Hver vill vera með í foreldrafélaginu? Einhver… ?

Höfundur: Chewonki Semester School
Höf:Chewonki Semester School CC-BY-SA 2.A

Það var haldinn fundur í foreldrafélagi leikskóla sonar míns. Af foreldrum nær 80 barna mættu 12.

(Var mér sagt. Ég  mætti ekki.)

Það má auðvitað hneykslast á þessu og fussa og sveia í mörgum tóntegundum, og láta sem þeir sem vilji ekki fara frá börnum sínum til að hitta aðra foreldra séu vondir foreldrar. En sumir einfaldlega komast ekki. Aðrir forgangsraða öðruvísi.

En svo er hitt vandamálið. Svo fáir mæta að þeir sem mæta fara sjálfkrafa í stjórn. Þannig að menn mæta ekki af ótta við að þurfa að fara í stjórn. Og því mæta enn færri, því einhverju fólki langar kannski að mæta en langar örugglega ekki í stjórn. Þetta er svona harmleikur almenningsins – í leikskólaútgáfu.

***

Þegar ég var í Póllandi var ekkert foreldrafélag í leikskólanum. Ef panta átti danskennslu, redda trúð eða fara í ferðalag, skipulagði einkarekni leikskólinn þetta sjálfur. Menn gáfu svolítið til kynna að fólk væri að borga fyrir að sleppa við allt þetta vesen. Það má hafa skoðun á því viðhorfi. En þægilegt var þetta.

***

Svona foreldrafélög geta auðvitað gert ýmislegt gagn. Til dæmis með því að skipuleggja viðburði/viðbótarnámskeið og rukka fólk fyrir þátttöku, og farið þannig í kringum ýmsar reglur sem banna leikskólunum / skólunum sjálfum að rukka fólk fyrir hluti sem kosta.

En það er alls ekki augljóst að það sé best að foreldrafélög gegni þessum hlutverkum. Til dæmis stoppa menn oft stutt í svona stjórnum. Þannig að ár eftir eru nýir pabbar og nýjar mömmur að leita að rútum til að leigja og pulsum til að kaupa með magnafslætti. Reynsla safnast ekki upp, öfugt við það sem gerist ef þetta væri á hendi gráðugra kapitalista (eða alla vega fólks sem ynni við að skipuleggja dót með börnum).

Ég segi þetta bara vegna þess að sumir eru stundum haldnir draumsýn um rosaöflug foreldrafélög sem nánast reka leikskóla/skóla eða taka allavega mikilvægar ákvarðanir um hluti eins og hvaða matur eigi að vera á boðstólum. Menn geta verið á þessari skoðun, og mér finnst hún ekki algerlega fáranleg en ég er á annarri skoðun og myndi ekki endilega velja leikskóla sem hefði slíka stefnu ef ég fengi einhverju ráðið. Það hljómar eins og það hljómar og það eru kannski ekki margir sem vilja bera slíka letistefnu á torg. En sé sókn fólks í trúnaðarstörf foreldrafélaga einhver mælikvarði eru líklegast ögn fleiri sammála mér en vilja viðurkenna það.

Leave a Reply

Your email address will not be published.