“Enn að væla út af Helförinni”

Stefán Ólafsson prófessor ritar undarlegt greinarkorn á vefsvæði sitt á Pressunni þar sem hann gerir sér mat úr því að fólk tali enn um það að kommúnisminn hafi verið vond stefna. Ég meina hvað er að fólki, það eru heilir tveir áratugir liðnir!

Stefán segir meðal annars. „Maður hélt þó samt að búið væri að kveða þennan draug niður í okkar heimi, með hruni Sovétskipulagsins um 1990. Margir stuðningsmenn kommúnisma á Vesturlöndum höfðu reyndar löngu áður hellst úr lestinni. Tími kommúnismans virtist í meira lagi liðinn.

Svo fylgir fremur mislukkað myndmál um vofu kommúnismans sem frjálshyggjumenn eiga nú að hafa vakið upp til að beina athyglinni frá því hvað kapítalisminn sé sjálfur illa misheppnaður. Síðan bætir Stefán við:

„En hvers vegna skyldu róttækir frrjálshyggjumenn [sic], eins og Þór Whitehead og Hannes Hólmsteinn, vera að skrifa sagnfræði- og myndabækur um löngu dauða hugmyndafræði? Eða halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum?

Þeir fengu meira að segja hinn glögga og skemmtilega Egil Helgason til að skenkja tevatni á miðilsfundi um málið í dag.“

Sjötíu til hundrað árum? Sem sagt 1912 til 1942? Er það tímabilið sem illska kommúnismans nær yfir að mati Stefáns Ólafssonar? Það var nú eiginlega ekki byrjað að dreifa kommúnismanum um heiminn að ráði þá. Hvað með allar hreinsanir í lok seinni heimstyrjaldarinnar? Hernám Eystrasaltsríkjanna? Valdarán og kosningasvik í Austur-Evrópu? Innrásina í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968? “Stóra stökkið” hans Mao sem kostaði tugmilljónir lífið? Telur þetta ekki?

Á umræddum „miðilsfundi“ var meðal annars stödd Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland. Stór hluti þeirrar bókar gerist nú bara í hinum löngu geymda og grafna níunda áratug seinustu aldar, svona um það leyti Red Hot Chilli Peppers og Radiohead voru stofnaðar og Spaugstofan hóf göngu sína. Þeir sem dóu í mótmælunum á torgi hins himneska friðar 1989 eða í Litháen 1991 væru margir í kringum fertugt, fimmtugt í dag. Já, ótrúlegt að menn séu enn að velta sér upp úr þessu!

Það er ekki lengra síðan að kommúnisminn leið undir lok í okkar heimshluta að ég sem er þrjátíu tveggja ára í dag náði að læra það í landafræði á sínum tím að Alþýðulýðveldið Pólland hefði þessi nágrannaríki: Sovétríkin, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskaland. Raunar þurftu sjö ára börnin auðvitað að læra löngu nöfnin: Samband sósíalískra ráðstjórnarríkja, Tékkóslóvakíska Alþýðulýðveldið og Lýðræðislega lýðveldið Þýskaland. Ekki datt mér í hug að þessi kunnátta yrði úreld innan fjögurra ára.

Svo er auðvitað ekki eins og kommúnisminn sé liðinn undir lok. Ekki á Kúbu. Ekki í Norður-Kóreu. Ekki í Kína. Menn kalla sig kommúnista Íslandi án þess að skammast sín fyrir það og alltaf eru menn til í að malda í móinn fyrir þessa stefnu og ættingja hennar. Í ágúst var haldin námskeiðaröð undir merkjum marxismans og heilir fjórir kennarar í þeim síðsumarskóla rötuðu í Víðsjá Ríkisútvarpsins. Eitt námskeiðið fjallaði um þörfina á byltingarsinnuðum stjórnmálaflokki (bylting er ekkert krúttorð, það þýðir “ofbeldi”, fólk er lamið og fólk deyr). Þingmenn mættu á þessa viðburði. Leslistar fyrir nokkur námskeiðanna samanstóðu af verkum Marx og Leníns.

Ég vil ekki nota stór orð en ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta pinku skrýtið. En kannski er ég bara svo gamall. Ég meina ég fæddist í kommúnistaríki. Ég hlýt að vera að minnsta kosti sjötugur.

Leave a Reply

Your email address will not be published.