Norðurlandaráð er vissulega enn þá til

Píratar lögðu nýlega fram tillögu um sameiginlegan norrænan markað með afþreyingu.  Það er krúttleg hugmynd en gagnslítil.

logo

Norðurlandaráð náði ýmsu í gegn á seinustu öld. Og Norðurlandaráð er vissulega enn þá til. En það er auðvitað ekki að fara gera einhverjar fleiri gloríur í bráð eða bæta við sig verkefnum. Þrjú hinna norrænu ríkja eru með í Evrópusambandinu. Það takmarkar möguleika þeirra á því að búa til nýja sameiginlega markaði norður og suður.

Vel að merkja: Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að koma á fót sameiginlegum evrópskum  markaði með stafrænt efni (sjá: http://ec.europa.eu/digital-agenda/en/our-goals/pillar-i-digital-single-market). Og er þá líklegt að að Danir, Svíar og Finnar muni ganga úr því verkefni, jafnvel segja sig úr ESB, til að taka þátt í að skapa 20 sinnum minni markað með Íslendingum og Norðmönnum? Auðvitað er það ekki líklegt.

Við gætum hins vegar reynt að fá að vera með í evrópska markaðnum. Verandi í EES og allt.

Það að búa til svona markað kallar á ýmislegt. Menn þurfa til dæmis að koma á sameiginlegum leyfum fyrir allt markaðssvæðið og síðan þarf að finna einhverjar leiðir til að skattar of höfundarréttargjöld skili sér á réttan stað. Sumt af þessu mun taka sinn tíma, eins og alltaf þegar reynt er að bræða saman lagakerfi þrjátíu ríkja. En einhvern veginn þykir mér líklegt að þetta verði að veruleika, því Evrópusambandið hættir ekki ótilneytt við það sem það tekur sér fyrir hendur. Sérstaklega ekki ef það tengist hinum sameiginlega markaði með einhverju móti.

Það er gott að einhver á þingi sé að spá í aðgengi Íslendinga að afþreyingu og að einhver á þingi átti sig á því að smæð íslensks markaðar sé vandamál. En ef ég mætti ráðleggja vinum mínum, Pírötum, þá myndi ég mæla með að þau leggðu fram tillögu sem ekki aðeins gripi athygli fjölmiðla í hálfan dag heldur gæti náð fram að ganga og gerði þannig gagn. Sú tillaga gæti litið svona út:

Alþingi ályktar að tryggja skuli þátttöku Íslendinga í sameiginlegum evrópskum markaði með stafrænt afþreyingarefni.

Leave a Reply

Your email address will not be published.