Árás á fjölskylduna

Um allan heim er ráðist á fjölskylduna. Verstu árasirnar koma frá fólki sem notar orð á borð við: „Um allan heim er ráðist á fjölskylduna.“

Ég verð að koma með smá játningu um eigin vangetu sem pistlahöfundar. Á þessum stað í pistli um fjölskyldur fannst mér við hæfi að skilgreina fjölskyldur. Ég skrifaði nokkur orð um ást, umhyggju, hamingju, sameiginleg markmið, þroskaferli. Fannst það væmið, endurskrifaði, strikaði út, bætti við, breytti. Eftir nokkrar umferðir að lyklaborðshamri í næturgalsa stóð eftirfarandi setning á skjánum hjá mér.

„Fjölskylda er hópur fólks sem leitast við að hámarka hagnað sinn.“

Þar hló ég að sjálfum mér. Ég ætlaði eiginlega fyrst að skrifa „hamingja“ en skrifaði óvart „hagnaður“. En þetta var auðvitað það innilega markaðshyggjulega plebbalegt að ég gat ekki annað en látið það standa, þótt ekki væri nema um stund. Bara svo aðrir gætu hlegið að mér.

***

Ætli sé ekki best að játa sig sigraðan þegar kemur að því að skilgreina fjölskyldu. Það kannski best, því oftast þegar menn reyna þá enda menn með að útiloka fullt af fjölskyldum. Ætli skásta skilgreininginn sem mér dettur í hug sé ekki hringskilgreining eins og þessi:

„Fjölskylda er hópur fólks sem lítur á sig sem fjölskyldu.“

Fjölskylda er þannig ekki „Fólk af gagnstæðu kyni og börn“. Það er auðvitað dæmi um fjölskyldu. En það er ekki tæmandi lýsing á fjölskyldu.

Miðað við hve margir úti í hinum stóra þykjast tala fyrir fjölskyldugildum er ótrúlegt hve mörgum þeirra er annt um að fjölskyldan verði skilgreind sem þrengst. Að sem fæstir njóti þeirrar verndar sem lög veita gjarnan fjölskyldum, og að sem fæstir fái yfirhöfuð að stofna fjölskyldu eða tilheyra henni. Þetta virðist skilningur kaþólsku kirkjunnar, flestra austurkirkna og þorra evangelista:

„Karl og kona. Alls ekki hommar eða lesbíur. Einstæðar mæður geta reynt að reka fjölskyldur, en þær fjölskyldur eru lélegri.“

Kaþólska kirkjan, og margir aðrir söfnuðir berjast enn fremur gegn því að gagnkynhneigð pör geti stofnað fjölskyldu, ef þau eru þjást af sjúkdómum eins og ófrjósemi sem hindra að þau geti eignast börn. Margir þessara trúarsöfnuða koma vissulega fram af ákveðinni auðmýkt þegar þær flytja boðskap sinn í umhverfi þar sem hommaandúð og annað haturtal myndi falla í grýttan jarðveg, en það er ekki auðvelt að fyrirgefa það hvernig þeir haga sér í löndum þar sem völd þeirra eru öllu meira. Í Póllandi leggur flokkur með sterkar rætur innan kaþólsku kirkjunnar að tæknifrjóvgun verði refsiverð og viðurlög verði fangelsisvist. Um alla Mið-, Austur-, og Suður-Evrópu berjast liðsmenn Vatíkansins gegn öllum réttarbótum samkynhneigðra.

Vestanhafs getur enginn hægrimaður (og til skamms tíma: enginn maður) sóst eftir forsetaembætti án þess að segjast trúa því að hjónaband sé einungis milli karls og konu. Rétt eins og þetta væri bara spurning um smekk, en ekki rök eða sjálfsagðan rétt fólks til að verða hamingjusamt.

Það þarf að setja sig upp á móti þeim sem reynt hafa að ræna orðinu „fjölskylda“. Það þarf að tala gegn þeim sem láta „fjölskyldugildi“ þýða „hommahatur“, gegn þeim sem telja að barn ætti „auðvitað“ að alast upp hjá bæði föður og móður, gegn þeim sem telja að sum börn eigi ekki rétt á að koma í heiminn, eða séu fædd verri þar sem foreldrar þeirra framkvæmdu ekki einhvern hátíðlegan gjörning fyrir getnaðinn.

Við þurfum að biðja þetta fólk um að hætta, vinsamlegast, að veitast að fjölskyldunni.

Leave a Reply

Your email address will not be published.