Kosningar snúast um bögg

Kosningabarátta mín til stjórnlagaþings gekk að stærstum hluta út á það að hafa samband við fólk persónulega og biðja það um að kjósa mig. Samtals fengust um 500 manns til að lofa að kjósa þennan Pawel í fyrsta sæti. Ég endaði á að fá 584 atkvæði í það sæti.

Ég segi þetta bara svo fólk átti sig á því hvað kosningar snúast um. Það er nefnilega uppi smá misskilningur hvað þetta varðar.

A. Það sem fólk heldur að kosningabarátta snúist um

voting - Frame 4

  1. Frambjóðendur kynna sig og stefnumál sín.
  2. Kjósendur kynna sér stefnumál frambjóðenda.
  3. Kjósendur mæta á kjörstað og velja þá frambjóðendur sem þeim líst best á.

B. Það sem kosningabarátta snýst raunverulega um

voting - Frame 2

  1. Frambjóðandi böggar fólk persónulega og lætur það lofa sér að kjósa sig.
  2. Frambjóðandi fer heim til fólks á kjördag og dregur það nauðugt á kjörstað.

Kannski þegar þetta kemst á hreint getum við farið að ræða ástæður þess að hinum og þessum gengur ekki betur í prófkjörum og kosningum. Jafnvél ég hélt, satt að segja, að einhver alvöruhópur myndi kjósa mig ótilneyddur, ég meina, ég var búinn í skrifa í blöðin í mörg ár. En ég fékk á endanum afar fá atkvæði í fyrsta sæti frá fólki sem ég hafði ekki tuðað í.

Ég tek reyndar fram að vissulega er til fólk sem mætir ótilneytt á kjörstað. Aðallega fólk sem hefur kosið oft áður.  Í tilfelli prófkjara Sjálfstæðisflokksins eru er þessi hópur aðallega eldra fólk, aðallega karlmenn. Það þýðir að þeir njóta trausts hjá gömlum körlum fá ákveðið forskot. Og ég held að konum og ungu fólki fer ekki að ganga betur fyr fr en fleiri konur kjósa og fleira ungt fólk kýs.

Ég ætla því að gerast það grófur að halda því fram að þegar konum og ungu fólki gengur ekki nógu vel þá sé það kannski bara þeim konum og því unga fólki að kenna. Ha, Pawel? How dare you? Já, það sem ég að við að þegar kjörsókn er komin niður í 5000 þá gætu þessi 2000 sem stundum kjósa í Heimdallarkosningum auðveldlega raðað upp listanum eins og þeim sýnist. Þannig að sóknarfærin eru til staðar og það er líklega minna þunglyndislegt plan að líta til hinna augljósu möguleika fremur en að svekkja sig á því að gamlir karlar kjósi frekar karla en konur.

Vil samt koma einu á hreint. Ég veit ekki til að neinum þyki það virkilega skemmtilegt að bögga vini sína, kunningja og vinnufélaga með því biðja þá um að kjósa einhvern annan vin sinn. En ef ungu fólki, eða konum, á að ganga eitthvað í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins þá verður að bögga fólk, og ef eitthvað er að marka niðurstöður prófkjörsins þá verður að bögga fólkið harðar og ágengar.

Kjörsóknin var svo lág!

Umræðan um kjörsókn í kosningum bendir aftur til að menn haldi að kosningabaráttur snúist um A en ekki B hér að ofan. Dæmi um þetta er að menn gefa gjarnan skítaskýringar á borð við  “litla umfjöllum fjölmiðla” eða “áhugaleysi almennings” þegar kjörsókn er dræm. Þetta er einfalt. Fólk kýs ekki því það er ekki böggað nóg.

Til dæmis kjörsókn í Stjórnlagaþingskosningum var ekki lág út af því að “fjölmiðlar stóðu sig svo illa”. Kjörsóknin var lág því frambjóðendur stóðu sig illa. Margir höfðu ekki bakgrunn í pólitík og höfðu einhverjar háleitar hugmyndir um að þeir ætluðu alls ekki reka kosningabaráttu.  Mig minnir að fjórir frambjóðendur hafi eytt einhverjum peningum að ráði í kosningabaráttu sína, þeir náðu allir kjöri.

Ég man að kvöldið fyrir kjördag, meðan ég hringdi seinustu símtölin á kosningaskrifstofunni, fóru margir aðrir frambjóðendur í kyndlagöngu frambjóðenda. Á meðan þeir voru þar voru þeir ekki að hringja í fólk og biðja fólk um að kjósa sig. Ætli þessi kyndaganga hafi ekki komið mér þarna í topp 25. Því ég gat nýtt tímann til að bögga kjósendur meðan aðrir sóuðu sínum tíma í að hitta aðra frambjóðendur.

Virðing á tíma frambjóðenda

Tíma frambjóðenda í fámennum kosningum, eins og flestar hér a landi eru, er  nánast alltaf best varið í það að bögga fólk persónulega. Á þessu er stundum lítill skilningur. Tökum sem dæmi nýliðið prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Á mánudegi er haldinn leiðtogafundur, þar sem þau fjögur sem sem sækjast um efsta sæti fá að mæta og halda ræður fyrir gallharða stuðningsmenn hvert annars. Hljómar skemmtilega en þetta er samt fundur á besta símatíma. Frambjóðandinn hringir ekki á meðan hann lætur stuðningsmenn mótframbjóðenda grilla sig með spurningum um flugvöllinn.

En leiðtogaefnin voru samt heppin samanborið við frambjóðendur til sæta 2-6 sem fengu annan fund, á þriðjudegi þar sem fleiri frambjóðendur, töluðu fyrir færri kjósendur, færri dögum fyrir kjördag. Og gátu því ekki böggað kjósendur á meðan. Og svo var haldinn sérstakur fundur bara með kvenkynsframbjóðendum á fimmtudeginum, aftur án efa af góðum hug, en kvenframbjóðandinn hringir ekki og böggar ekki fólk á meðan hún er á fundi að tala við konur sem ætla hvort eð er að kjósa konur og aðrar konur sem eru í framboði. Bara hugmynd, kannski ætti að halda svona fundi ögn fyrr í kosningabaráttunni.

Predikað yfir kórnum

Ég hef farið í gegnum eina kosningabaráttu til borgarstjórnar, það var fyrir þremur og hálfu ári. Ég hringdi örugglega í nokkur hundruð Reykvíkinga, aðallega ungt fólk. Ég hélt ég myndi hata það en mér fannst það bara fínt. Og ef ég ætti að gefa einhverja skýringu á því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hafi á endanum fengið 660 atkvæðum minna en Besti flokkurinn þá myndi ég segja að sjálfstæðismenn hafi ekki byrjað að hringja nógu snemma, ekki hringt í nógu mikið, ekki hringt í nógu marga  og ekki nógu oft. Sem sagt ekki böggað fólk nóg.

Á sama tíma kom það mér á óvart hve mikill tími frambjóðenda fór í að hitta gallharða sjálfstæðismenn, þiggja kaffi á hinum fjölmörgu kosningaskrifstofum flokksins, tala á fundum sem Sjálfstæðisfélög héldu og svo framvegis. Og þetta var allt í gangi vikuna fyrir kosningar. Og ef maður mætti ekki í á einhverja hverfisopnun þá var haldið utan um það og maður látinn vita að eftir þessu hefði verið tekið. Mjög hvetjandi allt saman.

Auðvitað er mikilvægt að “sinna grasrótinni” og allt það en á lokaspretti kosningabaráttu þá er bara ekki tími fyrir alls konar  dútl. Það þarf bara hringja í fólk. Bögga fólk sem veit ekki að það eru að koma kosningar, trúið mér, það er alltaf nóg af því fólki. Bögga fólk, sem langaði ekki einu sinni að kjósa. Bögga fólk sem vill ekki kjósa nema það sé böggað. Bögga fólk sem vill finna að einhverjum finnst skipta máli að það sitji ekki heima heldur mæti á þennan kjörstað. Og stundum gefst af of lítill tími til þess út af alls konar rugli. Rugli í fólki sem skilur ekki að kosningabaráttur snúast fyrst og fremst um það að bögga fólk.

5 thoughts on “Kosningar snúast um bögg

  1. Ákaflega góður pistill. En, þótt Pawel “böggi” mig, þá kýs ég seint Sjálfsstæðisflokkinn. En, það er mikilvægt og gott að skyni bornir menn eins og Pawel tjái sig sem mest. Það er engum óhollt að lesa það sem hann ritar, þótt maður sé reyndar ekki alltaf sammála.

  2. Ekki böggaði Pawel mig – nema með skrifum sínum en þarna gafst mér loks tækifæri til að kjósa aðila sem mér hugnaðist -þótt hann væri í allt öðru kjördæmi !!

  3. Vandamálið með stjórnlagaþingskosningarnar var það að nánast (líklegast) hver einasti kjósandi þekkti persónulega einhvern frambjóðandanna. Og þar sem bara fyrsta atkvæðið taldi (í alvörunni þegar svo margir frambjóðendur eru, fyrir utan eitthvað brot frá Þorvaldi Gylfasyni) og ef við gefum okkur að þú hafir hringt í alla þá sem þú þekktir, þá skildir þú ekki eftir mjög stórt þýði til þess að kjósa þig í fyrsta sæti. Ég þekkti t.d. persónulega tvo nokkuð vel, og setti þig svo í 3. sætið fyrir einmitt, skrifin. Ekki kom það þér að neinu gagni.

    En ég styrkti þig 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published.