Katrín sammála Vigdísi

Vigdís Haukdsóttir kom með þá hugmynd um að refsa þyrfti fólki sem kæmi ekki heim til  Íslands eftir nám. Hugmynd Vigdísar þótti mörgum heimskuleg en hún á sér greinilega fjölmarga stuðningsmenn líka, þótt þeir stuðningsmenn vilji pakka henni öðruvísi inn.

Katrín Jakobsdóttir og fleiri hafa sagt að þeir sem komi heim ættu frekar að fá afslátt á námslánum eða skattafslátt. Sú hugmynd þykir ekki jafn-ómanneskjuleg og vond og enginn er enn búinn að segja að hún standist ekki EES samninginn.

Samt er þetta bara sama hugmyndin (að þeir sem verði eftir í útlöndum borgi meira en þeir sem komi heim) nema að spilað er inn á einfalda sálfræði. Afsláttarsálfræðina:

Afsláttur hljómar vel, álag hljómar illa.
Afsláttur hljómar vel, álag hljómar illa.

Á sinn kaldhæðnislega hátt er hugmynd Vigdísar eiginlega skárri en hugmynd Katrínar. Því allir sjá að hún er jafnvond og hún hljómar. En hugmyndir þeirra sem vilja gefa fólki “afslátt” fyrir að koma heim hljóma mun skárri en þær eru.

Í raun snýst þetta um þetta: Viljum við gefa fólki fjárhagslega hvata til að koma heim til sín að námi loknu? “Já,” segja sumir. En ég held persónulega að heimurinn yrði ekki betri ef allir hefðu þetta svona. Ef færri útlendingar ynnu Hjá Decode, í Háskóla Íslands og HR og ef færri Íslendingar ynnu í erlendum háskólum.

Ég held að við eigum að frekar keppa við að fá hæft fólk til Íslands, en þá alla, allt hæft fólk, ekki bara Íslendinga, og besta leiðin til þess er að bæta hér almenn lífsskilyrði og kaupmátt. Álögur á fólk sem finnur sér draumastarfið í útlöndum, sama hvernig þær álögur eru matreiddar, það er ekki rétta leiðin.

3 thoughts on “Katrín sammála Vigdísi

  1. Þetta heitir nú hundalógikk á góðri íslensku! Í Noregi er það ástand að fáir menntamenn vilja setjast að og starfa í Finnmörk. Því hafa stjórnvöld þar í landi boðið þeim menntamönnum vilja starfa í Finnmörk 10% niðurgreiðslu á höfuðstól námslána á ári. Á 10 árum geta menn því afskrifað námslán sín. Er hér verið að refsa öllum námsmönnum sem ekki vilja setjast að í Finnmörk??

  2. Kristján

    Hvaðan kemur niðurgreiðslan? Ætli námsmenn sem setjast að annarstaðar þurfi að borga bæði námslán með vöxtum og almennan skatt?

    Mér er ekki illa við hugmyndina um að gera vel við menntamenn. Enda er ég slíkur sjálfur. En þetta er einfaldlega spurning um hversu ríkið á að niðurgreiða menntun útflytjenda.

  3. Maður þarf ekki að vera langskólagenginn til að gera sér grein fyrir því að umbun og refsing eru tveir gjörólíkir hlutir. Umbun býr til hvata meðan refsing skapar ótta. Það er því í besta falli hæpið að leggja þessar tvær tillögur að jöfnu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.