Rétta röðin

Þar sem ég beið í prófkjörsröð benti kona á fjögurra ára gamlan son minn og sagði: “Duglegur að bíða í röð þessi.” Skömmu síðar rann það upp fyrir mér að ég hef aldrei verið fjögurra ára að bíða með foreldrum mínum eftir að fá að kjósa. Þeirra biðraðir voru flestar eftir skömmtunarmiðum.

Maður yrði þreytandi ef maður gerði ekkert nema að þakka fyrir það sem er sjálfsagt og minna aðra á að þakka fyrir það sama. En það er allt í lagi að gera það stundum: Vera þakklátur fyrir að fá að kjósa og fyrir að fá að kaupa nautahakk án skömmtunarmiða. Það rifjar það líka upp að ekkert er sjálfsagt nema að þeim finnist það sjálfsagt sem því ráða. Mér finnst til dæmis sjálfsagt að kaupa kjöt frá útlöndum og bjór í búðum. En það er ekki öllum sem finnst það sjálfsagt.

Í prófkjörinu kaus ég Teit Björn Einarsson, skólabróður minn og félaga hér á Deiglunni. Um langflest erum við Teitur sammála þótt einstaka hlutir falli í annan flokk. En við erum alltaf sammála um það sem er og á að vera sjálfsagt. Þess vegna kaus ég hann. Það var sjálfsagt.

Ég hef kosið í á þriðja tug lýðræðislegra kosninga frá því að ég hef mátt það. Á mínum aldri höfðu foreldrar mínir líklegast ekki kosið í neinni slíkri. Ég verð þess vegna alltaf glaður þegar ég fæ að henda seðli í kassa og veit að hann verður talinn. Því það er svo sjálfsagt, en samt ekki.

Leave a Reply

Your email address will not be published.