Strætó burt af Sæbrautinni

Fyrir nokkrum vikum sá ég að búið væri að setja upp varanleg strætóskýli á Sæbrautinni. Það virkar dálítið skrýtið í ljósi þess að strætó á bara keyra tímabundið á Sæbrautinni meðan verið er að lappa upp á Hverfisgötuna. Eða hvað?

Höf: Pawel Bartoszek
Höf: Pawel Bartoszek

Kannski ákvað þetta fyrirtæki sem rekur skýlin bara að taka þau niður þaðan sem þau voru. Kannski ákvað það að setja þau annars staðar fremur en að láta þau standa í geymslum. En ég veit það ekki… af hverju var að það ekki gert strax i vor? Af hverju fyrst núna?

Ég held að það sé ekkert launungarmál að Strætó langar alls ekkert að keyra á Hverfisgötunni. Margar af þeim hugmyndum að leiðakerfisbreytingum sem ég hef fengið að sjá að undanförnu ganga oft út á þetta: Að taka strætó úr miðbænum. Til dæmis láta allar leiðir stoppa á BSÍ og senda svo einhverja “minni vagna” þaðan niður í bæ. Ég hef af þessu áhyggjur. Almenn eru miklar byltingar í leiðarkerfum eitthvað sem ætti að varast. Sá sem missir góða tengingu gefst oft upp. En hitt er mun sjaldgæfara: að sá sem nú fær betri strætótengingu en áður selji bílinn.

Hvers vegna vilja menn ekki keyra Hverfisgötuna? Frá sjónarhorni einhvers sem rekur bílaflota má skilja það. Hverfisgatan er 30 km/klst gata. Menn þurfa örugglega að brjóta þá reglu til að komast yfir á skikkanlegum tíma. Gatan er ekki sérlega breið. Það er mikið af gangandi fólki. Aðrir bílar þvælast fyrir strætó og stræto þvælist fyrir þeim. Það eru eflaust til þægilegri staðir til að keyra stórum bílum á.

En þetta er samt gata sem liggur eftir aðalás miðbæjarins. Ég raunar mann þá tíð að strætó keyrði Laugaveg og Skólavörðustíg. Nú með seinustu (vonandi tímabundnu) breytingum er miðbærinn gat í leiðakerfinu.

Gatið í miðbænum. Af vef strætó.
Gatið í miðbænum. Af vef strætó.

Strætó byrjaði að keyra Sæbrautina talsvert áður en Hverfisgötu var lokað fyrir allri umferð. Líkt og þeir gætu varla beðið. Og það sem ég er hræddur við er þetta: Þegar Hverfisgatan verður tilbúin muny menn keyra Sæbrautina áfram (til að gera ekki breytingar fyrr enn við endurskoðun á leiðakerfinu). Svo keyra menn þannig áfram til sumars. Svo verður haldið áfram því sagt verður “að almenn ánægja hafi verið með breytinguna.”

Auðvitað skil ég að strætó getur ekki keyrt götu sem er sundurgrafin. En ég er bara segja, það er engin almenn ánægja með þetta og verður ekki. Þetta er glatað. Allir þurfa að labba miklu lengur. Strætóskýlið við Víkingaskipið er grín.

Ég vona að þetta sé bara tímabundið ástand og að varanlegu skýlin þýði ekki að breytingin á leiðakerfinu sé varanleg. Ég vil að strætó keyri Hverfisgötuna fyrsta daginn sem hún verður aftur opnuð fyrir umferð.

2 thoughts on “Strætó burt af Sæbrautinni

  1. Ég hef tekið strætó niður í bæ og heim aftur langflesta daga vikunnar í þrjú ár og almennt líkað vel en Strætó á Sæbrautinni er óþolandi. Ástæða til að hætta að taka Strætó.

  2. Helsti gallinn er að það keyra of margir strætóar niður Hverfisgötuna. Í reynd keyra allar meginleiðirnar þangað og taka talsverðan krók. Hverfisgatan er þar fyrir utan þröng og það sem er kannski alverst við hana eru hraðahindranir þó er það eitthvað sem er hægt að laga.

    Sjálfsagt að strætó gangi þarna en spurning hvort það væri ekki betra að fá meginleiðir eftir stóru meginbrautunum og tengileiðir þaðan út frá.

Leave a Reply

Your email address will not be published.