Heimssafn í Reykjavík

Hve margir ætli þurfi að deyja áður en Íslendingar ákveða loksins að byggja sér safn sem tileinkað er menningu og vísindum annarra þjóða?

Nei, allt í lagi, kannski fullsterkt til orða tekið. Byrjum aðeins rólegar.

Fæðingarorlofið er tími sem við elítistarnir nýtum vel í að ýta barnavögnum okkar um bæinn og ónáða vinnandi fólk í matarhléum. Þetta er líka tími til að þaulkynnast hvers kyns stórum og opnum rýmum innanhús í miðbænum. Það er reyndar ekki mjög mikið um verslunarmiðstöðvar í 101, en söfn bæjarins meira en bæta fyrir það.

Borgarbókasafnið er snilld. Sjávarminjasafnið og Þjóðminjasafnið standa fyrir sínu. Listasafn ASÍ er ágætt. Hafnarhúsið fínt líka, þótt þeim sé raunar eitthvað illa við barnakerrur.

Kannski er það meginlandsuppruninn en ég hugsaði stundum, að það væri ekki leiðinlegt að sjá eina og eina Monet mynd innan um alla Kjarvalana. Eða alla vega nokkur erlend málverk. Svona til að við gerðum okkur betur grein fyrir að okkar list var auðvitað ekki sköpuð í einhverri einangrun. Eyþjóðum hættir reyndar til að draga slík hugræn landamæri við mörk landhelginnar. Við Íslendingar erum engin undantekning.

Í menntaskóla las ég heila bók um bókmenntastefnur á Íslandi. Íslenskan módernisma og íslenska nýrómantík. Ég spurði íslenskukennarann hvers vegna ekki væru lesnar neinar erlendar bækur. “Í íslensku?” spurði hann undrandi á móti.

Mig dreymir stundum um stað í Reykjavík þar sem ég get ekki bara upplifað mig sem hluti af merkri þjóð sem vill kynna menningu sína fyrir erlendum gestum, heldur einnig sem hluta af mannkyninu. Ég vil sjá líkan af byggðum frummannsins í Afríku og sal um landbúnaðarbyltinguna. Ég vil sjá plasteftirlíkingar af hellumálverkum, rómverska peninga og falsaðar grískar styttur. Ég vil sjá sýningu um vísindin, um Tycho Brache, Kóperníkus og Newton. Sal um hörmungar 20. aldarinnar. IMAX bíó með myndum um Sólkerfið. Ég held að svona safn væri af hinu góða.

Er ég að krefjast þess að skattborgarar landsins leggist á eitt og byggi fyrir mig eitt stykki heimssafn? Nei, því fer fjarri. Ég skal borga það sjálfur. Ég reyndar ekki fyrir því akkúrat núna, en ef breytist það einhvern tímann, þá skal ég gera það. Og þá skal enginn segja að ég hafi klikkast í ellinni. Þessi skrif eru þá allavega vitnisburður um að geðveikin hafi átt sér lengri aðdraganda.

[Myndir sem notast var við:]
http://pabamapa.com/wp-content/uploads/2012/01/heimssafn.gif
http://www.flickr.com/photos/sveinnbirkir/4152288985/
http://www.flickr.com/photos/yewenyi/338777952/

Má ég kynna… Dómskerfið

Stundum mætti halda, miðað við umræðuna, að samfélagið hefði bara alls engar leiðir til á ráða fram úr deilumálum aðrar en múgæsingu og hópþrýsting. Til allrar hamingju er það ekki svo, þótt þær leiðir sem í boði eru taki vissulega lengri tíma en þann sem það tekur að dúndra upp status og telja lækin.

Það er “krafa samfélagsins” að hlutir gerist hratt. Í hverju málinu á fætur öðru er farið fram á einhvers konar skyndiréttlæti. Tökum brjóstapúðaumræðuna sem dæmi. Í því máli hafa nöldrarar landsins geta sameinað tvö af áhugamálum sínum, hatur á peningum og hatur á fegrunaraðgerðum. Svo heppilega vill líka til að hægt er að finna lækna sem framkvæmdu slíkar aðgerðir, og þar með er heygaflafólkið komið með stað til að mæta á. Menn nota svo orðfæri eins og “að troða púða í brjóst á konum” eins og ekkert sé sjálfsagðara að nota orðalag sem gefur til kynna þvingun um nokkuð sem enginn lætur gera nema af fúsum og frjálsum vilja.

Nú þykist ég ekki vita margt um skaðabótaábyrgð. Hitt veit ég þó að það hlýtur að hafa gerst áður að einhver hafi selt einhverjum gallað drasl sem einhver enn annar framleiddi. Það má ekki láta eins og hér sé á ferðinni einhver óleysanleg lagaflækja sem samfélagið í heild sinni verði að taka þátt í að ráða fram úr. Um þetta eru til lög, og ef einhverjir eru ósammála um hvernig þau beri að túlka þá eru til leiðir til að leysa úr því, frammi fyrir dómstólum. En það er vissulega alltaf ákveðin hætta að stjórnvöld án sjálfsvirðingar reyni verða við kröfum um skyndiréttlæti. Vegna “sterkrar kröfu utan úr samfélaginu”.

Á þessum tímum er það dálítið þannig að þegar einhverjir rífast eða fokka upp, þurfa allir sjálfsmetandi menn strax að hafa skoðun á því málinu og tilkynna öðrum hver niðurstaðan eigi að vera. Væri stundum ekki farsælla að leyfa þeim kveða upp úrskurð sem hafa atvinnu af því að spá í hlutum, frekar en að kveða hann upp sjálfur, án þess að vita nokkur og spá enn minna?

Kannski væri betra að lifa í heimi þar sem ögn fleiri svöruðu spurningum um annarra manna deilumál með: “Ég veit það ekki. Ég þekki málið ekki nógu vel.”

„Bíðiði bara“

Forsetinn hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í embætti. Það er ágætt. Ólafur Ragnar Grímsson getur þá loksins talað frjálst og gert það sem honum sýnist. Sem hefur nú kannski ekki verið vandamálið hingað til.

Ólafur Ragnar breytti forsetaembættinu. Hann breytti í raun allri leikjafræðinni í kringum stjórnskipan og lagasetningu á Íslandi. Eitt dæmi þess er að við afgreiðslu Svavarssamningsins greiddu sumir þingmenn atkvæði með, en lýstu strax yfir að þeir hvöttu forsetann til að synja lögunum staðfestingar. Þeir voru sem sagt með en líka á móti. Slík afstaða hefði líklegast verið óhugsandi fyrir fyrstu beitingu forsetans á synjunarvaldinu. Þá vissu þingmenn að valdið væri þeirra en ekki annarra.

Forsetinn bauðst sem sagt að taka til sín hluta af völdum og ábyrgð þingmanna og þeir þingmenn sem ekki gátu horfst í augu við eigin ákvarðanir þáðu það með þökkum. Boltinn væri hjá forseta, var sagt. Forsetinn áframsendi boltann á kjósendur, og sagði ákvörðunina vera þeirra. Þannig þóttust þeir aðilar sem fara með löggjafarvald skv. stjórnarskráni komast hjá því að gera það.

Þess ber reyndar að geta að þrátt fyrir að flestir hefðu lengst af talið að vald forsetans í þeim efnum væri raunverulegt, þá var sá skilningur löngum algengastur, til dæmis í kosningabaráttunni 1996, að um væri að ræða “neyðarventil” en ekki tæki til að kalla fram þjóðaratkvæði, þjóðaratkvæðis vegna. Einn forsetaframbjóðandi lagði þó þann síðari skilning í ákvæðið. Sá fékk mikla athygli en minna fylgi.

Hafi beiting valdsins sem neyðarventils hugsanlega átt rétt á sér í fyrstu tveimur tilfellunum, fjölmiðlafrumvarpinu og IceSave II, og verið rökstudd með þeim hætti, þá er hæpið að slíkt hafi gilt í því þriðja. Aðalrökin þá voru einhvern veginn á þá leið að kjósendur ættu að fá að kjósa um málið aftur því þeir hefðu kosið um það áður. Þingið hafði samþykkti lögin með drjúgum meirihluta en þrír af fimm kjósendum vildu fella þau fyrir rest. Niðurstaðan af þrefaldri notkun 26. greinarinnar er sem sagt sú að þingmenn munu framvegis síður geta tekið óvinsælar ákvarðanir. Sama hvað afdrifum einstaka mála og ánægju manna með þau líður þá er þetta afleiðingin þegar til langs tíma er litið.

Skipun Ólafs á sjálfum sér í hlutverk sendiherra íslensks viðskiptalífs gerir verk þess sem vill finna í gömlum orðum hans fullyrðingar sem í dag standast síður skoðun auðvelt. Hér má finna ræðu Ólafs frá ráðstefnu á vegum Kaupþings þar sá tónn er sleginn að gagnrýni á íslenskt bankakerfi byggi á fáfræði. Niðurstaða: Við þurfum að byggja á glæstri sagnahefð okkar og kynna enn betur fyrir heiminum hvað við erum frábær. Sambærileg dæmi eru mörg.

Nú enn og aftur kveður við svipaðan tón hjá forseta. Í þetta skipti er þetta niðurstaða forsetans: “[Þjóðaratkvæðagreiðlsurnar um IceSave] vísuðu veginn í átt að auknu lýðræði, vöktu athygli og jafnvel aðdáun í öðrum löndum. Fjármálakreppan heldur enn mörgum þjóðum í heljargreipum og æ fleiri vilja kynnast því hvernig Ísland valdi aðra leið, kaus að láta lýðræðislegan rétt fólksins ráða för.” Þetta er úr nýársávarpi forsetans. Því síðasta.

Því er gjarnan haldið fram að að forseti eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Um árangur Ólafs á því sviði er hverjum auðvelt að dæma. En óskandi væri að eftirmaður hans fyndi sér aðra leið til að sameina Íslendinga en þá að reyna á hverjum tíma að kynda undir þær klisjur sem best falla að eyrum okkar.