði. Það er ekkert dýrt við það að hækka aftur. Það er hins vega „pólitískt dýrt“.

Einmitt. Þá komum við að vandamálinu. Kosningar nálgast. Það er óvinsælt að hækka verð í strætó því þeir sem eru í stjórn í hverju sveitarfélagi óttast að þeir sem eru í stjórnarandstöðu geri sér mat úr hækkununum. Menn eru hræddir við að einhverjir hópar sem taka ekki strætó mótmæli hástöfum því að verðið í hann hækki.

Niðurstaðan verður því: engar verðhækkun fram yfir sumarið… gríðarlegt gat í rekstrarreikningi strætó næsta haust sem mæta þarf með gríðarlegri þjónustuskerðingu í næstu vetraráætlun. Svipað gerist í kringum hverjar kosningar.

Og allt út af stjórnmálamönnum sem vilja ekki hækka verð í strætó, en eiga samt ekki pening til að niðurgreiða hann.