Fyrirfram vitað eftir á

Ég sé að þingmaður Hreyfingarinnar Þór Saari, segir mig “misskilja” það ferli sem nú er í gangi varðandi stjórnarskrár breytingar. Í pistli á heimasíðu sinni segir hann: (feitletranir eru mínar)

Það lá fyrir frá upphafi hvert ferlið yrði þegar Alþingi útvistaði gerð nýrrar stjórnarskrár. Til að tryggja þátttöku almennings og að enginn einn aðili eða hópur fólks gæti ráðið málinu á einstökum stigum þess var fyrst boðað til 1.000 manna Þjóðfundar með slembivali (sem gefur fullkomið þversnið af þjóðinni). Síðan valdi Alþingi sjö manna Stjórnlaganefnd sem skyldi taka saman gögn þjóðfundarins sem og önnur sem hafa verið unnin í stjórnarskrármálum gegnum tíðina og leggja þau fyrir þjóðkjörið Stjórnlagaráð sem 84.000 manns kusu. Tillögur þess skyldu fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu áður en Alþingi fengi þær til meðferðar til að þingið gæti stuðst við vilja þjóðarinar eins og hann birtist í þeirri akvæðagreiðslu. Þá og fyrst þá mun Alþingi taka efnilega afstöðu til frumvarpsins og einstakra þátta þess eins og því ber að gera samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og til þess mun þingið hafa heilt ár.

Ég ætla að leyfa lesendum að dæma um hvort það hafi alltaf “legið fyrir” að tillögur stjórnlagaráðs ættu að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæði áður en þingið tæki þær til efnislegrar meðferðar.

Lítum fyrst á lögin um stjórnlagaþing.  Í framhaldsnefndaráliti allsherjarnefndar milli 2. og 3. umræðu segir m.a. um þessi mál:

Nefndin telur mikilvægt að almenningur fái tækifæri til að segja álit sitt á fyrirhuguðum stjórnarskrárbreytingum áður en þær öðlast gildi. Að mati nefndarinnar koma fjórar leiðir til álita í þeim efnum. Í fyrsta lagi að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöður stjórnlagaþings og er þá hugsanlegt að kjósendur fái tækifæri til að greiða atkvæði um einstök ákvæði nýrrar stjórnarskrár eða eftir atvikum einstaka kafla hennar. Niðurstöður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrðu þá ráðgefandi fyrir Alþingi við umfjöllun um frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Nefndin telur að kostir slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu séu helst þeir að þá fái þjóðin tækifæri til að lýsa afstöðu sinni til einstakra atriða strax á undirbúningsstigi breytinganna og geti þannig hugsanlega haft meiri áhrif en ella á endanlega niðurstöðu um einstök atriði. Nefndin bendir á að gallar þessarar leiðar eru hins vegar fyrst og fremst að atkvæðagreiðslan getur einungis orðið ráðgefandi sem þýðir að óvíst er hvort og þá að hvaða marki alþingismenn telja sér fært að fylgja niðurstöðum slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Á þetta ekki síst við í ljósi þess að frumvarp til stjórnarskipunarlaga kann að taka ýmsum breytingum í meðförum Alþingis.
    Í öðru lagi kemur til greina að efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að Alþingi hefur lagt fram drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu leggi Alþingi frumvarpið svo fram til samþykktar. Þannig yrði frumvarpið borið undir þjóðina á milli umræðna á Alþingi sem tæki síðan afstöðu til þess.
    Í þriðja lagi er unnt að efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga og að atkvæðagreiðslan fari þá fram samhliða alþingiskosningum sem þá verða haldnar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrði þá ráðgefandi fyrir nýkjörið þing að afloknum alþingiskosningum sem hefur það hlutverk samkvæmt stjórnarskránni að taka endanlega afstöðu til þess hvort stjórnarskrárbreytingarnar skuli öðlast gildi eða ekki. Kostur þessarar leiðar í samanburði við þær fyrri er að kjósendur fá tækifæri til að greiða atkvæði um endanlegar tillögur að stjórnarskrárbreytingum. Megingallinn er sem fyrr að þjóðaratkvæðagreiðslan getur einungis, vegna ákvæða stjórnarskrárinnar, verið ráðgefandi. Í þessu tilviki yrði hún ráðgefandi gagnvart nýju þingi sem hefði það hlutverk að taka endanlega afstöðu til stjórnarskrárbreytinganna.
    Í fjórða og síðasta lagi kemur til greina að í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga verði ákvæði sem feli í sér fyrirvara um að tilgreindar stjórnarskrárbreytingar öðlist ekki gildi nema þær séu samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ferill málsins yrði þá með þeim hætti að eftir að stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga gengur það til Alþingis til meðferðar. Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarpið er þing rofið og efnt til alþingiskosninga í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þegar og ef nýtt þing staðfestir stjórnarskrárbreytingarnar eru þær bornar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nefndin tekur fram að þessi leið hefur þann kost að almenningur hefur hið endanlega ákvörðunarvald um það hvort stjórnarskrárbreytingarnar skuli öðlast gildi eða ekki. Þjóðaratkvæðagreiðslan verður með öðrum orðum bindandi.
    Nefndin telur að skoða þurfi betur kosti og galla þeirra leiða sem hér hafa verið raktar enda ekkert sem knýr á um að tekin sé afstaða til þeirra við afgreiðslu þessa frumvarps. Nefndin telur mikilvægt að á stjórnlagaþingi verði fjallað um hvaða leið verði farin og tekin afstaða til þess hvaða leið skuli farin og hefur því lagt til breytingu sem hefur verið samþykkt, þ.e. að við upptalningu viðfangsefna stjórnlagaþings í 3. gr., þ.e. 6. tölul., þar sem mælt er fyrir um lýðræðislega þátttöku almennings, bætist: m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

Þannig að allsherjarnefnd bauð á sínum tíma upp á fjóra valkosti og fór stjórnlagaþingi að gera tillögur um hvaða leið yrði farinn.

Eftir ógildindingu Hæstaréttar ákvað þingið að skipa stjórnlagaráð í stað stjórnlagaþings. Það var gert með þingsályktunartillögu.

Í greinargerð með þeirri tillögu segir m.a.:

Ekki var ákveðið endanlega við undirbúning laga nr. 90/2010 hvenær sú þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi fara fram en gert var ráð fyrir að stjórnlagaþing hefði tillögurétt í þeim efnum. Í þingsályktunartillögu þessari er sömuleiðis gert ráð fyrir að stjórnlagaráð setji fram tillögu um þetta efni, sbr. 6. tölul. 2. mgr. tillögugreinarinnar.

Vissulega lögðu þingmenn Hreyfingarinnar fram breytingartillögu  sem hljóðaði svo:

Áður en umfjöllun Alþingis um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefst skal fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs.

Þessi tillaga var felld með 42 atkvæðu gegn 6.

Nú skal raunar tekið fram að í nefndaráliti með þingsályktunartillögunni segir vissulega “Meiri hlutinn ítrekar þau sjónarmið sem þar koma fram og er það vilji meiri hlutans að taka eins og hægt er tillit til hugmynda sem fram hafa komið um að efnt verði til kosningar um niðurstöður stjórnlagaráðs áður en þær koma til kasta Alþingis.

Þór Saari ritaði undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Síðan lagði hann fram breytingartillögu þá sem líst var að ofan og var. Menn geta sjálfir dæmt um hvort þetta styrki þá staðhæfingu að hann hafi á þeim tíma talið að það “lægi fyrir” að drögin færi í þjóðaratkvæði áður en Alþingi tæki þau til meðferðar.

Af þessum skjölum að dæma er það mitt mat að það sé ekki rétt sem Þór Saari heldur fram að það verklag sem nú er viðhaft hafi “alltaf legið fyrir”. Það var stjórnlagaráðs að leggja til hvert framhaldið yrði.

Til að fara ekki eins og köttur í kringum heitan graut þá voru fulltrúar í ráðinu ekki sammála um hvernig þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar skyldi háttað sem lýsir sér í því að ráðið segir í skilabréfi sínu einungis að “Fulltrúar í Stjórnlagaráð eru einhuga um að veita beri landsmönnum öllum færi á að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá áður en Alþingi afgreiðir frumvarpið endanlega.” Sjónarmið Þórs Saari áttu sér fjölmarga stuðningsmenn innan stjórnlagaráðs. Sú leið að setja tillögurnar í ráðgefandi þjóðaratkvæði áður en þingið mótaði sér nokkra afstöðu til þeirra hafði vissulega verið ein þeirra sem nefnd var, og hún varð fyrir valinu í afgreiðslu þingsins núna á miðvikudag. En að halda því fram að hún hafi “alltaf legið fyrir” er að mínum dómi sannleikanum fjarlægt.

Skildu eftir svar