Þú móðgaðir hrunið mitt

Ákveðinn hluti Íslendinga hefur gert búsáhaldabyltinguna og hrun bankakerfisins að slíkri rótfestu í sinni pólitísku heimsmynd að minnstu tilraunir til að gagnrýna, eða jafnvel bara gantast, með þessi hugtök kalla fram sorg og reiði.

Ýji maður að því að búsáhaldabyltingin hafi verið skipulögð, nefni maður hana í sömu setningu og orðið “ofbeldi” og gagnrýni maður það til dæmis að einhver hafi reist styttu 20 metrum frá inngangi þinghússins til að minnast þessarar “lýðræðisveislu” þá er sá hinn sami gríðarlega ósanngjarn, og eiginlega ónærgætinn líka.

Höf: OddurBen CC-BY-SA 3.0
Höf: OddurBen CC-BY-SA 3.0

Þegar kveikt var í jólatrénu á Austurvelli þá var það ógeðsleg og sorgleg stund. Líka þegar kveikt var í bekkjum. Líka þegar rúður í þinghúsinu voru brotnar. Líka þegar reynt var að brjótast inn á lögreglustöð. Ég þekki fólk sem var að vinna í þinghúsinu á þessum tíma. Allir geta ímyndað sér hvernig því leið að fara í vinnuna.  Mér finnst það hvort þessir atburðir hafi falið í sér beitingu ofbeldis (alla vega að einhverju leyti) ekki einu sinni vera athyglisverð spurning. Öllu forvitnilegri spurning er hvort beiting ofbeldis af þessu tagi sé réttlætanleg í pólitískum tilgangi og hvort skilyrðin hafi verið uppfyllt þarna.

***

Nýlega var myndband látið ganga um vefinn þar sem fyrsti þáttur Gísla Marteins “Sunnudagsmorgunn” var klipptur saman til að láta líta út eins og þetta hafi verið hin harðasta frjálshyggju-íhaldsmessa. Meðal annars var hluti opnunarorða þáttastjórnandans, þegar hann minnist á hið “svokallaða hrun”, klipptur þannig að orðin “hið svokallaða hrun” voru spiluð nokkrum sinnum til að skapa þá stemningu að þáttarstjórnandinn hafi staglast á þessu hugtaki endalaust.

(Það er raunar að einhverju leyti gegn betri vitund að ég kýs að verja Gísla og þáttinn hans, verandi vinur hans og pólitískur samherji. Það gerir þáttarstjórnanda ekki endilega gott að menn skiptist í þessar fyrirsjáanlegu pólitísku fylkingar þegar kemur að því meta hæfi hans í dagskrárgerð, en jæja).

Fyrir utan hvað þetta er pirrandi myndvinnsla þá er hún ósanngjörn. Klippa má nánast hvað sem er með svona aðferðum. Til dæmis: allir þrír gestir Gísla í kaffispjallinu lýstu yfir ánægju með störf Jóns Gnarrs. Þær þrjár yfirlýsingar hefði mátt klippa saman með hríðskotahraða, spila tvisvar og setja svo mynd af Jóni Gnarr með “Simply the Best” undir til að skapa þá tilfinngu að Sunnudagsmorgun væri áróðursþáttur fyrir Besta flokkinn / Bjarta framtíð.

En aftur að “hinu svokallaða hruni”. Vitanlega mátti flestum vera ljóst að þáttarstjórnandinn hafi, með glotti sínu, loftgæsalöppum og sérstöku tónfalli gefið mjög augljóslega til kynna að hann væri að grínast. Og þáttarstjórnandinn hefur þar að auki ítrekað það síðar meir. En þá virðast margir, sem nú þurftu að réttlæta sína óréttlátu reiði, hafa tekið þá línu að það væri einhvern veginn “rangt að gera grín að hruninu.” Það er nú magnað, ætli við fáum þá ekki lagagreinar um “hrunlast”? Eða kannski verður það að móðga tilfinningar fólks sem tók þátt í mótmælunum 2008-9 flokkað sem “hatursræða”?

Því einhvern veginn tókst mönnum að komast að þeirri niðurstöðu að einn og sami þátturinn hafi bæði verið glataður, því hann var allt of léttur og ógagnrýninn, og um leið glataður því hann gagnrýndi eitthvað sem þeim fannst. Af þessum tveimur gagnrýnisröddum get ég frekar tekið undir þá fyrri. Mér finnst “við ætlum að hafa þetta létt og skemmtilegt” ekki endilega besta uppleggið að sjónvarpsþætti.

Þetta er reyndar þekkt meinloka, að halda að fólk hati pólitík en elski “léttu nóturnar”. Ég er stundum í útvarpi og þegar búið er að tala um niðurskurð til spítala segir einhver þáttarstjórnandi stundum: “Jæja, tölum nú um eitthvað skemmtilegt, hvað finnst ykkur fallegasta íslenska orðið vera?” En reyndar er það svo að mér finnst mjög skemmtilegt að tala um pólík, en um flest sem er “skemmtilegt” finnst mér frekar leiðinlegt að tala.

Ég held reyndar að sumt fólk sem vælir út af fjölmiðlaumfjöllun verði að slá sjálft sig utanundir. Því sömu menn og konur sem kvarta undan gagnrýnisleysi fjölmiðlanna virðast svo, ef eitthvað er að marka það sem þau pósta á fésinu, helst vilja horfa á viðtöl þar sem fólk sem þau eru í einu og öllu sammála fær að tala án nokkurs aðhalds frá blaðamanninum. Segja svo hluti eins og “Ólafur góður!” eða “af hverju leyfði Helgi honum ekki að tala heldur var alltaf að ráðast á hann?”

***

Nú má auðvitað finna eitthvað að því menn detti úr pólitík í sjónvarp einn, tveir og bingó. Hitt er þó annað mál að það er þó allavega vitað hvað viðkomandi stendur fyrir. Menn geta sett hans/hennar yfirlýsingar í gegnum einhverja síu og athugað hvort einhver viðmælendaskekkja sé til staðar (þótt líka verði að hafa í huga að gestir og viðmælendur tala fyrir sínum skoðunum og vera þeirra í þáttum er ekki til marks um að þáttarstjórnandanum líka viðhorf þeirra). En það fullt af öðru efni sem rúllar um opinbera miðla undir merkjum hlutleysis og hreinnar fagmennsku þótt það sjónarhorn sem þar birtist er í engu minna pólitískt, og oft miklu meira.

Ég get til dæmis nefnt ansi marga Spegilsþætti á RÚV í þessu samhengi. Til dæmis einn þátt í seinustu viku þar sem fullyrðingin “Lýðræði er að víkja fyrir auðræði” var látinn hljóma eins og staðreynd á borð við þá að það hafi hægst á möndulsnúningi jarðar. Já, og inn á milli þess spiluðu menn klippur með næstofmetnasta lagi Pink Floyd, “Money”. Ég hafði svo sem alveg gaman að þessari umfjöllun, þessari ítarlegu lýsingu á lífsviðhorfum Occupy hreyfingarinnar, klæddri í fréttaskýringarbúning. Og þótt að ég hafi af því áhyggjur að aðrir hlusti ekki alltaf á Spegilinn með sama gagnrýna hugarfari og ég, þá efast ég um að ég myndi bjóða fram krafta mína í stjórn RÚV í því skyni að koma þeim ágæti þætti frá.

Því ég hef ekki endilega þá kröfu á ríkisfjölmiðil að þar starfi einungis fólk sem ég er sammála, og að það fólk tali einungis við fólk sem ég er sammála. Og að enginn á öldum ljósvakans hæðist nokkurn tímann að neinu sem mér þykir skipta máli.

19 thoughts on “Þú móðgaðir hrunið mitt

    1. Það er auðvitað spurning, ef einhver myndi brjóta rúður og hurðir í þínu húsi myndirðu líta á það sem ofbeldi?

  1. Tek undir flest sem þú segir ekki síst um Spegilinn. Einstaka sinnum er tekið á málum þar af einhverju viti en annars er þátturinn hvínandi málpípa vinstri pólitísks rétttrúnaðar.

    PS. Þú mættir gjarnan prófarkalesa þessa grein. Virðist skifuð í nokkrum flýti.

    1. Þakka fyrir ábendinguna, varðandi villumagnið, hún á rétt á sér. Rétt að biðja þá sem þetta lásu, afsökunar á. Pawel

  2. Ef sjálfstæðismönnum finnst það fyndið að tala um hrunið sem “hið svokallaða hrun” þá sýnir það aðeins að þeir láta sér hrunið í léttu rúmi liggja og neita alfarið að axla ábyrgð á því. Þess vegna er það réttmætt að hneykslast á þessum ummælum Gísla Marteins hvort sem um grín var að ræða eða ekki.

    Ég tel þó að aðalástæðan fyrir sterkum viðbrögðum við þætti Gísla Marteins vera að hann sem sjálfstæðismaður í fremstu röð skuli vera valinn til að stjórna aðalumræðuþætti Rúv um stjórnmál. Þetta stenst enga skoðun í lýðræðisríki. Þetta er þó nákvæmlega það sem búast mátti við eftir að ríkisstjórnin setti stjórn Rúv aftur undir pólitískt vald.

  3. “sem nú þurftu að réttlæta sína óréttlátu reiði, hafa tekið þá línu að það væri einhvern veginn „rangt að gera grín að hruninu.“ ”

    Óréttlátu reiði???!!!

    Komdu þér inn í veruleikan! Ert þú atvinnulaus vegna hrunsins? Ég er það.
    Þurftir þú að sjá á eftir börnum þínum og barnabörnum til útlanda af því að þau höfðu gefist upp við að reyna að berjast við stökkbreytt húsnæðislán? Ég þurfti það.

    Fólk er reitt og það af eðlilegum ástæðum og hvorki þessi pistill þinn né “gaman saman” þáttur, sem er stjórnað af vini Hannesar Hólmsteins, getur breytt því.

    Skömm sé þér að tala niður til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna græðgisvæðingar nýfrjálshyggjupostuluna! Okkur er sko enginn hlátur í huga.

    1. Ég missti raunar vinnuna í kjölfar hrunsins, já. Önnur saga.

      Mér finnst samt hæpið að menn geti beðið annað fólk um að það geri ekki grín af hruninu. Hvað þá að það að allir sýni mótmælunum á Austurvelli lotningarfulla virðingu. Reyndar vissulega geta þeir beðið um það, en þetta eru reyndast sjaldnar beiðnir, heldur kröfur með mörgum upphrópunarmerkjum fyrir aftan.

      Það breytir því ekki, að án nokkurs vafa er staða margra, þar á meðal þín, erfið. En takk fyrir athugasemdina.

      1. Já, sínum augum lítur hver á silfrið, segir íslenskt máltæki.

        Þér finnst hæpið að biðja aðra um að gera ekki grín að hruninu. Finndist þér hæpið ef brennuvargar gengu lausir í borginni að fólk færi fram á það að ekki væri verið að gera grín af því að þeir brenndu eignir fólks? Eða er það öðruvísi ef gráðugir nýfrjálshyggjupostular (mætti alveg eins kalla þá brennuvarga) stela eignum almúans?

        Staða mín er kannski erfið, en hún er langt í frá eins erfið og flestra þeirra sem ungir eru og voru rétt nýbúnir að koma sér þaki yfir höfuðið þegar græðgisbólan sprakk haustið 2008 og það er fyrst og fremst fyrir þeirra hönd sem ég er reiður.

  4. Auðvitað er kjánalegt að ýja að því að búsáhaldabyltingin hafi verið skipulögð því það er ekki satt. Annars er þetta blogg ótrúlega mikið væl.

    1. Ég hef áður heyrt því fleygt fram að það sé “væl” að kvarta undan brotnum rúðum og brunnu jólatré. Ég held bara að þegar menn eru komnir á þennan stað er stundum styttra í ofbeldi gegn lifandi fólki en menn halda. En já. ég verð þá að fá að halda áfram að væla út af því.

  5. Aðgerðin “að móðga hrun einhvers” skiptir litlu sem engu máli – heildarsamhengið skiptir öllu. Að ræða afleiðingar hruns en afneita orsökum þess er aðalvandinn.

    Því landlæg spilling innan íslenska stjórnkerfisins olli hruninu að mestu leyti. Hvorki stjórnkerfið né spillingin hafa svo breyst í kjölfar hruns – íslensk þöggun hefur að mestu séð um það.

    Og það virðist ætla að valda greiðslufalli ríkissjóðs á næstkomandi árum – nema e.t.v. auðlindir fari upp í skuldir spillingar og þöggunar. Og þannig heldur auðræðið áfram.

    Svo lengi sem menn ræða einungis afleiðingar í stað orsaka mun auðræði hægt og rólega ýta lýðræði út.

    En auðræði er dæmt til að falla á endanum og því lengur sem það er við lýði, því ljótari verður baráttan um lýðræðið.

    Það er það sem “reiða” fólkið sér en ekki hinir (auðvitað eru til aðilar sem sem sjá en er einfaldlega skítsama). “Reiða” fólkið sér að því lengur sem þetta gengur svona áfram, þeim mun dýpra verður sárið og batinn verður erfiðari fyrir vikið. Batinn sem þarf á endanum að eiga sér stað svo friður náist í þjóðfélaginu.

    Þó menn geti komið sér undan því að taka á vandanum mjög lengi þarf á endanum að velja sér eina hlið af tveimur. Almenningur eða fjármálavald. Það er enginn leið þar á milli þegar allt kemur til alls. Ástæðan er einföld. Auðræðið undir leiðsögn fjármálavaldsins leyfir ekki öðru að gerast vegna þess að fjármálaaflið rænir verðmætum en skapar lítil sem engin á sama tíma. Fjármálaaflið veit að síhækkandi hlutfall almennings gerir sér grein fyrir þessu og veit að á endanum mun eitthvað undan láta – þess vegna hefur fjármálavaldið hraðann á og reynir að ræna eins miklu og það getur á eins skömmum tíma og það getur.

    Og þannig heldur það áfram svo lengi sem menn ræða um afleiðingar hrunsins en ekki orsakir þess í þeim tilgangi að taka á rót vandans.

  6. Ég er eiginlega bara alveg sammála þér að mestu leiti elsku Pawel. Mér finnst vinstrimenn vera að “gelta upp í vitlaust tré” með því að væla yfir því að Gísli Marteinn sé að vinna á RÚV. Hann er góður drengur og nýtur virðingar hjá langflestum sem hafa unnið með honum, því hann er bara solid í því sem hann gerir.

  7. Hlægilegi Spegillinn birti umfjöllun um rannsókn sem gerð var vegna hrunsins. Sú rannsókn leiddi í ljós að ofbeldisverkin sem þú kýst að kasta yfir alla meðbræður þína sem þar stóðu voru algerlega negld niður sem verk ,,kunningja” lögreglunnar sem voru þar að hefna fyrir eitthvað sem enginn sem stóð á Austurvell hafði hugmynd um. Svo áður en þú kastar slíkum ósóma yfir meðbræður kynntu þér málin betur.

    Varðandi þátt Gísla Marteins þá persónulega tók ég ekki nærri mér þegar hann ákvað að tala um ,,hið svokallaða hrun” – hins vegar fannst mér þátturinn sá fyrsti bara döll og ekki skemmtilegur en síðari þáttur mun skárri.

    Pavel þú þarft að gera eitthvað í ótta þínum við einræði kommúnismans……. það er leyfilegt að mótmæla á Íslandi og hér býrðu og ert orðinn samlandi minn. Þú verður stundum ómarktækur í gagnrýni vegna þessa ótta þíns og hittir því endilega ekki í mark.

Leave a Reply

Your email address will not be published.