Sjálfskoðun í þrívídd

Djöfull verður gaman þegar almennilegir þrívíddarskjáir detta á markaðinn.

Jólin nálgast óðfluga. (Já, fýlupúkarnir ykkar.) Jólin eru gjarnan tími sjálfskoðunar. Um seinustu jól skoðaði ég sjálfan mig í endurvarpi á skjá á lítilli leikjatölvu sem ég hafði fengið í jólagjöf.

Spegilmyndin var auðvitað þrívíð, eða virkaði þrívíð í það minnsta. Góður spegill er eins framlenging á raunveruleikanum, þess vegna má sjá stundum sjá fólk sem er utan við sig rekast á vel pússaða spegla. Og þess vegna setja menn spegja á herbergi til að láta þau líta út stærri en þau eru. Speglar eru þrívíddarskjáir. Vissulega takmarkaðir sem slíkir því þeir sýna bara það sem þeir sjá.

Tölvan sem ég fékk var raunar eins konar þrívíddartölva. Ef maður stingur hausnum á sérstakan stað, stillir einn rofa og heldur höfðinu sæmilega kyrru fær maður einhvers konar þrívídd. Þetta virkar í raun þannig að út hverjum pixel berast tveir straumar af ljóseindum. Einn í hvort augað. Heilinn lætur stundum platast.

En þetta er ágætt. Nú erum við komnir með skjái þar sem hver ljóspunktur getur sent ljóseindir í tvær áttir. Einhvern tímann á næstu árum verðum við þá komnir með skjái þar sem hver punktur getur sent ljóseindir í hvaða átt sem er, allan hringinn. Þar með fáum við skjái sem eru jafngóðir í að feika þrívídd og speglar. Djöfull verður það kúl.

Ég sé fyrir mér stóran vegg í einhverju malli þar sem menn feika þrívíddarmynd af öðrum stað í heiminum. Barn í Reykjavík veifar til barns í Kuala Lumpur. Allt í þrívídd. Djöfull verður það kúl.

Litli fuglinn

Einu sinni var lítill fugl. Litli fuglinn elskaði allt sem var lítið. Hann elskaði skoða lítil blóm, að hreiðra um sig í lítlum trjám og að borða litla orma. En mest af öllu elskaði litli fuglinn lítil ríkisafskipti. Hann kallaði sig oft frjálshyggjufugl, og hann dreymdi um heim þar sem hið opinbera væri lítið. Jafnlítið og hann.

Litli fuglinn var samt ekki lítill í anda. Eins og aðrir litlir fuglar elskaði hann að fljúga. Hann flaug oft, mikið og hátt. Og þegar litli fuglinn flaug hátt þá sá hann jafnvel stærstu hús urðu lítil, rétt eins og hann. Þetta gladdi mjög lund litla fuglsins. Að sjá að ekkert væri stórt eða lítið í sjálfu sér, heldur væri allt spurning um sjónarhorn.

Litli fuglinn hóf sig oft til lofts á rúmgóðum grasbala, rétt hjá hreiðrinu sínu. Hann elskaði þennan grasbala. Þetta var grasbalinn hans. Hann var auðvitað ekki “hans” í eignarréttarlegum skilningi. Í raun og veru átti hið opinbera balann. En þetta var samt eiginlega grasbalinn hans. Ég meina, hann bjó nálægt honum og notaði hann í það sem hann elskaði mest. Þannig “hans”.

En dag einn ákvað hið opinbera að selja grasbalann og leyfa einkaaðilum að byggja þar hús. Það fannst litla fuglinum bæði vont og leiðinlegt. Ekki bara út af sér heldur líka út af öðrum fuglum sem þurftu að nota grasbalann eins og hann. Í því augnabliki gleymdi fuglinn því að hann vildi hafa ríki lítið og vildi hann hafa grasbalann í almannaeigu, til að markaðurinn léti hann í friði. Og til þess að hann og aðrir litlir fuglar gætu notið hans, flogið um frjálsir og stórir.

Því kannski þótti litla fuglinum þrátt fyrir allt ekki svo mikilvægt að ríkið gerði lítið, heldur að ríkið gerði lítið fyrir aðra. Aðra en litla fugla eins og hann. En þótt einhver gæti haldið að þetta sé skrifað litla fuglinum til háðungar, þá er það ekki svo. Því ég skil ágætlega að litlir fuglar vilji fá að fljúga um frjálsir, helst með sem minnstum tilkostnaði. Og auðvitað þykir mér vænt um fugla. Líka þessa smáu.

Þökk sé ferðamönnum

“Borgarbragurinn í Reykjavík ber fless glögg merki, að fjöldi erlendra ferðamanna heimsækir okkur þessa dagana. Fjölmennastir eru þeir hópar, sem koma með skemmtiferðaskipum. Svo mjög hafa þessir hópar sett svip á bæinn, að suma daga hefir virzt sem annar hver maður sem maður sér í miðborginni sé útlendur ferðamaður.”

Umræddur texti er fenginn úr blaðinu Vísi og birtist hann 13. júlí 1967. En ekkert, að zetunni undanskildri hindrar að hann hefði getað birst [birzt] í dag. Sé hangið á timarit.is má sjá sömu þemu sem endurtaka sig ár eftir ár þegar rætt er um fjölda ferðamanna: 1) Menn undrast hálfpartinn á því fyrir sér hve margir ferðamennirnir seú orðnir. 2) Menn fagna gjaldeyristekjunum. 3) Hafa áhyggjur af átroðningnum á helstu nátturuperlur.

En fjöldi erlendra gesta á Íslandi hefur samt tuttugufaldast frá því að að orðin að ofan voru sett á blað: Sjá hér: http://data.is/14IjiNh
***

Ég var að hanga með sonum mínum á túni í Hlíðunum þegar ég sá nokkra menn, karlmenn á miðjum aldri í labbitúr. Þeir fylgdust með tilraunum okkar til að að skjóta teygjutrekkjarðri leikfangaflugvélinni sem lengst yfir grasbalann. Þeir skiptu á milli sín nokkrum, sæmilega hlýjum orðum, um þessa iðju okkar. Á íslensku.

Ég fór að hugsa… Hvernig þekkir maður útlending í Reykjavík? Jú, hann er labbandi. Jú jú, svo er hann líka oft með bakpoka og stundum með landakort. En þó hann glápi ekki á götuskilti þá er hann oft auðþekkjanlegur engu að síður. Því hann labbar í stað þess að keyra.

Maður hefur vissulega séð Íslendinga skokkandi eða hjólandi. Stundum má sjá íslenskar mæður og íslenska feður með barnavagna eða íslensk hjón í labbitúr.Einstaka sinnum má sjá Íslendinga með innkaupapoka, en bara niðri í bæ. En fjórir fertugir edrú íslenski karlmenn í Hlíðunum. Það er nýtt.

Þetta fær mann reyndar til að átta sig á því þvílík vítamínssprauta fyrir allt mannlíf ferðamenn geta orðið. Þeir labba í stað þess að keyra. Þeir borða á veitingastöðum. Þeir skoða söfn. Þeir versla mat í allt of dýrum búðum. Og stundum gera þeir kröfur um að eitthvað sé smekklegt. Sem er gott.

Það eru ekki mörg ár síðan þeir sem ferðuðust um Ísland gátu helst valið um það hvort þeir vildu fá kokteilsósu með hamborgaranum eða ekki. Þetta horfir nú allt til batnaðar. Á Ísafirði, þar sem þessi orð vpru skrifuð, taldi ég minnst sex veitingastaði. Svona með staði vínveitingaleyfi og kvöldmatseðil. Það er mjög jákvætt.

Í Reykjavík keyrir djammlífið nú á tveimur vöktum. Margir Íslendingar mæta, líkt og áður, ekki í bæinn í þann fyrr en RÚV spilar útvarpsfréttir í dagskrárlok. En sé Laugavegurinn genginn um sjöfréttaleytið má sjá hóflega drukkið fólk í flís og polýester leitandi að hótelinu sínu eða pítsusneið.

Ég segi: “Takk, ferðamenn”. Og þá meina ég ekki fyrir gjaldeyrinn. Nóg er röflað um þennan fríkings gjaldeyri. Takk fyrir að gera Ísland örlítið meira klassý.

Takk M.

Það er afgreiðslukona í Bónus í Kringlunni sem raðar alltaf í poka fyrir mig. Svona eins og gert er í Ameríku. Hún leggur sig líka fram við að tala við útlendinga á ensku. Hún býður alltaf góðan daginn og kveður alltaf líka. Ég veit ekki hvort hún sé alltaf glöð, en hún brosir allavega þegar viðskiptavinir eru nálægt.

Einhvern veginn hefur þessi afgreiðslukona ákveðið að leggja á sig aukakrók til að láta manni líða betur. Því manni líður sannarlega betur ef maður lætur einhvern hafa pening og finnst að einhver kunni að meta það. Ég segi ekki að ég vísvitandi raði mig í röðina á kassann sem hún afgreiðir, maður vill ekki vera krípí. En ég er alltaf glaður ef það lendir þannig.

Kannski er hluti af ástæðu þess að fólk endist ekki lengi í afgreiðslustörfum að menn haldi að það kunni enginn að meta störf þess og að eigendur verslana átti sig ekki nógu vel á hve miklu góður afgreiðslumaður skila í kassann. Þess vegna ætla ég að óska öllu afgreiðslufólki til hamingju með daginn. Og þá sérstaklega þessari vingjarnlegu konu í Bónus í Kringlunni. Sem raðar svona fallega í poka fyrir mig.