Bara til að græða á því

Þeir sem gagnrýna aðra fyrir að gera eitthvað „bara“ til að að græða á því átta sig örugglega sjaldnast á því hve erfitt það getur verið að græða á einhverju.

Sumir hafa einhvern tímann hugsað hugsanir á borð við: „Ég bara gef út bók og græði á henni. Ég bara opna vefsíðu, set á hana auglýsingar og græði. Ég bara opna skemmtistað og græði.“ Sumir þeirra hafa fylgt fyrripörtum þeirra setninga eftir. Látið vaða. En afar fáum tekst að láta seinni hlutann rætast. Það er erfitt að græða.

Ímyndum okkur 5000 kall. Við gefum þennan seðil ekki svo glatt frá okkur. Ég held til dæmis að fáir myndu kaupa álfinn eða aðra styrktarfígúrur ef þær kostuðu 5000 kall. Við viljum fá eitthvað fyrir 5000 kall.

Hugsum okkur nú mann sem ætlar sér að gera eitthvað drasl fyrir fólk, segjum að veita mönnum ráðgjöf um mataræði. Þessi maður þarf að fá hundrað manns til að gefa sér 5000 kall til að hann geti borgað sér sæmileg laun og átt efni á sköttum, tryggingum og lagt fyrir í lífeyrissjóð, svo ekki sé minnst á annan kostnað. Þetta þarf hann að gera í hverjum mánuði. Fá hundrað manns til að gefa sér 5000 kall. Bara til að “græða á því.“

Góð vinkona mín ætlar að gefa út bók byggða á kynlífsfantasíum kvenna. Viðbrögð sumra við fréttum af þessum fyrirætlunum voru eins og við var að búast af íbúum bældrar eyju. Svo bættist gróðahneykslunin við. Eitt væri ef menn ætluðu að safna svona dónaskap í „rannsókn“ en að einhver ætlaði sér að „græða á þessu“! Fuss!

Auðvitað er hægt að leggja aðra merkingu í orðin „bara til að græða á því“, það er að menn hafi enga ástríðu fyrir því sem þeir gera, bara ástríðu til að hagnast á því. En af reynslunni að dæma þá er nógu erfitt að græða á einhverju þótt menn hafi endalausa ástríðu fyrir því sem þeir taka sér fyrir hendur. Hvað þá ef þeim leiðist það sem þeir eru að gera.

Þótt velferðarkerfið mætti gjarnan vera minna í sniðum, held ég að fáir myndu kjósa að vera algjörlega án þess. Það verður að viðurkennast að sumt af því sem norræn ríki gera er alveg ágætt. En útgjöld krefjast tekna. Við megum ekki gleyma því að að við gætum ekki haft neitt velferðarkerfi, hvað þá öflugt, ef ekki væri fyrir lið sem skrifar bækur, opnar byssubúðir, bræðir ál, veiðir fisk, slátrar kjúklingum, lánar peninga og býr til tölvuleiki. Bara til að græða á því.

Leave a Reply

Your email address will not be published.