Russell Brand hafnar fjórflokknum

391px-Russell_Brand_Arthur_Premier
CC-BY-SA 2.0 Eva Rinaldi

Grínistinn Russell Brand fór í viðtal hjá Paxman og sagðist ekki kjósa því allir flokkar væru í raun eins.

Þessari afstöðu fögnuðu rótttækir lýðræðissinnar hér á Íslandi sem annars staðar.

Einhverjum gæti þetta þótt mótsagnakennd afstaða en er í rauninni bara spurning um mismunandi orðanotkun. Ég hef orðið var við að sumir menn noti orðið lýðræði á dálítið sérstakan hátt. Það fyrirkomulag sem við búum við flokkast varla sem lýðræði í þeirra huga. En ef fyrirtæki væru alltaf í eigu starfsfólks – það væri lýðræði. Það tók mig smá tíma að átta sig á að þetta væri frekar klókt rebranding. Ég meina, ég veit ekki hvort Félag ungra Marx-Lenínista fengi oft að koma í útvarpið að ræða sínar efnahagshugmyndir. En ef maður eru svona róttækur lýðræðissinni, þá hvers vegna ekki? Svo fara menn að tala um að starfsfólk verði að eiga fyrirtækin, einka-eignarrétturinn sé of sterkur og fulltrúalýðræðið komið á endastöð. Og sumum finnst þetta meira að segja pinku ferskt.

Hér er smá orðabók sem hefur hjálpað mér þegar ég hef lesið texta frá Öldunni/Róttæka sumarháskólanum/99%/Occupy, og þessum ágætu hreyfingum.

[table]
það sem ég kalla, kalla þeir
lýðræði, svokallað lýðræði
marxisma, lýðræði
[/table]

Ég með díl. Ég skal hér eftir bara kalla mitt lýðræði “svokallað lýðræði” ef vinir mínir, róttæku lýðræðissinnarnar kalla sitt lýðræði einfaldlega “marxisma”. Svona til að við séum ekki með óþarfa hugtakarugling.

***

Aftur að Russell Brand. Þetta er þekktur söngur: “Kerfið er rotið. Allir stjórnmálamenn eru eins.  Við þurfum nýtt kerfi. Við þurfum ekki meira af því sama. Við þurfum BYLTINGU. Við þurfum endurúthlutun eigna, veikingu eignarréttarhugtakssins, svo það þjóni venjulegu fólki, ekki fyrirtækjum og stóreignarmönnum. Við þurfum raunverulegt málfrelsi, ekki málfrelsi auðmanna, gegnum fjölmiðla sem þeir reka í sína þágu. Og svo framvegis.”

Í íslensku hafa menn búið til orðið “fjórflokkurinn” til að ná utan um þessa gremju en svipuð orð er að finna víða. Hún lýsir þeirri hugmynd að í raun sé tilgangslítið að kjósa. Ef það væri, það eina þá væri mér svo sem sama. Meiri völd fyrir okkur sem kjósum. En felist í þessu tilraun til að planta þeirri hugmynd að aðrar leiðir til kerfisbreytinga séu í boði þá ætti allt hugsandi fólk að rísa á afturlappirnar.

***

Nú er auðvitað vert að athuga að þessi umræða er ekkert ný. Hún minnir á  umræðu sem átti sér stað í Evrópu fyrir 100 árum. Þá voru til þeir vinstrimenn (sósíaldemókratar) sem vildu vinna að sínum stefnumálum í gegnum hið “svokallaða lýðræðisfyrirkomulag” og svo voru hinir vinstrimennirnir (kommúnistar) sem vildi það ekki heldu vildu byltingar og marxisma.

Sagan geymir auðvitað ákveðinn dóm yfir þessum tveimur hreyfingum. Og jafnvel ef við leyfum okkur að taka allan viðbjóðinns sem frá kommúnistum kom út fyrir sviga, og ímyndum okkur einhvern veginn að hann hafi verið mistök síns tíma sem verða ekki endurtekin þá er samt ekki erfitt að svara þvi hvort betra hafi verið að vera verkamaður í þeim löndum þar sem kommúnistar höfðu náð völdum eða í þeim löndum þar sem lýðræðislega kjörnir stjórnmálamenn réðu ríkjum.

Kannski má þá segja að þessi ríki hafi ekki verið “alvöru” marxísk ríki út af hinu og þessu. Ég veit það ekki. Læknisþjónusta var ókeypis, menntun var ókeypis, fyrirtækin flest í eigu hins opinbera.  En þessi samfélög veittu einfaldlega verri þjónustu en hin vestrænu (svokölluðu) lýðræðisríki. Þess vegna var fólksflóttinn allur á eina leið.

***

Sumir segja að Russell Brand hafi allavega hitt naglann á höfuðið hvað ástandið varðar. Ég veit það ekki. Er hægt að segja bara sísvona að kerfið sé ekki að virka? Ég meina fólk er alltaf að lifa lengur. Lífsgæði hafa vaxið gríðarlega um allan hinn vestræna heim. Allt innan hins rotna “svokallaða lýðræðis”.  Og eru svona fullyrðingar svo eitthvað merkilegar? Er þetta bara ekki eins og þegar spákonan segir: “Þú reifst stundum við foreldra þína þegar þú varst unglingur.” Hvenær mun einhver þá segja: “Kerfið virkar. Samfélagið gegnur vel?”

Ég hef áhyggjur af orðræðu Russells Brands. Hann lítur framhjá þeirri sögulegu staðreynd að ótrúlegir hlutir geta náðst og hafa náðst í gegnum “hið svokallaða lýðræði” líka í baráttu fyrir jöfnuði/aðgang að menntun/umhverfisvernd og öllu því sem mönnum finnst skipta máli. Og ef maður hafnar því að það sé þess virði að fara þá leið, leið “hins svokallaða lýðræðis” til að breyta hlutum þá er maður um leið að opna á aðrar leiðir. Og hvaða leiðir eru það? Og eru það góðar og geðslegar leiðir?

7 thoughts on “Russell Brand hafnar fjórflokknum

  1. ” Lífsgæði hafa vaxið gríðarlega um allan hinn vestræna heim. Allt innan hins rotna “svokallaða lýðræðis”.”

    Nokkrar spurningar varðandi þetta:

    Hvað með lífsgæði í þróunarlöndunum?
    Eru lífsgæðin næg eða viljum við auka þau enn meir?
    Eigum við rétt að ganga á plánetuna eins og við höfum gert síðustu ár til þess að auka lífsgæði okkar enn meira?
    Hversu langt getum við gengið í að auka lífsgæði okkar án þess að eyðileggja búsvæði okkar og annarra tegunda sem hýsa jörðina?

    Málið er, og það er það sem ég tel Russel Brand koma inn á, að núverandi efnahagskerfi er óréttlætanlegt vegna þess að það ýtir undir ofneyslu auðlinda jarðar. Þess vegna þurfum við nýtt kerfi sem tekur umhverfið með í reikningin og stuðlar þannig að sjálfbærri nýtingu auðlinda.

    Umhverfið er því ný breyta sem kemur inn í dæmið. Þess vegna þurfum við að aðlagast því og skapa nýtt kerfi.

    1. Sæll Jóhann, takk fyrir athugasemdirnar. Hér er smá graf sem sýnir fátækt í heiminum eftir löndum… Þetta er óttarlegt kraðak kannski, ein heildartrendið er samt nokkuð ljóst… þetta liggur allt niður á við:

      https://datamarket.com/data/set/15nn/poverty-headcount-ratio-at-national-poverty-line-of-population#!ds=15nn!hoa&display=line

      Þannig já, lífsgæði í þróunarlöndunum hafa líka aukist töluvert. Sem er kannski eilítið þvert á þá skoðun að lífsgæði okkar á vesturlöndum hljóti að eiga sér uppruna í arðráni einhvers annars.

      Varðandi umhverfismálin þá er þar vissulega ýmislegt sem má hafa áhyggjur af. Auðvitað er það alltaf eitthvað sem maður þarf að vega og meta. En þá segi ég bara aftur, hugmyndi eins og umhverfisvernd finna sér leið í stjórnmálin í lýðræðisfyrirkomulagi, þannig held ég til dæmis að græningjar í þýskalandi hafi gert margt fyrir málstaðinn, á meðan stjórnvöld í A-Evrópu voru flest hinir mestu umhverfissóðar.

      Hér er vitanlega auðvelt að fyllast óþolinmæði og vilja “eitthvað annað” en það er bara ekkert sem bendir til að þetta eitthvað annað, sem krefst þess að bylting sé gerð í upphafi verði eitthvað betra. Reynslan sýnir annað.

  2. Lífsgæði í þróunarlöndunum hefur aukist gríðarlega mikið… þá sérstaklega í þeim löndum sem hafa tekið þátt í alþjóðavæðingunni.
    Norður Kórea situr reyndar eftir með sárt ennið.
    Enda stiður N-Kórea ekki okkar “kerfi”…. þeir hafa kosið að fara nýja leið. Leið Russel Brand og Dennis Rodman.

  3. Sæll Pawel.
    Ja, sei, sei hér.
    Búinn að lesa pistlinn þinn nokkrum sinnum og ég er eftir nokkra lestra, enn fastari á minni skoðum um þína pólitíska sýn; Þú ert öfgamaður.
    Þú setur hlutunina í öfgahliðar, það er kapítallismi og Marxismi.
    Það var ekki endilega það sem Russel var að tala um. Hann, að minni túlkun, var einmitt að tala um það sem búið að er koma upp hér hægt og rólega undir stjórn FLokksins þíns, tryggja fáum meiri völd og auð á kostnað hinna fleiri. Það er ekki mín samfélagssýn, þó svo að það sé greinilega það sem þú aðhyllist. Greinilega hefur Póllandsuppeldið þitt kallað það fram að best sé að tilheyra flokki sem reynir hvað hann getur að svína á þjóð sinni, græða á sem flestum, færa þjónustu frá ríki yfir til hinna fáu, sem geta svo grætt á hinum fleiri.
    Ég er ekki sósíalisti, ég vil alveg samþykkja að sem flestir ná árangri og fái umbun erfiðis síns, en ég samþykki ekki Kaupþingsæfingar líkt og Kjarninn sagði frá, þó svo að þú virðist samþykkja það með þessari fáranlegu uppstillingu og kalla þá sem vilja breytingar marxisma lýðræði .
    Hvað gengur þér og mörgum FLokksmönnum til eiginlega ? Má alls ekki kalla fram á breytingar sem kunna að vera í andstöðu við vilja litlu valdaklíkunar í Valhöll og í Hádegismóum að allir ganga í takt ? Enn og aftur vísa ég í viðbrögð FLokkksins þíns við viðbrögðum við niðurstöður Stjórnlagaráðs, sem þú sast og samþykktir niðurstöðurnar. Þeim niðurstöðum var hent út um gluggann “hér verða engar breytingar” , “það gæti breytt valdahlutföllum í landinu, óásáttanlegt” Þar var raunverulegt lýðræði á ferð, nei, þá er vaðið í kosningaþáttökuna, af því að hún var ekki yfir 75%, þá var þetta ónýtt. Hvað er í gangi í flokknum þínum “My way or no way” ? Er það þetta frábæra lýðræði sem þú aðhyllist ?
    Uss bara.

  4. Gísli Marteinn er frægur fyrir að tala hratt og mikið en segja frekar lítið. Pawel er frægur fyrir að skrifa langt og mikið en segja frekar lítið í sínum pistlum.

    Veröldin skiptist ekki í marxista og lýðræðissinna. Veröldin er mun flóknari en tveir pólar.

    Pawel talar um að fátækt sé að minnka. Ég get ekki hrakið það, en ég samt dreg það í efa. Sjálfsagt er meðaltalið á uppleið. En getur verið að lítill hópur (kannski 1% manna) eigi svo mikið að það rífi meðaltalið upp? Hvernig hafa hinir það þá?

    Pawel talar um að lífsgæði séu að aukast og færir rök fyrir að við lifum lengur. Lífsgæði og lífslengd er ekki það sama. Hér er örugglega jákvæð fylgni, en ómögulegt að segja hversu mikil nema með ítarlegum rannsóknum.

    Ég er ekki viss um að lífsgæði meginþorra manna séu að aukast, kannski þó að meðaltali. Fer eftir mælingum.

    1. Pétur, fátækt er ekki mæld sem meðaltal tekna heldur hlutfall þeirra sem hafa tekjur undir fátæktar mörkum. Sú tala er á niðurleið í heiminum víðast hvar. http://datamarket.com/data/set/12ok/poverty-headcount-ratio-at-national-poverty-line-of-population#!ds=12ok!dyu&display=line

      Veröldin er flókin… en samt. Annað hvort telur maður koma til greina að kollvarpa núverandi kerfi með byltingu, þ.e.a.s. beinu ofbeldi eða hótunum þar um, eða ekki. Ég vil það ekki. Mér finnst ljótt að hvetja fólk til að kjósa ekki en gefa byltingartali undir fótinn. Mig langar ekki að fara að slást.

  5. Flott hjá þér Pawel. Þú bara slærð um þig í svörum tilbaka. Bara ekki til allra. Vonandi veist þú mismuninn á mismunun og fýlupokahætti.

Leave a Reply

Your email address will not be published.