Blótað í hita leiksins

Þegar ég var barn mættust Pólland og Ísland stundum í handbolta. Ég kveið þeim viðureignum eins og  andskotanum. Þarna var einhver atburður sem ég gat engin áhrif á haft. En það mundi einhver bögga mig út af honum.

Ég vonaðist alltaf eftir hægum en öruggum 5 marka sigri Íslands. Ef sigurinn væri meiri myndi einhver núa mér öllu um nasir. Nananana! Ef sigurinn var tæpur voru taugarnar hátt uppi og böggið eftir því. Því tæpari sem leikurinn var jukustu líkurnar á því að lýsandinn myndi kenna dómara eða fantaskap andstæðingsins um einhver óheilindi. Og það smitaðist út í skólastofuna. Talandi nú ekki um ef Ísland myndi tapa, þá var það alltaf öllum í heiminum að kenna.

Nú er ég ekki bitur maður og mun ekki skrifa langar bækur um þessa reynslu mína. En þó langar mig að biðja fólk um að beina taugaspennunni í rétta átt. Og hafa eitt í huga:  Þegar menn segja “Helvítis <þjóðerni>” í hita leiksins og segjast auðvitað vera grínast þá er ekki víst að allir aðrir, þar á meðal tíu ára krakkar sem eru með Króötum í bekk, viti að þeir séu að grínast.

Leave a Reply

Your email address will not be published.