Kúlið kvatt

CC-BY-SA TheeErin
CC-BY-SA TheeErin

“Fyrirgefðu. Ég þarf að biðja þig um að yfirgefa lestina…”

“Ha, mig? Okkur?”

“Já, því miður, lestin er bara full. Við getum ekki flutt svona marga af öryggisástæðum.”

“En… en… við … ég  þarf að komast leiðar minnar… Ég er með miða og allt.”

“Já fyrirgefðu! Þú misskildir mig. Það kemur að sjálfsögðu lest strax á eftir sem sækir þig. Það er miklu meira pláss. Og þú ert með krakka. Það er fín lest fyrir fólk eins og þig. Fín og þægileg.””

“En..”  segi ég áhyggjufullur, “…er hún… Er hún jafnKÚL?”

***

Ég fór á Airwaves fjögur ár í röð. Fannst alltaf mjög skemmtilegt. Svo missti ég af ári. Svo af öðru. Svo kemur að því að maður er varla lengur að missa af… það er meira svona að maður mætir ekki. Maður er búinn að missa af kúlinu.

***

Við stöndum á brautarpallinum. Ég held á yngri syni mínum. Sá eldri stendur hjá töskunum. Og við horfum á eftir lestinni.

“Pabbi, af hverju fór lestin án okkar?”

“Æi, hún var bara full. En það kemur önnur lest. Sem er miklu miklu betri. Við þurfum ekki að standa þar. Var þér ekki illt í fótunum?”

“Jú…”

(10 sekúndur)

“Pabbi, hvenær kemur lestin…?”

***

Maður áttar sig reglulega á því að sumt sem maður gerði stundum mun maður kannski ekki gera framar. Og ekki einu sinni það að maður geti það ekki. Heldur mun maður kannski bar ekki hafa löngun til þess. Og stundum, þegar maður lætur sig hafa að gera hluti sem maður eitt sinn gerði þá verða þeir ekki einu sinni jafnskemmtilegir og þeir voru áður. Skrýtið.

***

Nýja lestin rúllar inn á stöðina. Hún er hrein og það er nóg af plássi. Það er meira að segja veitingavagn, með stórri ísauglýsingu á hliðinni.”

“Pabbi! Ís!”

Við berum farangurinn um borð. Hér eru engir menn með tattú, dredda, plathandprjónaða trefla eða of stór gleraugu. Miðaldra bisnesskona býður góðan daginn. Á móti okkur situr önnur fjölskylda. Börnin leika sér með pleimó. Lestarþjónn spyr hvort við viljum kaffi og súkkulaðikex.

“Pabbi! Þessi lest er miklu betri!”

“Ég veit það, kútur” segi ég. Andvarpa og brosi í senn. Brosvarpa.

“Pabbi, fannst þér hin lestin betri?”

“Nei, krúttið mitt. Þessi er miklu betri. Mér fannst hin reyndar alveg líka skemmtileg. En þetta er allt í lagi.. Við sjáum hana nú kannski einhvern tímann aftur…”

Góða skemmtun á Airwaves.

Leave a Reply

Your email address will not be published.