Subbuskapurinn, subbuskapurinn

Líklegast hafa fleiri migið á vegg í miðbæ Reykjavíkur, brotið glös og hent áldósum gangstétt en vilja við það kannast. Án þess að slík hegðun sé endilega til eftirbreytni, þá hafa flestir einhvern tímann verið ungir, heimskir og fullir. Margt má betra við tímann en að hneykslast á því að drukkið fólk drasli oft út.

Flestir borgarstjórar Reykjavíkur hafa einhvern tímann á ferli sínum ákveðið að skera upp herferð gegn “subbuskapnum” í borginni. Jú, vissulega er drasl pirrandi. En hve mikið er samt hægt að hrista hausinn yfir því að það séu glerbrot út um allt eftir Menningarnótt, Gay pride eða aðra viðburði þar sem þúsundir manna koma saman. Ég hef búið í öðrum borgum. Ef það er ungt fólk í borginni þá er djamm, og ef það er djamm þá er líka drasl eftir djamm. Menn þurfa bara að þrífa.

Ég skal þá líka viðurkenna að mér finnast götusópunarhljóðin og súrnaða bjór- og glerblotalyktin sem fylgja gjarnan morgunþrifum á Laugarveginum oft undarlega frískandi. Á sama hátt og það er frískandi að skola sígarettustubba úr bjórdósum eftir partý, þjappa álinu saman og pakka því í poka. Það er hluti því að halda partý að þurfa að skúra gólfið, bæði fyrir og eftir. Maður er ekki óheppinn ef nokkur glös brotna, heldur heppinn ef ekkert þeirra gerir það.

Ég dvel nú í EM-borg. Ef menn ætluðu væla yfir subbuskap og fyllerí í tengslum við EM þá gætu menn gert það daginn langan. Samt er það svo að lönd og borgir leitast mjög við að fá þetta fyllerí og þennan subbuskap til sín. Það er eftirsóknarvert að halda stórt partý, minna eftirsóknarvert að þrífa eftir það, en þetta tvennt verður ekki aðskilið sama hve mikið maður röflar yfir því síðarnefnda.

Án þess að maður haldi uppi sérstökum vörnum fyrir sóðaskap, þá vil ég miklu frekar búa á stað þar oft þarf að þrífa heldur en á stað þar sem enginn gengur um og enginn gengur þar af leiðandi illa um. Ég skil að menn vilji hafa borg sína hreina en stundum finnst mér álíka tilgangsmikið að kvarta yfir djammtengum óþrifnaði eins og kvarta undan ryki eða dúfnaskít. Umræðan nær manni bara ákveðið langt. Stundum þarf bara að kvarta minna, og þrífa meira.

Leave a Reply

Your email address will not be published.