Einn dagur í stjórnmálum er þúsund ár

800px-Jon-gnarr-2011-ffm-116

Mér finnst Jón Gnarr hafa verið borgarstjóri stutt.

***

Hæ!

Hæ?

Æi þú manst örugglega ekki eftir mér. En þú kenndir mér einu sinni.

Í HR?

Nei, í Hagaskóla.

Já, ókei. Já sorrý, ég bara kem nafninu ekki fyrir mér… Þú heitir aftur?

***

Samband kennara og nemanda er mjög ósamhverft. Ég man flesta kennara sem ég hef haft. Flestir muna örugglega flesta þá kennara sem hafa kennt þeim. Eða alla vega meirihluta þeirra. Ég get bókað að það er því miður ekki þannig í hina áttina. Kennarar eru stærri hluti af lífshlaupi nemenda sinna en öfugt.

***

Samband stjórnmálamanna við kjósendur er líka ósamhverft. En samt á dálítið ólíkan hátt. Tíminn líður allt öðruvísi.

***

Mér finnst Jón Gnarr hafa verið borgarstjóri stutt.

***

Ég tók þátt í kosningabaráttu gegn Jóni Gnarr 2010. Hringdi í hundruð Reykvíkinga og talaði við þá um strætó og hjólastíga. Varaði þá við að gera einhverja vitleysu. Mér finnst óralangt síðan. Síðan missti ég vinnu. Svo fór ég í kosningabárattu sjálfur. Var í stjórnlagaráði í fjóra mánuði. Mér fannst ég vera þar í mjög langan tíma. Seinni hluta þess tíma var ég nánast ekkert heima. Þetta er skeið í lífi mínu. Tekur stærri part minninganna en fjórir mánuði einhvers staðar annars staðar.

Svo hætti ráðið og ég flutti til Póllands, bjó þar í nokkra mánuði. Setti son minn í leikskóla. Hélt uppi vefsíðu. Fór í mörg hlaup. Heimsótti ættingja. Ég flutti heim fyrir hálfu öðru ári. Mér finnst langt síðan ég var í Póllandi.

En mér finnst samt að Jón Gnarr sé búinn að vera borgarstjóri stutt.

***

Þetta er bara hugleiðing. Sérstaklega í ljósi þess að það er alltaf fólk að leggja til að maður fari í stjórnmál og maður er alltaf að leggja það til við annað fólk. Að ef maður ætlar að hella sér í þetta þá þarf maður líklegast að gera þetta í alla vega áratug.  Sem er ótrúlega langur tími í manns eigin ævi. En furðulega stuttur tími í ævi einhvers annars.

Drullaðu bara yfir mig nafnlaust ef þig langar til þess

CC-BY-SA 2.0 Ian Murphy
CC-BY-SA 2.0 Ian Murphy

Nafnleynd er ekki í tísku. „Nafnlaus níðskrif“ er nánast eins og fast orðasamband. Löggjafinn hatar nafnleysi og vildi helst hafa kennitölu fyrir aftan hvert komment, til að menn vissu hver segði hvað.

Það er óheppilegt. Auðvitað má nota það vald til að tjá sig nafnlaust saklausu fólki til skaða. En sama gildir nú um margt, margt annað.

Ég get nefnt fjölmargar ástæður þess að einhver myndi vilja skrifa nafnlaust. Sumar góðar aðrar síðri.

  1. Þú ert stjórnarandstæðingur í harðstjórnarríki.
  2. Þú kennir í 8. bekk og langar ekki endilega að gera helsta stefnumál þitt, lögleiðingu eiturlyfja, að umtalsefni í næstu kennslustund.
  3. Þú ert áhugamaður um erótískar smásögur þar sem Star Trek persónur koma við sögu, en þig langar að ræða um það á næsta jólaglöggi fyrirtækisins.
  4. Þú telur að samkynhneigðir séu syndgarar samkvæmt Biblíunni en þig langar ekki að missa vinnuna.
  5. Þú vilt að umræður snúist um rök þín en ekki þig persónulega.

Rökin geta verið fleiri. En svo lengi sem menn fela sig ekki einungis til að ráðast á saklaust fólk er engin ástæða til að banna mönnum að fara huldu höfði.

Þessi bólusetning samfélagsins gegn nafnleynd er ekki góð. Margt gott hefur verið skrifað undir nafnleynd, oft af neyð. Og þó að ég hafi raunar ögn meira gaman að því að sjá framan í fólk þegar það talar hef ég ekkert á móti nafnlausum kommentum á síðunni minni. Fólk er því frjálst að drulla yfir mig nafnlaust ef það lystir. Svo lengi sem það er „í þágu hóflegra framfara og innan marka laganna“ eins og einn tékkneskur rithöfundur myndi segja.

Of fá sæti í lestinni

Ein stutt saga úr í kommúnistaríki. Sumarfrí er að hefjast. Það fer lest úr bænum á föstudegi. Allir vita að troðið verður í hana. Aðaljárnbrautararstöðin er stöð númer 2 á leið lestarinnar. Sumir bregða á það ráð að labba/taka strætó á fyrstu stöðina í von um að ná frekar sæti.

Rupert Taylor-Price CC-BY-SA 2.0
Rupert Taylor-Price CC-BY-SA 2.0

Þegar lestin rúllar loksins inn á teinana, mörgum mínutum of sein eins og alltaf kemur í ljós að það er þegar fólk í lestinni. Einhverjir ættingjar lestarstarfsmanna höfðu greinilega fengið að fara um borð fyrr.

Mannmergðin á fyrstu stöðinni nær þó að troða sér inn, þótt það fái ekki allir neitt komfý gluggasæti eins og þeir vonuðust eftir. En þegar kemur að aðaljárnbrautarstöð bæjarins geta þeir sem þar standa auðvitað gleymt því að fá far.

Þannig að

  • Þeir sem þekktu til réttra manna  – fengu örugglega far
  • Þeir sem voru duglegir að fylgjast með og mixa – fengu kannski far
  • Þeir sem gerðu eins og þeim var sagt að gera – fengu ekki far

Ef sætin eru færri en fólkið sem í þeim vill sitja mun alltaf einhver vera ósáttur. Ein leið er einfaldlega að hækka verðið. Það vilja menn stundum ekki gera og láta sem þannig muni „venjulegt fólk“ ekki geta keypt sér miða.

En ef fólkið upplifir að kaupferlið sé skakkt hvort sem er, því þeir einu sem komast í lestina eru þeir sem njóta einhverja forréttinda fyrirfram þá upplifir fólk þetta ekki sem niðurgreiðslu til „venjulegs fólks“ heldur sem niðugreiðslu til þeirra útvöldu sem hafa aðgang einhverjum réttindum eða upplýsingum sem aðrir hafa ekki. Og ef menn treysta ekki stjórnvaldinu til að byrja með þá skiptir nú litlu máli hvaða skýringar það gefur á því að kona lestarstjórans hafi flatmagað á fyrsta farrými þegar pöpullinn rúllaði inn. Því þar sem er skítafýla hefur oftast einhver gert í brækurnar.

En nóg um það. Hvað ætli fólk nenni að lesa sögur af lestarferðum í kommúnistaríkjum.

 

Lýðræðið getur margt

Eftirfarandi sýnir Gini-stuðul fyrir Ísland að undanförnum árum. Stjórn tók við sem vildi minnka ójöfnuð og ójöfnuður hrundi.

gini-coefficient-of-equivalisedKannski var þetta algjör tilviljun. En samt: menn settu á fjölþrepa skattkerfi, bættu við böntsj af sköttum, til dæmis eignarskatti og margt svoleiðis. Ég er ekki að segja að ég hafi verið fylgjandi þessu öllu. Í raun ekkert sérstaklega. En mig langaði samt að benda á það. Lýðræðið getur margt.

Stundum verða einhverjir málaflokkar útundan og stundum svo útundan að einhver ákveður að bjóða fram með þann málaflokk að leiðarljósi. Þannig fengum við kvennaframboð, svo græningja, og nú pírata. Og ég held að allt þetta fólk hefur gert málstað sínum meira gagn heldur en allir sófabyltingarsinnar heimsins samanlagt. Því maður getur gert gagn í stjórnmálum, þó að maður þurfi stundum að óhreinka mannorð sitt.

Í grein sinni í New Statesman segir Russell Brand meðal annars „að eins og flest fólk“ álíti hann stjórnmálamenn svikara og lygara. Nú get ég bara talað fyrir sjálfan mig og veit ekki hvort tilgátan um að þetta sé skoðun „flests fólks“ sé rétt. Það má alveg vera. Til eru vinsælli stéttir.

Hins vegar held ég að þetta með lygarana og svikarana sé eiginlega ekki rétt. Stjórnmálamenn standa til dæmis almennt við loforð sín. Sjálfstæðisflokkurinn lofaði á sínum tíma að einkavæða og lækka skatta. Samfylkingin lofaði að sækja um aðild að ESB og sótti um aðild að ESB. Framsókn lofaði að gefa skuldurum peninga. Ég er ekki hræddur um að þeir reyni að svíkja það, heldur að þeir reyni að standa við það. Það er full ástæða fyrir mig til að óttast það, því stjórnmálamenn standa ansi oft við orð sín.

***

Ég skal fúslega játa eitt. Ég hef almennt frekar samúð með stjórnum og stjórnmálamönnum heldur en hitt. Þannig hataði ég alls ekki seinustu ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar, mér finnst Besti flokkurinn gera margt fínt í Reykjavík og finnst fyrstu fjárlög þeirra Bjarna og Sigmundar bara helvíti fín líka. Ef ég á að nefna stjórnir sem ég hef verið virkilega-virkilega fegin að losna við þá verð ég eiginlega að líta til annarra landa.

Stjórn Laga og réttlætis og nokkurra hægri-leppflokka í Póllandi 2005-2007 var dæmi um slíka: Hún var of langt til rugl-hægri í lífsskoðunarmálum og ég var virkilega glaður þegar hún fór frá. En þegar forsetinn, Lech Kaczyński, sem tilheyrði þessum sama flokki hrapaði til jarðar hjá Smolensk, í apríl 2010 þá hljóp ég heim af Klambratúninu og grét. Mér fannst þetta mjög leiðinlegt. Leiðinlegur dagur fyrir lýðræðið. Mér fannst leiðinlegt að sjá svona marga stjórnmálamenn deyja. Það segir eflaust eitthvað um mig, fjórflokksklappstýruna.

***

Mig skortir kannski ímyndunarafl en ég á margfalt auðveldara að sjá að eitthvað sé góð hugmynd ef það hefur þegar verið reynt annars staðar. Ég veit til dæmis að við gætum leyft Íslendingum að kaupa erlent kjöt því fólk í útlöndum kaupir erlent kjöt og deyr ekki af því. Það var auðvelt fyrir fólk í löndum austan járntjaldsins að átta sig að betri valkostur við þeirra kerfi var til. Ég á bara mjög erfitt að sjá fyrir mér að lýðræðið sé það rotið og að það augljóst sé að eitthvað betra sé til að við þurfum að henda núverandi skipulagi út um gluggann. Mér finnst þetta kerfi satt að segja bara ansi fínt. Og á skilið virðingu.

Það er auðvelt að benda á þá holu í þessari röksemdarfærslu minni að ef allir gerðu bara það sem áður hafði verið reynt einhvers staðar þá myndi engin þróun verða. En þá finnst mér munur á því að vilja breyta einhverju, jafnvel eða vilja gefa því undir fótinn að maður eigi að taka besta kerfið sem upp hefur verið fundið í þágu einhverra útópíu sem maður hefur ekki enn ákveðið hver eigi að vera. Og ef leita á að slíkri útópíu þá held ég að „stórfelld endurúthlutun auðs í kjölfar byltingar“ sé ekki endilega augljósasti staðurinn til að byrja á.

 

Russell Brand hafnar fjórflokknum

391px-Russell_Brand_Arthur_Premier
CC-BY-SA 2.0 Eva Rinaldi

Grínistinn Russell Brand fór í viðtal hjá Paxman og sagðist ekki kjósa því allir flokkar væru í raun eins.

Þessari afstöðu fögnuðu rótttækir lýðræðissinnar hér á Íslandi sem annars staðar.

Einhverjum gæti þetta þótt mótsagnakennd afstaða en er í rauninni bara spurning um mismunandi orðanotkun. Ég hef orðið var við að sumir menn noti orðið lýðræði á dálítið sérstakan hátt. Það fyrirkomulag sem við búum við flokkast varla sem lýðræði í þeirra huga. En ef fyrirtæki væru alltaf í eigu starfsfólks – það væri lýðræði. Það tók mig smá tíma að átta sig á að þetta væri frekar klókt rebranding. Ég meina, ég veit ekki hvort Félag ungra Marx-Lenínista fengi oft að koma í útvarpið að ræða sínar efnahagshugmyndir. En ef maður eru svona róttækur lýðræðissinni, þá hvers vegna ekki? Svo fara menn að tala um að starfsfólk verði að eiga fyrirtækin, einka-eignarrétturinn sé of sterkur og fulltrúalýðræðið komið á endastöð. Og sumum finnst þetta meira að segja pinku ferskt.

Hér er smá orðabók sem hefur hjálpað mér þegar ég hef lesið texta frá Öldunni/Róttæka sumarháskólanum/99%/Occupy, og þessum ágætu hreyfingum.

[table]
það sem ég kalla, kalla þeir
lýðræði, svokallað lýðræði
marxisma, lýðræði
[/table]

Ég með díl. Ég skal hér eftir bara kalla mitt lýðræði „svokallað lýðræði“ ef vinir mínir, róttæku lýðræðissinnarnar kalla sitt lýðræði einfaldlega „marxisma“. Svona til að við séum ekki með óþarfa hugtakarugling.

***

Aftur að Russell Brand. Þetta er þekktur söngur: „Kerfið er rotið. Allir stjórnmálamenn eru eins.  Við þurfum nýtt kerfi. Við þurfum ekki meira af því sama. Við þurfum BYLTINGU. Við þurfum endurúthlutun eigna, veikingu eignarréttarhugtakssins, svo það þjóni venjulegu fólki, ekki fyrirtækjum og stóreignarmönnum. Við þurfum raunverulegt málfrelsi, ekki málfrelsi auðmanna, gegnum fjölmiðla sem þeir reka í sína þágu. Og svo framvegis.“

Í íslensku hafa menn búið til orðið „fjórflokkurinn“ til að ná utan um þessa gremju en svipuð orð er að finna víða. Hún lýsir þeirri hugmynd að í raun sé tilgangslítið að kjósa. Ef það væri, það eina þá væri mér svo sem sama. Meiri völd fyrir okkur sem kjósum. En felist í þessu tilraun til að planta þeirri hugmynd að aðrar leiðir til kerfisbreytinga séu í boði þá ætti allt hugsandi fólk að rísa á afturlappirnar.

***

Nú er auðvitað vert að athuga að þessi umræða er ekkert ný. Hún minnir á  umræðu sem átti sér stað í Evrópu fyrir 100 árum. Þá voru til þeir vinstrimenn (sósíaldemókratar) sem vildu vinna að sínum stefnumálum í gegnum hið „svokallaða lýðræðisfyrirkomulag“ og svo voru hinir vinstrimennirnir (kommúnistar) sem vildi það ekki heldu vildu byltingar og marxisma.

Sagan geymir auðvitað ákveðinn dóm yfir þessum tveimur hreyfingum. Og jafnvel ef við leyfum okkur að taka allan viðbjóðinns sem frá kommúnistum kom út fyrir sviga, og ímyndum okkur einhvern veginn að hann hafi verið mistök síns tíma sem verða ekki endurtekin þá er samt ekki erfitt að svara þvi hvort betra hafi verið að vera verkamaður í þeim löndum þar sem kommúnistar höfðu náð völdum eða í þeim löndum þar sem lýðræðislega kjörnir stjórnmálamenn réðu ríkjum.

Kannski má þá segja að þessi ríki hafi ekki verið „alvöru“ marxísk ríki út af hinu og þessu. Ég veit það ekki. Læknisþjónusta var ókeypis, menntun var ókeypis, fyrirtækin flest í eigu hins opinbera.  En þessi samfélög veittu einfaldlega verri þjónustu en hin vestrænu (svokölluðu) lýðræðisríki. Þess vegna var fólksflóttinn allur á eina leið.

***

Sumir segja að Russell Brand hafi allavega hitt naglann á höfuðið hvað ástandið varðar. Ég veit það ekki. Er hægt að segja bara sísvona að kerfið sé ekki að virka? Ég meina fólk er alltaf að lifa lengur. Lífsgæði hafa vaxið gríðarlega um allan hinn vestræna heim. Allt innan hins rotna „svokallaða lýðræðis“.  Og eru svona fullyrðingar svo eitthvað merkilegar? Er þetta bara ekki eins og þegar spákonan segir: „Þú reifst stundum við foreldra þína þegar þú varst unglingur.“ Hvenær mun einhver þá segja: „Kerfið virkar. Samfélagið gegnur vel?“

Ég hef áhyggjur af orðræðu Russells Brands. Hann lítur framhjá þeirri sögulegu staðreynd að ótrúlegir hlutir geta náðst og hafa náðst í gegnum „hið svokallaða lýðræði“ líka í baráttu fyrir jöfnuði/aðgang að menntun/umhverfisvernd og öllu því sem mönnum finnst skipta máli. Og ef maður hafnar því að það sé þess virði að fara þá leið, leið „hins svokallaða lýðræðis“ til að breyta hlutum þá er maður um leið að opna á aðrar leiðir. Og hvaða leiðir eru það? Og eru það góðar og geðslegar leiðir?

Stuðningspistill

5493_110543155825_4898106_nÞað er mikilvægt minnihlutahópar eigi sína fulltrúa í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, og enn sterkara ef þeir fulltrúar leiða listann, það sýnir breidd flokksins.

Þess vegna finnst mér frábært að Hildur Sverrisdóttir, vinkona mín, sé að gefa kost á sér í oddvitasætið í prófkjöri sjálfstæðisflokksins. Kúl fólk hefur lengi átt erfitt uppdráttar í stjórnmálum, sérstaklega á hægrivængnum.

Samkvæmt, Zappa – félagi kúl sjálfstæðismanna, voru einungis 2-3% fulltrúa á seinasta landsfundi Sjálstæðisflokksins kúl. Það er áhyggjuefni í ljósi þess að talið er að um 12-15% prósent fólks er kúl á hverjum tíma, svo ljóst er að þeir sem eru kúl eiga undir högg að sækja innan flokksins.

Nú mun auðvitað einhver gagnrýna mig fyrir að vilja kjósa Hildi bara út af því að hún er kúl. Sérstaklega er líklegt að þeir sem eru ekki kúl, eða hafa alltaf kosið fólk sem ekki er kúl komi með þennan punkt, því fyrir þeim er ekki-kúl normið en kúl frávik. Fjölmiðlar kynda að einhverju leyti undir þetta með því að taka almennt ekki viðtöl við kúl fólk nema þegar  rætt er um einhver kúl málefni. Jújú, það er talað við kúl fólk fyrir Airwaves en það er sjaldgæft að maður heyri kúl fólk tjá sig um atvinnumál eða skatta. Þessu þarf líka að breyta.

Kúl sjálfstæðismanneskja hefur ekki orðið borgarstjóri í Reykjavík síðan Auður Auðuns gengdi embættinu fyrir rúmri hálfri öld síðan. En jafnvel þá sinnti Geir Hallgrímsson embættinu með henni, svo óvanir voru menn greinilega þeirri tilhugsun að einhver sem væri kúl gæti séð um þetta sjálfur. Síðan þá hefur auðvitað margt vatn runnið til sjávar og nokkrir töff borgarstjórar hafa setið í stólnum, en enginn þó sem beinlínis var kúl. Á þessu getur loksins orðið breyting. Það er gaman. Og það er kúl.