Lýðræðið getur margt

Eftirfarandi sýnir Gini-stuðul fyrir Ísland að undanförnum árum. Stjórn tók við sem vildi minnka ójöfnuð og ójöfnuður hrundi.

gini-coefficient-of-equivalisedKannski var þetta algjör tilviljun. En samt: menn settu á fjölþrepa skattkerfi, bættu við böntsj af sköttum, til dæmis eignarskatti og margt svoleiðis. Ég er ekki að segja að ég hafi verið fylgjandi þessu öllu. Í raun ekkert sérstaklega. En mig langaði samt að benda á það. Lýðræðið getur margt.

Stundum verða einhverjir málaflokkar útundan og stundum svo útundan að einhver ákveður að bjóða fram með þann málaflokk að leiðarljósi. Þannig fengum við kvennaframboð, svo græningja, og nú pírata. Og ég held að allt þetta fólk hefur gert málstað sínum meira gagn heldur en allir sófabyltingarsinnar heimsins samanlagt. Því maður getur gert gagn í stjórnmálum, þó að maður þurfi stundum að óhreinka mannorð sitt.

Í grein sinni í New Statesman segir Russell Brand meðal annars “að eins og flest fólk” álíti hann stjórnmálamenn svikara og lygara. Nú get ég bara talað fyrir sjálfan mig og veit ekki hvort tilgátan um að þetta sé skoðun “flests fólks” sé rétt. Það má alveg vera. Til eru vinsælli stéttir.

Hins vegar held ég að þetta með lygarana og svikarana sé eiginlega ekki rétt. Stjórnmálamenn standa til dæmis almennt við loforð sín. Sjálfstæðisflokkurinn lofaði á sínum tíma að einkavæða og lækka skatta. Samfylkingin lofaði að sækja um aðild að ESB og sótti um aðild að ESB. Framsókn lofaði að gefa skuldurum peninga. Ég er ekki hræddur um að þeir reyni að svíkja það, heldur að þeir reyni að standa við það. Það er full ástæða fyrir mig til að óttast það, því stjórnmálamenn standa ansi oft við orð sín.

***

Ég skal fúslega játa eitt. Ég hef almennt frekar samúð með stjórnum og stjórnmálamönnum heldur en hitt. Þannig hataði ég alls ekki seinustu ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar, mér finnst Besti flokkurinn gera margt fínt í Reykjavík og finnst fyrstu fjárlög þeirra Bjarna og Sigmundar bara helvíti fín líka. Ef ég á að nefna stjórnir sem ég hef verið virkilega-virkilega fegin að losna við þá verð ég eiginlega að líta til annarra landa.

Stjórn Laga og réttlætis og nokkurra hægri-leppflokka í Póllandi 2005-2007 var dæmi um slíka: Hún var of langt til rugl-hægri í lífsskoðunarmálum og ég var virkilega glaður þegar hún fór frá. En þegar forsetinn, Lech Kaczyński, sem tilheyrði þessum sama flokki hrapaði til jarðar hjá Smolensk, í apríl 2010 þá hljóp ég heim af Klambratúninu og grét. Mér fannst þetta mjög leiðinlegt. Leiðinlegur dagur fyrir lýðræðið. Mér fannst leiðinlegt að sjá svona marga stjórnmálamenn deyja. Það segir eflaust eitthvað um mig, fjórflokksklappstýruna.

***

Mig skortir kannski ímyndunarafl en ég á margfalt auðveldara að sjá að eitthvað sé góð hugmynd ef það hefur þegar verið reynt annars staðar. Ég veit til dæmis að við gætum leyft Íslendingum að kaupa erlent kjöt því fólk í útlöndum kaupir erlent kjöt og deyr ekki af því. Það var auðvelt fyrir fólk í löndum austan járntjaldsins að átta sig að betri valkostur við þeirra kerfi var til. Ég á bara mjög erfitt að sjá fyrir mér að lýðræðið sé það rotið og að það augljóst sé að eitthvað betra sé til að við þurfum að henda núverandi skipulagi út um gluggann. Mér finnst þetta kerfi satt að segja bara ansi fínt. Og á skilið virðingu.

Það er auðvelt að benda á þá holu í þessari röksemdarfærslu minni að ef allir gerðu bara það sem áður hafði verið reynt einhvers staðar þá myndi engin þróun verða. En þá finnst mér munur á því að vilja breyta einhverju, jafnvel eða vilja gefa því undir fótinn að maður eigi að taka besta kerfið sem upp hefur verið fundið í þágu einhverra útópíu sem maður hefur ekki enn ákveðið hver eigi að vera. Og ef leita á að slíkri útópíu þá held ég að “stórfelld endurúthlutun auðs í kjölfar byltingar” sé ekki endilega augljósasti staðurinn til að byrja á.

 

One thought on “Lýðræðið getur margt

  1. Það er villandi að bendla hrun Gini stuðulsins árið 2008 við e-s konar lýðræðisbreytingar hér á landi. Líklegra er að hrun Gini stuðulsins endurspegli fremur mikla tekjulækkun (eignalækkun?) þeirra sem áttu bólueignir fyrir hrun. Skv. myndinni jókst ójöfnuður á ný 2011.

    Ástand lýðræðis er verra í mörgum öðrum ríkjum en hérlendis. Það breytir því ekki að þegar litið er til stjórnmálasögu Íslands virðist vera sem svo að lýðnum sé að mestu leyti stjórnað með blekkingum í gegnum handstýrða flokksfjölmiðla – og að svoleiðis hafi það ávallt verið. Samtrygging fjögurra stærstu flokkana gengur út á að moka arði náttúruauðlinda eins mikið upp á “sérhagsmunadiskinn” sinn á kostnað almennings. Hvernig á að annars að útskýra það að vestræn þjóð sem á einna verðmætustu auðlindir heims per íbúa (fiskur, orka, vatn og náttúra) skuli ekki njóta þess í meira mæli?

    Nú til dags stjórnast stjórnmál margra vestrænna ríkja, þ.á.m. hér á landi, af hagsmunum fjármálaaflsins, sem heldur raunverulegum hagkerfum (raunverulegri framleiðslu) í gíslingu með yfirskuldsetningu einkageirans og hins opinbera. Fjármálaaflið ræður og þessa stundina versna hlutirnir jafnt og þétt á Vesturlöndum, líkt og raunin hefur verið sl. fimm ár. “Stórelld endurúthlutun auðs” á sér stað í mun meira mæli á Vesturlöndum heldur en mikill meirihluti fólks heldur, þori ég að fullyrða. Sú endurúthlutun felst einna helst í ábyrgð ríkisins á fjárhættuspili fjármálaaflsins á kosnað raunverulegrar framleiðslu og þar með tekjum venjulegs fólks.

    Í mörgum vestrænum ríkjum virðist lýðræði hægt og rólega vera á undanhaldi og virðist vera sem svo að ekki verði aftur snúið fyrr en sófabyltingarsinnar standa upp úr sófanum. Þannig hættir þessi stórfellda endurúthlutun auðsins.

Leave a Reply

Your email address will not be published.