Leikritið „Markgildi frá hægri“

CC-BY-SA Alan Cleaver
CC-BY-SA Alan Cleaver

Leikritið „Markgildi frá hægri“ sem nýlega var frumsýnt í Borgarleikhúsinu fjallar um 32 ára gamlan pólskættaðan eðlisfræðing Bartosz Pawlowiak. Bartosz skrifar reglulegar greinar í Síðdegisblaðið sem og á hægri-stríðsæsingavefritið lemdann.is. Að auki vinnur hann við gagnaúrvinnslu hjá gólfefnafyrirtækinu DaddaParket, sem vinur hans Daddi  rekur.

Bartosz býr í Háaleitishverfinu ásamt íslenskri unnustu sinni Báru og tveimur sonum þeirra. Bára er leikbúningahöfundur og tekur pólitísku brölti Bartoszar með stóískri ró.

Leikritið hefst þegar Bartosz kemur úr námi í Danmörku, og er ráðinn inn í Háskólann á Bifröst, þar sem hann kynnist hinum skrautlega yfirmanni sínum Steinari Einarssyni. Eftir hrunið er missir Bartosz vinnuna og er valinn á nýskipað Þjóðbyltingarþing þar sem hann þvælist fyrir öllum teljandi umbótum og er almennt til ama. Við fylgjum honum síðan aftur til Póllands, í heimabæ hans Wroclaw, þar sem í ljós kemur að hann aðlagast pólsku samfélagi illa, á enga vini og þérar fólk þegar það er löngu dottið úr tísku.

Loks fylgjumst við með heimkomu Bartoszar til Íslands að nýju og tilraunum hans til að finna sig í hinu nýja pólitíska landslagi Íslands eftir hrun. En aðallega munum við þó fylgjast með Bartosz þegar hann drekkur rauðvín, birtir greinar á síðu sína Bartosz.is og  blótar fólki sem lækar ekki statusana hans.

(P.S. Ef einhverjum finnst þessi grein ekki fyndin þá skal ég með ánægju útskýra brandarann í langri og ítarlegri blaðagrein.)

Fangelsi eru ekki slæm út af matnum og lyktinni

Aðstæður jafnvel þeirra ríkustu fyrir 200 árum þættu okkur ógeðslegar í dag. Ég meina oj, enginn klósettpappír og allt það.

Auðvitað fannst það engum ógeðslegt þá. Menn gátu eflaust verið bara frekar hamingjusamir, og ef þeir voru ekki hamingjusamir þá var það mun frekar út af því hvernig komið var fram við þá heldur út af líkamlegum aðstæðum, lyktinni, matnum eða því að þeim var stundum kalt.

Ég sá einhvern tímann viðtal við breska konu sem hafði verið dæmd í mjög langt fangelsi í austurlöndum fyrir fíkniefnainnflutning (afsakið að ég hafi nafn hennar eða land ekki á hreinu, þetta er eftir minni). Hún var dæmd til dauða síðan náðuð í frekar langt fangelsi, sat af sér þónokkur ár ytra uns hún var flutt til Bretlands og þurfti að klára dóminn þar.

Hún lýsti aðstæðum í kvennafangelsinu í Asíu þar sem konurnar sátu tugum saman í klefa og sváfu á steingólfi. Og síðan reyndi hún, að koma því að, greinilega í 100. skipti, að í raun hefði ekki „allt orðið miklu betra við flutninginn“. Eiginlega bara ekki. Fangelsi var áfram fangelsi.

Ég hef horft á þónokkra þætti frá bandarískum fangelsum þar sem talað er við sextuga-sjötuguga menn sem sitja inni ævilangt fyrir einhvern viðbjóð. Margir hafa setið inni svo áratugum skiptir. Og svo mætir einhver þáttastjórnandi og spyr hvort rúmin séu ekki hörð, maturinn einhæfur og svo framvegis. Einn af þessum eldri mönnum sagði: „Ekki spyrja okkur um líkamlegar aðstæður. Þeim getum við aðlagað okkur.“

Við höfum byggt jörðina næstum því pólanna á milli. Búum í frosti, kulda, eyðimörk, stanslausum hita, óbærilegum raka, í frumskógum, á sléttum, túndrum, í sífrera, undir pálmatrjám og í fimm þúsund metra hæð. Sum okkar borða bara grænmeti, önnur nánast ekkert grænmeti, sum búa í blokkum og einbýlishúsum, önnur í strákofum eða leirhúsum.

En þrátt fyrir þessa ótrúlega aðlögunarhæfni gerum við okkur ekki grein fyrir hve ótrúlega aðlögunarhæf við erum. Og um leið er eins og við missum sjónar af því að okkur er til dæmis ætlað að vera félagsverur, okkur er ekki ætlað að vera læst inni og það hefur ekkert með aðbúnað inni að gera. Nei, spurningin er t.d. alltaf: „Þurfa konurnar að bera vatn á hausnum.“ En ekki: „Líta karlmenn á þær sem jafningja?“

Ég hef  heyrt að fangelsi á Íslandi hljóti að vera eins og hótel fyrir sum þessara erlendu manna sem hér fremja glæpi. Enginn refsing að lenda á Litla-Hrauni. Frábær umræða. Endar örugglega með að menn taki réttar og mannúðlegar ákvarðanir. Og vel að merkja. Ég held að það sé mjög æskilegt að menn afpláni í heimalandi sínu. Ef einhver Íslendingur flytur dóp til Mið-Evrópu þá er miklu betra að hann afpláni á Íslandi. Fyrst og fremst út af möguleika á menntun, nálægð við ættingja og allt annað sem getur gert bataleið fólks auðveldari. En það hefur mun minna með aðbúnað að gera. Fólk getur vanist ýmsu, líkamlega séð. En fangelsi verður samt alltaf bara fangelsi. Þó að rúmin séu mjúk.

Nýsköpun = mikil áhætta

CC-BY-SA Sean MacEntee
CC-BY-SA Sean MacEntee

Það má líta svo á að „nýsköpun“ sé í raun fancy orð yfir „mjög áhættusaman rekstur“. Þegar stjórnmálamaður hvetur til aukinna opinberra útgjalda til nýsköpunar er hann í raun að hvetja til þess að meira fé sé sett í mjög áhættusaman rekstur. Ráðgjafi sem hvetur fólk til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum er í raun að hvetja það til að setja pening sinn í mjög áhættusaman rekstur. Þegar Vinnumálastofnum niðurgreiðir laun fólks í „nýsköpun“ er hún í raun að niðurgreiða mjög áhættusaman rekstur.  Og svo framvegis.

Það er vissulega til fólk sem fjárfestir í nýsköpun, þ.e. fólk fjárfestir í mjög áhættusömum rekstri. Það fólk skoðar kannski nokkur hundruð fyrirtæki, fjárfestir í handfylli þeirra og ef eitt nær að vera stórt, og skila hagnaði þá græðir fjárfestirinn á  öllu saman. En ætla sér að fjárfesta í einni sniðugri hugmynd sem maður heyrir um í sjónvarpinu… þá er alveg eins hægt að spila í Lottóinu.

Það þarf að mjög margt að gerast til nýsköpunarfyrirtæki gangi upp. Menn þurfa að fá hugmynd og framkvæma hana vel, það vel að einhver nenni á endanum að borga fyrir að nota vöruna. Þetta með hugmyndina (og frumleika hennar) skiptir líklega minna máli en fólk heldur. Ef við lítum á tvö íslensk fyrirtæki sem hafa þótt vera að standa sig, Meniga og Plain Vanilla, þá eru „hugmyndirnar“ annars vegar bókhaldskerfi og hins spurningaleikur.  Hvorugt er satt að segja neitt hugarþeytandi frumlegt, en útfærslan er í báðum tilfellum með ágætum. En það sem stendur eftir er auðvitað, í báðum tilfellum, spurningin hvort útfærslan sé það góð að nógu margir muni á endanum borga fyrir vöruna.

Langflest fyrirtæki fara á hausinn. Það þarf ekki einu sinni að vera að þeir sem þau reki geri eitthvað rangt, þannig séð. Stundum getur þetta bara einfaldlega verið heppni. Það til dæmis að ætla sér að græða á appi er mjög erfitt. Nýlega voru mátti til dæmis lesa frétt um það að „Íslendingar hafi ekki viljað fjárfesta í Plain Vanilla“, sögð með hálfgerðum hneykslunartón. En munið: „Nýsköpun = Mjög áhættusamur rekstur.“ Það er ekki endilega auðséð að lífeyrissjóðir eigi að fjárfesta meira í mjög áhættusömum rekstri, sérstaklega ef þeir til dæmis telja sig ekki þekkja þann markað sem fjárfesta á í.

En stundum finnst mér eins og fréttaflutningurinn sé svona: „Ari og Bjarni fóru í spilavíti. Ari veðjaði á rautt, Bjarni á svart. Upp kom rautt. Niðurstaða álitsgjafa: Ari er mjög klár. Bjarni er mjög heimskur.“

Hér á landi þarf allt að vera annaðhvort glatað eða frábært. Einu sinni þótti Decode frábært. Fólk keypti hlutabréf í Decode. Fólk tapaði peningum á því og Decode þótti glatað. Nú hefur Decode verið selt sem er frábært, en fullt af fólki finnst það glatað. Andinn er einhvern veginn þannig að „fólk hafi trúað Kára Stefánssyni fyrir sparifé sínu“ sem er auðvitað dálítið furðuleg leið að horfa á þetta. Decode er ekki banki heldur rannsóknar- og tækniþróunafyrirtæki. Ef menn mega ekki við því að sjá á eftir peningunum sínum þá eiga þeir ekki að fjárfesta þeim. Hvað þá að fjárfesta þeim í mjög áhættusömum rekstri.

Orðið „nýsköpun“ er mjög jákvætt. Sögur af þeim örfáum nýsköpunarfyrirtækjum sem meika það fara hærra en sögur af þeim sem fara á hausinn. Allt þetta gerir það að verkum að menn fara að halda að fjárfestingar í nýsköpun séu nánast örugg leið til að meika monný. En það er auðvitað fjarri því að vera satt.

Kosningar snúast um bögg

Kosningabarátta mín til stjórnlagaþings gekk að stærstum hluta út á það að hafa samband við fólk persónulega og biðja það um að kjósa mig. Samtals fengust um 500 manns til að lofa að kjósa þennan Pawel í fyrsta sæti. Ég endaði á að fá 584 atkvæði í það sæti.

Ég segi þetta bara svo fólk átti sig á því hvað kosningar snúast um. Það er nefnilega uppi smá misskilningur hvað þetta varðar.

A. Það sem fólk heldur að kosningabarátta snúist um

voting - Frame 4

  1. Frambjóðendur kynna sig og stefnumál sín.
  2. Kjósendur kynna sér stefnumál frambjóðenda.
  3. Kjósendur mæta á kjörstað og velja þá frambjóðendur sem þeim líst best á.

B. Það sem kosningabarátta snýst raunverulega um

voting - Frame 2

  1. Frambjóðandi böggar fólk persónulega og lætur það lofa sér að kjósa sig.
  2. Frambjóðandi fer heim til fólks á kjördag og dregur það nauðugt á kjörstað.

Kannski þegar þetta kemst á hreint getum við farið að ræða ástæður þess að hinum og þessum gengur ekki betur í prófkjörum og kosningum. Jafnvél ég hélt, satt að segja, að einhver alvöruhópur myndi kjósa mig ótilneyddur, ég meina, ég var búinn í skrifa í blöðin í mörg ár. En ég fékk á endanum afar fá atkvæði í fyrsta sæti frá fólki sem ég hafði ekki tuðað í.

Ég tek reyndar fram að vissulega er til fólk sem mætir ótilneytt á kjörstað. Aðallega fólk sem hefur kosið oft áður.  Í tilfelli prófkjara Sjálfstæðisflokksins eru er þessi hópur aðallega eldra fólk, aðallega karlmenn. Það þýðir að þeir njóta trausts hjá gömlum körlum fá ákveðið forskot. Og ég held að konum og ungu fólki fer ekki að ganga betur fyr fr en fleiri konur kjósa og fleira ungt fólk kýs.

Ég ætla því að gerast það grófur að halda því fram að þegar konum og ungu fólki gengur ekki nógu vel þá sé það kannski bara þeim konum og því unga fólki að kenna. Ha, Pawel? How dare you? Já, það sem ég að við að þegar kjörsókn er komin niður í 5000 þá gætu þessi 2000 sem stundum kjósa í Heimdallarkosningum auðveldlega raðað upp listanum eins og þeim sýnist. Þannig að sóknarfærin eru til staðar og það er líklega minna þunglyndislegt plan að líta til hinna augljósu möguleika fremur en að svekkja sig á því að gamlir karlar kjósi frekar karla en konur.

Vil samt koma einu á hreint. Ég veit ekki til að neinum þyki það virkilega skemmtilegt að bögga vini sína, kunningja og vinnufélaga með því biðja þá um að kjósa einhvern annan vin sinn. En ef ungu fólki, eða konum, á að ganga eitthvað í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins þá verður að bögga fólk, og ef eitthvað er að marka niðurstöður prófkjörsins þá verður að bögga fólkið harðar og ágengar.

Kjörsóknin var svo lág!

Umræðan um kjörsókn í kosningum bendir aftur til að menn haldi að kosningabaráttur snúist um A en ekki B hér að ofan. Dæmi um þetta er að menn gefa gjarnan skítaskýringar á borð við  „litla umfjöllum fjölmiðla“ eða „áhugaleysi almennings“ þegar kjörsókn er dræm. Þetta er einfalt. Fólk kýs ekki því það er ekki böggað nóg.

Til dæmis kjörsókn í Stjórnlagaþingskosningum var ekki lág út af því að „fjölmiðlar stóðu sig svo illa“. Kjörsóknin var lág því frambjóðendur stóðu sig illa. Margir höfðu ekki bakgrunn í pólitík og höfðu einhverjar háleitar hugmyndir um að þeir ætluðu alls ekki reka kosningabaráttu.  Mig minnir að fjórir frambjóðendur hafi eytt einhverjum peningum að ráði í kosningabaráttu sína, þeir náðu allir kjöri.

Ég man að kvöldið fyrir kjördag, meðan ég hringdi seinustu símtölin á kosningaskrifstofunni, fóru margir aðrir frambjóðendur í kyndlagöngu frambjóðenda. Á meðan þeir voru þar voru þeir ekki að hringja í fólk og biðja fólk um að kjósa sig. Ætli þessi kyndaganga hafi ekki komið mér þarna í topp 25. Því ég gat nýtt tímann til að bögga kjósendur meðan aðrir sóuðu sínum tíma í að hitta aðra frambjóðendur.

Virðing á tíma frambjóðenda

Tíma frambjóðenda í fámennum kosningum, eins og flestar hér a landi eru, er  nánast alltaf best varið í það að bögga fólk persónulega. Á þessu er stundum lítill skilningur. Tökum sem dæmi nýliðið prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Á mánudegi er haldinn leiðtogafundur, þar sem þau fjögur sem sem sækjast um efsta sæti fá að mæta og halda ræður fyrir gallharða stuðningsmenn hvert annars. Hljómar skemmtilega en þetta er samt fundur á besta símatíma. Frambjóðandinn hringir ekki á meðan hann lætur stuðningsmenn mótframbjóðenda grilla sig með spurningum um flugvöllinn.

En leiðtogaefnin voru samt heppin samanborið við frambjóðendur til sæta 2-6 sem fengu annan fund, á þriðjudegi þar sem fleiri frambjóðendur, töluðu fyrir færri kjósendur, færri dögum fyrir kjördag. Og gátu því ekki böggað kjósendur á meðan. Og svo var haldinn sérstakur fundur bara með kvenkynsframbjóðendum á fimmtudeginum, aftur án efa af góðum hug, en kvenframbjóðandinn hringir ekki og böggar ekki fólk á meðan hún er á fundi að tala við konur sem ætla hvort eð er að kjósa konur og aðrar konur sem eru í framboði. Bara hugmynd, kannski ætti að halda svona fundi ögn fyrr í kosningabaráttunni.

Predikað yfir kórnum

Ég hef farið í gegnum eina kosningabaráttu til borgarstjórnar, það var fyrir þremur og hálfu ári. Ég hringdi örugglega í nokkur hundruð Reykvíkinga, aðallega ungt fólk. Ég hélt ég myndi hata það en mér fannst það bara fínt. Og ef ég ætti að gefa einhverja skýringu á því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hafi á endanum fengið 660 atkvæðum minna en Besti flokkurinn þá myndi ég segja að sjálfstæðismenn hafi ekki byrjað að hringja nógu snemma, ekki hringt í nógu mikið, ekki hringt í nógu marga  og ekki nógu oft. Sem sagt ekki böggað fólk nóg.

Á sama tíma kom það mér á óvart hve mikill tími frambjóðenda fór í að hitta gallharða sjálfstæðismenn, þiggja kaffi á hinum fjölmörgu kosningaskrifstofum flokksins, tala á fundum sem Sjálfstæðisfélög héldu og svo framvegis. Og þetta var allt í gangi vikuna fyrir kosningar. Og ef maður mætti ekki í á einhverja hverfisopnun þá var haldið utan um það og maður látinn vita að eftir þessu hefði verið tekið. Mjög hvetjandi allt saman.

Auðvitað er mikilvægt að „sinna grasrótinni“ og allt það en á lokaspretti kosningabaráttu þá er bara ekki tími fyrir alls konar  dútl. Það þarf bara hringja í fólk. Bögga fólk sem veit ekki að það eru að koma kosningar, trúið mér, það er alltaf nóg af því fólki. Bögga fólk, sem langaði ekki einu sinni að kjósa. Bögga fólk sem vill ekki kjósa nema það sé böggað. Bögga fólk sem vill finna að einhverjum finnst skipta máli að það sitji ekki heima heldur mæti á þennan kjörstað. Og stundum gefst af of lítill tími til þess út af alls konar rugli. Rugli í fólki sem skilur ekki að kosningabaráttur snúast fyrst og fremst um það að bögga fólk.

Vopnaðir fulltrúar stjórnvalda áreita óbreytta borgara á leið úr landi

Þetta er nú klassý. Íslenskir lögreglumenn að sýna spænska dómaranum rauða spjaldið á leið úr landi. Þetta er svo fyndið að ég spring úr hlátri. Menn að fara heim til fjölskyldu sinnar eftir að hafa dæmt einhvern fótboltaleik. Fara í gegnum öryggisleitina, taka af sér beltið, og fara úr skónum. Svo fara lögreglumenn að bögga þá út af dómgæslunni. Hverjum myndi ekki líða betur?

http://www.visir.is/raku-spaenska-domarann-utaf-flugvellinum/article/2013131119212

Ég veit það ekki. Lögreglumen eru fulltrúar valdstjórnar. Þeir hafa það hlutverk að gæta öryggis fólks. Jafnt á flugvöllum sem annars staðar. Þeir hafa vald til að handtaka fólk og setja í varðhald. Er það við hæfi að menn böggi fólk út af einhverju öðru? Og þótt  fólkið hafi hlegið þessa raun af sér þá er ekki víst að því hafi endilega þótt þetta sniðugt. Þeir einu sem eru til frásagnar, sem stendur, eru lögreglumennirnir sjálfir.

Já, og svo er það. Er eðlilegt að lögreglumenn dreifi þessum samskiptum sínum við þessa óbreyttu borgara til almennings. Vissu mennirnir að þeir voru í viðtali við facebook síðu Lögreglunnar á Suðurnesjum? Spurning hvort lögreglan ætti ekki að halda sér við vinnu sína og í stað þess áreita frægt fólk. Og segja frá áreitinu á einhverri papparazzi síðu.

Blótað í hita leiksins

Þegar ég var barn mættust Pólland og Ísland stundum í handbolta. Ég kveið þeim viðureignum eins og  andskotanum. Þarna var einhver atburður sem ég gat engin áhrif á haft. En það mundi einhver bögga mig út af honum.

Ég vonaðist alltaf eftir hægum en öruggum 5 marka sigri Íslands. Ef sigurinn væri meiri myndi einhver núa mér öllu um nasir. Nananana! Ef sigurinn var tæpur voru taugarnar hátt uppi og böggið eftir því. Því tæpari sem leikurinn var jukustu líkurnar á því að lýsandinn myndi kenna dómara eða fantaskap andstæðingsins um einhver óheilindi. Og það smitaðist út í skólastofuna. Talandi nú ekki um ef Ísland myndi tapa, þá var það alltaf öllum í heiminum að kenna.

Nú er ég ekki bitur maður og mun ekki skrifa langar bækur um þessa reynslu mína. En þó langar mig að biðja fólk um að beina taugaspennunni í rétta átt. Og hafa eitt í huga:  Þegar menn segja „Helvítis <þjóðerni>“ í hita leiksins og segjast auðvitað vera grínast þá er ekki víst að allir aðrir, þar á meðal tíu ára krakkar sem eru með Króötum í bekk, viti að þeir séu að grínast.

Norðurlandaráð er vissulega enn þá til

Píratar lögðu nýlega fram tillögu um sameiginlegan norrænan markað með afþreyingu.  Það er krúttleg hugmynd en gagnslítil.

logo

Norðurlandaráð náði ýmsu í gegn á seinustu öld. Og Norðurlandaráð er vissulega enn þá til. En það er auðvitað ekki að fara gera einhverjar fleiri gloríur í bráð eða bæta við sig verkefnum. Þrjú hinna norrænu ríkja eru með í Evrópusambandinu. Það takmarkar möguleika þeirra á því að búa til nýja sameiginlega markaði norður og suður.

Vel að merkja: Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að koma á fót sameiginlegum evrópskum  markaði með stafrænt efni (sjá: http://ec.europa.eu/digital-agenda/en/our-goals/pillar-i-digital-single-market). Og er þá líklegt að að Danir, Svíar og Finnar muni ganga úr því verkefni, jafnvel segja sig úr ESB, til að taka þátt í að skapa 20 sinnum minni markað með Íslendingum og Norðmönnum? Auðvitað er það ekki líklegt.

Við gætum hins vegar reynt að fá að vera með í evrópska markaðnum. Verandi í EES og allt.

Það að búa til svona markað kallar á ýmislegt. Menn þurfa til dæmis að koma á sameiginlegum leyfum fyrir allt markaðssvæðið og síðan þarf að finna einhverjar leiðir til að skattar of höfundarréttargjöld skili sér á réttan stað. Sumt af þessu mun taka sinn tíma, eins og alltaf þegar reynt er að bræða saman lagakerfi þrjátíu ríkja. En einhvern veginn þykir mér líklegt að þetta verði að veruleika, því Evrópusambandið hættir ekki ótilneytt við það sem það tekur sér fyrir hendur. Sérstaklega ekki ef það tengist hinum sameiginlega markaði með einhverju móti.

Það er gott að einhver á þingi sé að spá í aðgengi Íslendinga að afþreyingu og að einhver á þingi átti sig á því að smæð íslensks markaðar sé vandamál. En ef ég mætti ráðleggja vinum mínum, Pírötum, þá myndi ég mæla með að þau leggðu fram tillögu sem ekki aðeins gripi athygli fjölmiðla í hálfan dag heldur gæti náð fram að ganga og gerði þannig gagn. Sú tillaga gæti litið svona út:

Alþingi ályktar að tryggja skuli þátttöku Íslendinga í sameiginlegum evrópskum markaði með stafrænt afþreyingarefni.

Katrín sammála Vigdísi

Vigdís Haukdsóttir kom með þá hugmynd um að refsa þyrfti fólki sem kæmi ekki heim til  Íslands eftir nám. Hugmynd Vigdísar þótti mörgum heimskuleg en hún á sér greinilega fjölmarga stuðningsmenn líka, þótt þeir stuðningsmenn vilji pakka henni öðruvísi inn.

Katrín Jakobsdóttir og fleiri hafa sagt að þeir sem komi heim ættu frekar að fá afslátt á námslánum eða skattafslátt. Sú hugmynd þykir ekki jafn-ómanneskjuleg og vond og enginn er enn búinn að segja að hún standist ekki EES samninginn.

Samt er þetta bara sama hugmyndin (að þeir sem verði eftir í útlöndum borgi meira en þeir sem komi heim) nema að spilað er inn á einfalda sálfræði. Afsláttarsálfræðina:

Afsláttur hljómar vel, álag hljómar illa.
Afsláttur hljómar vel, álag hljómar illa.

Á sinn kaldhæðnislega hátt er hugmynd Vigdísar eiginlega skárri en hugmynd Katrínar. Því allir sjá að hún er jafnvond og hún hljómar. En hugmyndir þeirra sem vilja gefa fólki „afslátt“ fyrir að koma heim hljóma mun skárri en þær eru.

Í raun snýst þetta um þetta: Viljum við gefa fólki fjárhagslega hvata til að koma heim til sín að námi loknu? „Já,“ segja sumir. En ég held persónulega að heimurinn yrði ekki betri ef allir hefðu þetta svona. Ef færri útlendingar ynnu Hjá Decode, í Háskóla Íslands og HR og ef færri Íslendingar ynnu í erlendum háskólum.

Ég held að við eigum að frekar keppa við að fá hæft fólk til Íslands, en þá alla, allt hæft fólk, ekki bara Íslendinga, og besta leiðin til þess er að bæta hér almenn lífsskilyrði og kaupmátt. Álögur á fólk sem finnur sér draumastarfið í útlöndum, sama hvernig þær álögur eru matreiddar, það er ekki rétta leiðin.

Þvernefni dagsins

Ég ætla að búa nýtt nafnorð. Þvernefni. Þvernefni er orð sem felur í sér innbyrðis mótsögn. Fyrsta þvernefnið er

Vinnufundur

Tek að sjálfsögðu við fleiri tillögum hér í kommentakerfinu.

Þú móðgaðir hrunið mitt

Ákveðinn hluti Íslendinga hefur gert búsáhaldabyltinguna og hrun bankakerfisins að slíkri rótfestu í sinni pólitísku heimsmynd að minnstu tilraunir til að gagnrýna, eða jafnvel bara gantast, með þessi hugtök kalla fram sorg og reiði.

Ýji maður að því að búsáhaldabyltingin hafi verið skipulögð, nefni maður hana í sömu setningu og orðið „ofbeldi“ og gagnrýni maður það til dæmis að einhver hafi reist styttu 20 metrum frá inngangi þinghússins til að minnast þessarar „lýðræðisveislu“ þá er sá hinn sami gríðarlega ósanngjarn, og eiginlega ónærgætinn líka.

Höf: OddurBen CC-BY-SA 3.0
Höf: OddurBen CC-BY-SA 3.0

Þegar kveikt var í jólatrénu á Austurvelli þá var það ógeðsleg og sorgleg stund. Líka þegar kveikt var í bekkjum. Líka þegar rúður í þinghúsinu voru brotnar. Líka þegar reynt var að brjótast inn á lögreglustöð. Ég þekki fólk sem var að vinna í þinghúsinu á þessum tíma. Allir geta ímyndað sér hvernig því leið að fara í vinnuna.  Mér finnst það hvort þessir atburðir hafi falið í sér beitingu ofbeldis (alla vega að einhverju leyti) ekki einu sinni vera athyglisverð spurning. Öllu forvitnilegri spurning er hvort beiting ofbeldis af þessu tagi sé réttlætanleg í pólitískum tilgangi og hvort skilyrðin hafi verið uppfyllt þarna.

***

Nýlega var myndband látið ganga um vefinn þar sem fyrsti þáttur Gísla Marteins „Sunnudagsmorgunn“ var klipptur saman til að láta líta út eins og þetta hafi verið hin harðasta frjálshyggju-íhaldsmessa. Meðal annars var hluti opnunarorða þáttastjórnandans, þegar hann minnist á hið „svokallaða hrun“, klipptur þannig að orðin „hið svokallaða hrun“ voru spiluð nokkrum sinnum til að skapa þá stemningu að þáttarstjórnandinn hafi staglast á þessu hugtaki endalaust.

(Það er raunar að einhverju leyti gegn betri vitund að ég kýs að verja Gísla og þáttinn hans, verandi vinur hans og pólitískur samherji. Það gerir þáttarstjórnanda ekki endilega gott að menn skiptist í þessar fyrirsjáanlegu pólitísku fylkingar þegar kemur að því meta hæfi hans í dagskrárgerð, en jæja).

Fyrir utan hvað þetta er pirrandi myndvinnsla þá er hún ósanngjörn. Klippa má nánast hvað sem er með svona aðferðum. Til dæmis: allir þrír gestir Gísla í kaffispjallinu lýstu yfir ánægju með störf Jóns Gnarrs. Þær þrjár yfirlýsingar hefði mátt klippa saman með hríðskotahraða, spila tvisvar og setja svo mynd af Jóni Gnarr með „Simply the Best“ undir til að skapa þá tilfinngu að Sunnudagsmorgun væri áróðursþáttur fyrir Besta flokkinn / Bjarta framtíð.

En aftur að „hinu svokallaða hruni“. Vitanlega mátti flestum vera ljóst að þáttarstjórnandinn hafi, með glotti sínu, loftgæsalöppum og sérstöku tónfalli gefið mjög augljóslega til kynna að hann væri að grínast. Og þáttarstjórnandinn hefur þar að auki ítrekað það síðar meir. En þá virðast margir, sem nú þurftu að réttlæta sína óréttlátu reiði, hafa tekið þá línu að það væri einhvern veginn „rangt að gera grín að hruninu.“ Það er nú magnað, ætli við fáum þá ekki lagagreinar um „hrunlast“? Eða kannski verður það að móðga tilfinningar fólks sem tók þátt í mótmælunum 2008-9 flokkað sem „hatursræða“?

Því einhvern veginn tókst mönnum að komast að þeirri niðurstöðu að einn og sami þátturinn hafi bæði verið glataður, því hann var allt of léttur og ógagnrýninn, og um leið glataður því hann gagnrýndi eitthvað sem þeim fannst. Af þessum tveimur gagnrýnisröddum get ég frekar tekið undir þá fyrri. Mér finnst „við ætlum að hafa þetta létt og skemmtilegt“ ekki endilega besta uppleggið að sjónvarpsþætti.

Þetta er reyndar þekkt meinloka, að halda að fólk hati pólitík en elski „léttu nóturnar“. Ég er stundum í útvarpi og þegar búið er að tala um niðurskurð til spítala segir einhver þáttarstjórnandi stundum: „Jæja, tölum nú um eitthvað skemmtilegt, hvað finnst ykkur fallegasta íslenska orðið vera?“ En reyndar er það svo að mér finnst mjög skemmtilegt að tala um pólík, en um flest sem er „skemmtilegt“ finnst mér frekar leiðinlegt að tala.

Ég held reyndar að sumt fólk sem vælir út af fjölmiðlaumfjöllun verði að slá sjálft sig utanundir. Því sömu menn og konur sem kvarta undan gagnrýnisleysi fjölmiðlanna virðast svo, ef eitthvað er að marka það sem þau pósta á fésinu, helst vilja horfa á viðtöl þar sem fólk sem þau eru í einu og öllu sammála fær að tala án nokkurs aðhalds frá blaðamanninum. Segja svo hluti eins og „Ólafur góður!“ eða „af hverju leyfði Helgi honum ekki að tala heldur var alltaf að ráðast á hann?“

***

Nú má auðvitað finna eitthvað að því menn detti úr pólitík í sjónvarp einn, tveir og bingó. Hitt er þó annað mál að það er þó allavega vitað hvað viðkomandi stendur fyrir. Menn geta sett hans/hennar yfirlýsingar í gegnum einhverja síu og athugað hvort einhver viðmælendaskekkja sé til staðar (þótt líka verði að hafa í huga að gestir og viðmælendur tala fyrir sínum skoðunum og vera þeirra í þáttum er ekki til marks um að þáttarstjórnandanum líka viðhorf þeirra). En það fullt af öðru efni sem rúllar um opinbera miðla undir merkjum hlutleysis og hreinnar fagmennsku þótt það sjónarhorn sem þar birtist er í engu minna pólitískt, og oft miklu meira.

Ég get til dæmis nefnt ansi marga Spegilsþætti á RÚV í þessu samhengi. Til dæmis einn þátt í seinustu viku þar sem fullyrðingin „Lýðræði er að víkja fyrir auðræði“ var látinn hljóma eins og staðreynd á borð við þá að það hafi hægst á möndulsnúningi jarðar. Já, og inn á milli þess spiluðu menn klippur með næstofmetnasta lagi Pink Floyd, „Money“. Ég hafði svo sem alveg gaman að þessari umfjöllun, þessari ítarlegu lýsingu á lífsviðhorfum Occupy hreyfingarinnar, klæddri í fréttaskýringarbúning. Og þótt að ég hafi af því áhyggjur að aðrir hlusti ekki alltaf á Spegilinn með sama gagnrýna hugarfari og ég, þá efast ég um að ég myndi bjóða fram krafta mína í stjórn RÚV í því skyni að koma þeim ágæti þætti frá.

Því ég hef ekki endilega þá kröfu á ríkisfjölmiðil að þar starfi einungis fólk sem ég er sammála, og að það fólk tali einungis við fólk sem ég er sammála. Og að enginn á öldum ljósvakans hæðist nokkurn tímann að neinu sem mér þykir skipta máli.