Árás á fjölskylduna

Um allan heim er ráðist á fjölskylduna. Verstu árasirnar koma frá fólki sem notar orð á borð við: „Um allan heim er ráðist á fjölskylduna.“

Ég verð að koma með smá játningu um eigin vangetu sem pistlahöfundar. Á þessum stað í pistli um fjölskyldur fannst mér við hæfi að skilgreina fjölskyldur. Ég skrifaði nokkur orð um ást, umhyggju, hamingju, sameiginleg markmið, þroskaferli. Fannst það væmið, endurskrifaði, strikaði út, bætti við, breytti. Eftir nokkrar umferðir að lyklaborðshamri í næturgalsa stóð eftirfarandi setning á skjánum hjá mér.

„Fjölskylda er hópur fólks sem leitast við að hámarka hagnað sinn.“

Þar hló ég að sjálfum mér. Ég ætlaði eiginlega fyrst að skrifa „hamingja“ en skrifaði óvart „hagnaður“. En þetta var auðvitað það innilega markaðshyggjulega plebbalegt að ég gat ekki annað en látið það standa, þótt ekki væri nema um stund. Bara svo aðrir gætu hlegið að mér.

***

Ætli sé ekki best að játa sig sigraðan þegar kemur að því að skilgreina fjölskyldu. Það kannski best, því oftast þegar menn reyna þá enda menn með að útiloka fullt af fjölskyldum. Ætli skásta skilgreininginn sem mér dettur í hug sé ekki hringskilgreining eins og þessi:

„Fjölskylda er hópur fólks sem lítur á sig sem fjölskyldu.“

Fjölskylda er þannig ekki „Fólk af gagnstæðu kyni og börn“. Það er auðvitað dæmi um fjölskyldu. En það er ekki tæmandi lýsing á fjölskyldu.

Miðað við hve margir úti í hinum stóra þykjast tala fyrir fjölskyldugildum er ótrúlegt hve mörgum þeirra er annt um að fjölskyldan verði skilgreind sem þrengst. Að sem fæstir njóti þeirrar verndar sem lög veita gjarnan fjölskyldum, og að sem fæstir fái yfirhöfuð að stofna fjölskyldu eða tilheyra henni. Þetta virðist skilningur kaþólsku kirkjunnar, flestra austurkirkna og þorra evangelista:

„Karl og kona. Alls ekki hommar eða lesbíur. Einstæðar mæður geta reynt að reka fjölskyldur, en þær fjölskyldur eru lélegri.“

Kaþólska kirkjan, og margir aðrir söfnuðir berjast enn fremur gegn því að gagnkynhneigð pör geti stofnað fjölskyldu, ef þau eru þjást af sjúkdómum eins og ófrjósemi sem hindra að þau geti eignast börn. Margir þessara trúarsöfnuða koma vissulega fram af ákveðinni auðmýkt þegar þær flytja boðskap sinn í umhverfi þar sem hommaandúð og annað haturtal myndi falla í grýttan jarðveg, en það er ekki auðvelt að fyrirgefa það hvernig þeir haga sér í löndum þar sem völd þeirra eru öllu meira. Í Póllandi leggur flokkur með sterkar rætur innan kaþólsku kirkjunnar að tæknifrjóvgun verði refsiverð og viðurlög verði fangelsisvist. Um alla Mið-, Austur-, og Suður-Evrópu berjast liðsmenn Vatíkansins gegn öllum réttarbótum samkynhneigðra.

Vestanhafs getur enginn hægrimaður (og til skamms tíma: enginn maður) sóst eftir forsetaembætti án þess að segjast trúa því að hjónaband sé einungis milli karls og konu. Rétt eins og þetta væri bara spurning um smekk, en ekki rök eða sjálfsagðan rétt fólks til að verða hamingjusamt.

Það þarf að setja sig upp á móti þeim sem reynt hafa að ræna orðinu „fjölskylda“. Það þarf að tala gegn þeim sem láta „fjölskyldugildi“ þýða „hommahatur“, gegn þeim sem telja að barn ætti „auðvitað“ að alast upp hjá bæði föður og móður, gegn þeim sem telja að sum börn eigi ekki rétt á að koma í heiminn, eða séu fædd verri þar sem foreldrar þeirra framkvæmdu ekki einhvern hátíðlegan gjörning fyrir getnaðinn.

Við þurfum að biðja þetta fólk um að hætta, vinsamlegast, að veitast að fjölskyldunni.

Hin tímabundna eilífa snilld

Á nokkurra ára fresti rekur upp á yfirborðið ný fyrirtæki sem virðast ósigrandi. Xerox var eitt sinn þannig fyrirtæki, IBM einnig. Síðan kom Microsoft. Síðan kemur Google og allt sem fyrirtækið snertir verður gagrandi snilld: Þeir eru með bestu leitarvélina, vinsælasta netfangaþjóninn og starfsmenn sem eyða tíma sínum í að hanna bíl sem keyrir sjálfur. Svo kemur Facebook, fyrirtæki sem virðist um stundir netinu stærra. En ekkert af þessu varir að eilífu.

Á þeim tíma sem ég hef fylgst með íslenskri þjóðmálaumræðu hafa þónokkur fyrirtæki haft þá ímynd að vera slíkar verksmiðjur spúandi snilldar að eigendur þeirra og stjórnendur hlytu að eiga efni á nánast hverju sem er. Íslensk erfðagreining var þannig í þessari stöðu fyrir rúmum áratug. Í tengslum við hið endanlaust ókláraða Náttúrufræðihús, sem hlaut síðan nafnið Askja, voru komnar uppi spurningar um hvers vegna DeCode gæti ekki bara klárað húsið fyrir Háskólann. Þeir hlytu að græða svo svakalega mikið á því að hafa betri háskóla við hlið sér, talandi ekki um hvað umtalið yrði gott.

Hálfum áratug síðar voru íslensku bankarnir komnir í sömu stöðu. Væntingar til þeirra frá almenningi og þeim sjálfum voru slíkar að það þótti ekkert óeðlilegt við það að þessi fyrirtæki myndu fjármagna tónlistarhallir og aðra snilld sem ekkert tengdist starfsemi þeirra. Og oft reyndu þau sitt besta til að standa undir þeim væntingum.

Þótt hált sé á toppnum er alltaf þar alltaf pláss fyrir einn eða tvo, því sama hvernig mönnum gengur er alltaf einhver sem stendur sig betur en aðrir. Ætli tölvuleikjabransinn, með fyrirtæki á borð við CCP í broddi fylkingar, eigi ekki „á hættu“ á að verða næsta tímabundna eilífa snilld í hugum landsmanna. Í því felst vitanlega engin ósk um þeim iðnaði vegni illa, þvert á móti. Hins vegar ættum við kannski að hafa á því skilning að í þekkingarbransanum er samkeppnin hörð og fáum tekst að lifa af í mörg ár, hvað þá að leiða í mörg ár. Kannski væri því rétt að menn stilltu sínar væntingar til vinsældarverkefna íslenskra fyrirtækja í ákveðið hóf.

Bara til að græða á því

Þeir sem gagnrýna aðra fyrir að gera eitthvað „bara“ til að að græða á því átta sig örugglega sjaldnast á því hve erfitt það getur verið að græða á einhverju.

Sumir hafa einhvern tímann hugsað hugsanir á borð við: „Ég bara gef út bók og græði á henni. Ég bara opna vefsíðu, set á hana auglýsingar og græði. Ég bara opna skemmtistað og græði.“ Sumir þeirra hafa fylgt fyrripörtum þeirra setninga eftir. Látið vaða. En afar fáum tekst að láta seinni hlutann rætast. Það er erfitt að græða.

Ímyndum okkur 5000 kall. Við gefum þennan seðil ekki svo glatt frá okkur. Ég held til dæmis að fáir myndu kaupa álfinn eða aðra styrktarfígúrur ef þær kostuðu 5000 kall. Við viljum fá eitthvað fyrir 5000 kall.

Hugsum okkur nú mann sem ætlar sér að gera eitthvað drasl fyrir fólk, segjum að veita mönnum ráðgjöf um mataræði. Þessi maður þarf að fá hundrað manns til að gefa sér 5000 kall til að hann geti borgað sér sæmileg laun og átt efni á sköttum, tryggingum og lagt fyrir í lífeyrissjóð, svo ekki sé minnst á annan kostnað. Þetta þarf hann að gera í hverjum mánuði. Fá hundrað manns til að gefa sér 5000 kall. Bara til að “græða á því.“

Góð vinkona mín ætlar að gefa út bók byggða á kynlífsfantasíum kvenna. Viðbrögð sumra við fréttum af þessum fyrirætlunum voru eins og við var að búast af íbúum bældrar eyju. Svo bættist gróðahneykslunin við. Eitt væri ef menn ætluðu að safna svona dónaskap í „rannsókn“ en að einhver ætlaði sér að „græða á þessu“! Fuss!

Auðvitað er hægt að leggja aðra merkingu í orðin „bara til að græða á því“, það er að menn hafi enga ástríðu fyrir því sem þeir gera, bara ástríðu til að hagnast á því. En af reynslunni að dæma þá er nógu erfitt að græða á einhverju þótt menn hafi endalausa ástríðu fyrir því sem þeir taka sér fyrir hendur. Hvað þá ef þeim leiðist það sem þeir eru að gera.

Þótt velferðarkerfið mætti gjarnan vera minna í sniðum, held ég að fáir myndu kjósa að vera algjörlega án þess. Það verður að viðurkennast að sumt af því sem norræn ríki gera er alveg ágætt. En útgjöld krefjast tekna. Við megum ekki gleyma því að að við gætum ekki haft neitt velferðarkerfi, hvað þá öflugt, ef ekki væri fyrir lið sem skrifar bækur, opnar byssubúðir, bræðir ál, veiðir fisk, slátrar kjúklingum, lánar peninga og býr til tölvuleiki. Bara til að græða á því.