Einn dagur í stjórnmálum er þúsund ár

800px-Jon-gnarr-2011-ffm-116

Mér finnst Jón Gnarr hafa verið borgarstjóri stutt.

***

Hæ!

Hæ?

Æi þú manst örugglega ekki eftir mér. En þú kenndir mér einu sinni.

Í HR?

Nei, í Hagaskóla.

Já, ókei. Já sorrý, ég bara kem nafninu ekki fyrir mér… Þú heitir aftur?

***

Samband kennara og nemanda er mjög ósamhverft. Ég man flesta kennara sem ég hef haft. Flestir muna örugglega flesta þá kennara sem hafa kennt þeim. Eða alla vega meirihluta þeirra. Ég get bókað að það er því miður ekki þannig í hina áttina. Kennarar eru stærri hluti af lífshlaupi nemenda sinna en öfugt.

***

Samband stjórnmálamanna við kjósendur er líka ósamhverft. En samt á dálítið ólíkan hátt. Tíminn líður allt öðruvísi.

***

Mér finnst Jón Gnarr hafa verið borgarstjóri stutt.

***

Ég tók þátt í kosningabaráttu gegn Jóni Gnarr 2010. Hringdi í hundruð Reykvíkinga og talaði við þá um strætó og hjólastíga. Varaði þá við að gera einhverja vitleysu. Mér finnst óralangt síðan. Síðan missti ég vinnu. Svo fór ég í kosningabárattu sjálfur. Var í stjórnlagaráði í fjóra mánuði. Mér fannst ég vera þar í mjög langan tíma. Seinni hluta þess tíma var ég nánast ekkert heima. Þetta er skeið í lífi mínu. Tekur stærri part minninganna en fjórir mánuði einhvers staðar annars staðar.

Svo hætti ráðið og ég flutti til Póllands, bjó þar í nokkra mánuði. Setti son minn í leikskóla. Hélt uppi vefsíðu. Fór í mörg hlaup. Heimsótti ættingja. Ég flutti heim fyrir hálfu öðru ári. Mér finnst langt síðan ég var í Póllandi.

En mér finnst samt að Jón Gnarr sé búinn að vera borgarstjóri stutt.

***

Þetta er bara hugleiðing. Sérstaklega í ljósi þess að það er alltaf fólk að leggja til að maður fari í stjórnmál og maður er alltaf að leggja það til við annað fólk. Að ef maður ætlar að hella sér í þetta þá þarf maður líklegast að gera þetta í alla vega áratug.  Sem er ótrúlega langur tími í manns eigin ævi. En furðulega stuttur tími í ævi einhvers annars.

Leave a Reply

Your email address will not be published.