Fangelsi eru ekki slæm út af matnum og lyktinni

Aðstæður jafnvel þeirra ríkustu fyrir 200 árum þættu okkur ógeðslegar í dag. Ég meina oj, enginn klósettpappír og allt það.

Auðvitað fannst það engum ógeðslegt þá. Menn gátu eflaust verið bara frekar hamingjusamir, og ef þeir voru ekki hamingjusamir þá var það mun frekar út af því hvernig komið var fram við þá heldur út af líkamlegum aðstæðum, lyktinni, matnum eða því að þeim var stundum kalt.

Ég sá einhvern tímann viðtal við breska konu sem hafði verið dæmd í mjög langt fangelsi í austurlöndum fyrir fíkniefnainnflutning (afsakið að ég hafi nafn hennar eða land ekki á hreinu, þetta er eftir minni). Hún var dæmd til dauða síðan náðuð í frekar langt fangelsi, sat af sér þónokkur ár ytra uns hún var flutt til Bretlands og þurfti að klára dóminn þar.

Hún lýsti aðstæðum í kvennafangelsinu í Asíu þar sem konurnar sátu tugum saman í klefa og sváfu á steingólfi. Og síðan reyndi hún, að koma því að, greinilega í 100. skipti, að í raun hefði ekki “allt orðið miklu betra við flutninginn”. Eiginlega bara ekki. Fangelsi var áfram fangelsi.

Ég hef horft á þónokkra þætti frá bandarískum fangelsum þar sem talað er við sextuga-sjötuguga menn sem sitja inni ævilangt fyrir einhvern viðbjóð. Margir hafa setið inni svo áratugum skiptir. Og svo mætir einhver þáttastjórnandi og spyr hvort rúmin séu ekki hörð, maturinn einhæfur og svo framvegis. Einn af þessum eldri mönnum sagði: “Ekki spyrja okkur um líkamlegar aðstæður. Þeim getum við aðlagað okkur.”

Við höfum byggt jörðina næstum því pólanna á milli. Búum í frosti, kulda, eyðimörk, stanslausum hita, óbærilegum raka, í frumskógum, á sléttum, túndrum, í sífrera, undir pálmatrjám og í fimm þúsund metra hæð. Sum okkar borða bara grænmeti, önnur nánast ekkert grænmeti, sum búa í blokkum og einbýlishúsum, önnur í strákofum eða leirhúsum.

En þrátt fyrir þessa ótrúlega aðlögunarhæfni gerum við okkur ekki grein fyrir hve ótrúlega aðlögunarhæf við erum. Og um leið er eins og við missum sjónar af því að okkur er til dæmis ætlað að vera félagsverur, okkur er ekki ætlað að vera læst inni og það hefur ekkert með aðbúnað inni að gera. Nei, spurningin er t.d. alltaf: “Þurfa konurnar að bera vatn á hausnum.” En ekki: “Líta karlmenn á þær sem jafningja?”

Ég hef  heyrt að fangelsi á Íslandi hljóti að vera eins og hótel fyrir sum þessara erlendu manna sem hér fremja glæpi. Enginn refsing að lenda á Litla-Hrauni. Frábær umræða. Endar örugglega með að menn taki réttar og mannúðlegar ákvarðanir. Og vel að merkja. Ég held að það sé mjög æskilegt að menn afpláni í heimalandi sínu. Ef einhver Íslendingur flytur dóp til Mið-Evrópu þá er miklu betra að hann afpláni á Íslandi. Fyrst og fremst út af möguleika á menntun, nálægð við ættingja og allt annað sem getur gert bataleið fólks auðveldari. En það hefur mun minna með aðbúnað að gera. Fólk getur vanist ýmsu, líkamlega séð. En fangelsi verður samt alltaf bara fangelsi. Þó að rúmin séu mjúk.

One thought on “Fangelsi eru ekki slæm út af matnum og lyktinni

  1. Mjóg góður pistill. Umræðan um fangelsismál hérna eru algerlega á villigötum, enda er eins og þú bendir réttilega á versta refsingin fólgin í þeirri staðreynd að dyrnar séu læstar, allavega stundum og þeirri niðurlægingu sem það fylgir að ráða ekki eigin ferðum.. Frelsissviptingin er hin eiginlega refsing, ekki aðstæðurnar.

    Konan sem þú ert að vitna til er bresk og var dæmd til dauða í Thailandi fyrir fíkniefnainnflutning, Dómurinn var styttur verulega vegna ungs aldurs hennar og baráttu yfirvalda í Bretlandi. Hún fékk að lokum að fara þangað og ljúka afplánuninni en sagði síðar að það hafi í raun verið miklu verra að vera í fangelsi í Bretlandi. Þessi kona sem ég man reyndar ekki nafnið á kom til Íslands fyrir nokkrum árum og hélt hér fyrirlestur. Þessari sögu voru gerð frekar slök skil í kvikmyndinni Brokedown Palace. Þar var flestu snúið á hvolf og stúlkurnar tvær gerðar Bandarískar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.