Nýsköpun = mikil áhætta

CC-BY-SA Sean MacEntee
CC-BY-SA Sean MacEntee

Það má líta svo á að “nýsköpun” sé í raun fancy orð yfir “mjög áhættusaman rekstur”. Þegar stjórnmálamaður hvetur til aukinna opinberra útgjalda til nýsköpunar er hann í raun að hvetja til þess að meira fé sé sett í mjög áhættusaman rekstur. Ráðgjafi sem hvetur fólk til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum er í raun að hvetja það til að setja pening sinn í mjög áhættusaman rekstur. Þegar Vinnumálastofnum niðurgreiðir laun fólks í “nýsköpun” er hún í raun að niðurgreiða mjög áhættusaman rekstur.  Og svo framvegis.

Það er vissulega til fólk sem fjárfestir í nýsköpun, þ.e. fólk fjárfestir í mjög áhættusömum rekstri. Það fólk skoðar kannski nokkur hundruð fyrirtæki, fjárfestir í handfylli þeirra og ef eitt nær að vera stórt, og skila hagnaði þá græðir fjárfestirinn á  öllu saman. En ætla sér að fjárfesta í einni sniðugri hugmynd sem maður heyrir um í sjónvarpinu… þá er alveg eins hægt að spila í Lottóinu.

Það þarf að mjög margt að gerast til nýsköpunarfyrirtæki gangi upp. Menn þurfa að fá hugmynd og framkvæma hana vel, það vel að einhver nenni á endanum að borga fyrir að nota vöruna. Þetta með hugmyndina (og frumleika hennar) skiptir líklega minna máli en fólk heldur. Ef við lítum á tvö íslensk fyrirtæki sem hafa þótt vera að standa sig, Meniga og Plain Vanilla, þá eru “hugmyndirnar” annars vegar bókhaldskerfi og hins spurningaleikur.  Hvorugt er satt að segja neitt hugarþeytandi frumlegt, en útfærslan er í báðum tilfellum með ágætum. En það sem stendur eftir er auðvitað, í báðum tilfellum, spurningin hvort útfærslan sé það góð að nógu margir muni á endanum borga fyrir vöruna.

Langflest fyrirtæki fara á hausinn. Það þarf ekki einu sinni að vera að þeir sem þau reki geri eitthvað rangt, þannig séð. Stundum getur þetta bara einfaldlega verið heppni. Það til dæmis að ætla sér að græða á appi er mjög erfitt. Nýlega voru mátti til dæmis lesa frétt um það að “Íslendingar hafi ekki viljað fjárfesta í Plain Vanilla”, sögð með hálfgerðum hneykslunartón. En munið: “Nýsköpun = Mjög áhættusamur rekstur.” Það er ekki endilega auðséð að lífeyrissjóðir eigi að fjárfesta meira í mjög áhættusömum rekstri, sérstaklega ef þeir til dæmis telja sig ekki þekkja þann markað sem fjárfesta á í.

En stundum finnst mér eins og fréttaflutningurinn sé svona: “Ari og Bjarni fóru í spilavíti. Ari veðjaði á rautt, Bjarni á svart. Upp kom rautt. Niðurstaða álitsgjafa: Ari er mjög klár. Bjarni er mjög heimskur.”

Hér á landi þarf allt að vera annaðhvort glatað eða frábært. Einu sinni þótti Decode frábært. Fólk keypti hlutabréf í Decode. Fólk tapaði peningum á því og Decode þótti glatað. Nú hefur Decode verið selt sem er frábært, en fullt af fólki finnst það glatað. Andinn er einhvern veginn þannig að “fólk hafi trúað Kára Stefánssyni fyrir sparifé sínu” sem er auðvitað dálítið furðuleg leið að horfa á þetta. Decode er ekki banki heldur rannsóknar- og tækniþróunafyrirtæki. Ef menn mega ekki við því að sjá á eftir peningunum sínum þá eiga þeir ekki að fjárfesta þeim. Hvað þá að fjárfesta þeim í mjög áhættusömum rekstri.

Orðið “nýsköpun” er mjög jákvætt. Sögur af þeim örfáum nýsköpunarfyrirtækjum sem meika það fara hærra en sögur af þeim sem fara á hausinn. Allt þetta gerir það að verkum að menn fara að halda að fjárfestingar í nýsköpun séu nánast örugg leið til að meika monný. En það er auðvitað fjarri því að vera satt.

Leave a Reply

Your email address will not be published.