Í minningu Vaclav Havel

Vaclav Havel lést í dag. Það var leitt. Leitun er að jafnglæstum og árangursríkum stjórnmálaferli og hans.

Hann var skáld, ötull baráttumaður fyrir frelsi og mannréttindum í sínu heimalandi og víðar. Þurfti að líða ýmislegt fyrir skoðanir sínar, sat í fangelsi í þónokkur ár. Hann var seinasti forseti Tékklóslóvakíu, á árunum 1989-1992 og fyrsti forseti Tékklands frá 1993 til 2003.

Hann skoraði á ferli sínum glæsilega þrennu sem einkennir aðeins örfá stórmenni. Í fyrsta lagi barðist hann með árangursríkum hætti gegn alræðisstjórn í landi sínu. Í öðru lagi komst hann til hæstu metorða innan hins lýðræðislega kerfis þegar hann var kosinn forseti Tékkóslóvakíu og síðan Tékklands (og endurkjörinn í það embætti einu sinni). Loks hætti hann með fullri reisn eftir að hafa séð flest markmið sín rætast.

Það er skondið, en pólski hlutinn í mér öfundaði stundum Tékka af því að eiga svona vandaðan forseta. Mælskt skáld, glæsilegan stjórnmálamann og einkar viðkunnanlega manneskju. Mann sem lét smámálapólitík innanlands ekki pirra sig en dró vagninn í stækkun NATÓ og ESB til austurs af fullum þunga. Því líkt og margir austurevrópskir leiðtogar var hann Vesturlandadýrkandi og besti vinur Bandaríkjanna. Hann studdi til dæmis inngrip NATO í Júgoslavíu og innrás Bandaríkjanna í Írak. Það mun hugsanlega bera minna á því í minningarnótum dagsins, sem og því vandlæti sem Noam Chomsky lýsti á honum fyrir kanaástina.

Líklegast hefði Vaclav Havel getað orðið forseti til æviloka ef hann kysi. Vissulega segir tékkneska stjórnarskráin að aðeins megi gegna forsetaembætti tvö kjörtímabil í röð, grunnlögum má breyta eða fara fram hjá þeim, ef nægur vilji er fyrir hendi. Í landi töluvert austar er stjórnmálamaður að hæðast að eigin stjórnarskrá með því að taka sér pásu frá forsetaembættinu meðan annar gegnir því í afleysingjum.

Það er eftirsjá eftir Vaclav Havel. En fráfall hans setur Tékkland ekki af sporinu og sjálf tilhugsunin um slíkt er eiginlega fáranlegt. Þótt það kunni að þykja sjálfsagt þá er þetta sjálfsagða samt hans mesti sigur. Hann hjálpaði til við að koma landi frá alræði til lýðræðis. Dauði hans skilur eftir sig sorg, en ekki ófyllanlegt skarð. Megi aðrar þjóðfrelsishetjur þessa heims taka sér hann til fyrirmyndar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.